Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Nú hefur það gerst að ákveðið hefur verið að taka hér í dag 2. og 3. umr. í þessu máli sem þýðir að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að keyra þetta mál fram með nokkuð óvenjulegum hraða. Við 2. umr. málsins var heldur lítið um svör af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hv. 18. þm. Reykv., frsm. 2. minni hl. hv. fjh.- og viðskn., nefndi það í sínum ræðum að bestu rökin gegn þessari hækkun væri að finna í ummælum hæstv. samgrh. sem á sínum tíma hefði barist eins og grenjandi ljón gegn því að sett væri á bifreiðagjald.
    Nú stendur þessi sami hæstv. ráðherra að því að hækka bifreiðagjaldið um u.þ.b. 50% og augljóslega er tilgangurinn sá að komast hjá því að skattar sem lagðir eru á umferðina, á bifreiðar, gangi til framkvæmda í vegamálum.
    Ég tel, virðulegur forseti, að óhjákvæmilegt sé að óska eftir að hæstv. ráðherra samgöngumála komi hér í ræðustól og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum og svari því sem kom fram hjá hv. frsm. 2. minni hl. nefndarinnar og skýri hv. Alþingi frá því hvernig á þessum sinnaskiptum standi. Það væri fróðlegt að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann fæst til að svara því, hvort hann telji viðunandi að leggja slíka skatta á umferðina, á bifreiðaeigendur, í því skyni að ríkissjóður fái þessa fjármuni til ráðstöfunar en þeir gangi ekki til vegamála eins og hefði gerst ef bensíngjald hefði hækkað með þeim hætti sem gert hafði verið ráð fyrir.
    Virðulegi forseti. Það er ástæðulaust að halda hér uppi langri umræðu um þetta mál en vegna þess að hæstv. ráðherra er kominn og hefur tekið sitt sæti á ný á hv. Alþingi finnst mér full ástæða til þess að hann verði inntur eftir því og að hann svari því þá hvort hann sé ánægður með þá stefnu sem þessi mál hafa tekið með því að taka skatta af bifreiðum beint í ríkissjóð og koma þannig í veg fyrir að bensíngjald verði hækkað, eins og ráðgert hafði verið, og að slík gjöld sem lögð eru á umferðina renni til framkvæmda í vegamálum.
    Í trausti þess að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir þessu og eins hinu, hvernig á hans sinnaskiptum standi, lýk ég hér máli mínu en legg eindregið til, virðulegur forseti, að málið verði fellt við atkvæðagreiðslu þegar þessari 3. umr. lýkur.