Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Það var einkum athyglisvert að hlusta á hæstv. ráðherra gera grein fyrir þeim sinnaskiptum sem orðið hafa og ég verð að lýsa því yfir að mér finnst hann mikill kjarkmaður að hafa komið hér upp í ræðustól og gefið þessa yfirlýsingu og þar með kyngt öllum sínum gömlu yfirlýsingum frá því hann var í stjórnarandstöðunni. Þetta kemur nú fyrir bestu menn.
    Það sem hins vegar skiptir mestu máli er að átta sig á að hér er verið að ná í nýja skatta og eins og hæstv. ráðherra vék að er meginröksemdin fyrir því að það sé gat í ríkisfjármálunum, endar náist ekki saman milli tekna og gjalda. Þá er gripið til þess ráðs að hækka skattana. Ég vil að það komi hér skýrt fram, þar sem hæstv. ráðherra hefur tækifæri til að hlusta á mál mitt, að ég tel að hann geti ekki fremur en nokkur annar hæstv. ráðherra sýnt fram á að með þessum hækkuðu sköttum minnki þetta fjárlagagat. Ástæðan fyrir því er sú að eftir því sem þessi ríkisstjórn hefur hækkað skattana meira, þeim mun meiri hafa útgjöldin orðið. Það er útgjaldaþenslan sem er vandamálið. Ríkisstjórnin hæstv. hefur gefist upp við að leysa það vandamál og í raun og veru sást það best á því þegar hún tók sér það fyrir hendur nú í tengslum við kjarasamninga. Síðan eru lagðir nýir skattar á bifreiðaeigendur og sagt að það sé gert til þess að fylla upp í gatið, alveg með sama hætti og gert var í ársbyrjun 1989, þegar lagðir voru á nokkrir milljarðar í nýja skatta og sagt: Nú erum við búin að loka gatinu. Meira að segja eigum við 600 millj. í afgang. En þegar upp var staðið þá vantaði 6 milljarða vegna þess að útgjöldin héldu áfram að vaxa.
    Þetta vildi ég að hæstv. ráðherra hefði átt kost á að hlýða á hér í þessari umræðu þegar hann gerir okkur þann heiður að taka þátt í umræðunni og skýra frá þeirri þróun sem hefur átt sér stað í huga hans varðandi þessi mál og svo mörg önnur.