Friðun hússins Hverfisgata 19
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til laga um að friða húsið Hverfisgata 19 í Reykjavík. Ástæðan fyrir flutningi þessa frv. er sú að flm. telur að Alþingi eigi sjálft að fjalla um viðkvæm og stór mál í þjóðfélaginu og eigi jafnframt að bera á þeim fulla ábyrgð. Frv. hljóðar svo:
,,1. gr. Húsið Hverfisgata 19 í Reykjavík (Þjóðleikhúsið) er eign íslensku þjóðarinnar og heyrir undir Alþingi Íslendinga.
    2. gr. Húsið er friðað í sinni upprunalegu gerð bæði að utan og innan.
    3. gr. Allar meiri háttar breytingar á húsinu eru óheimilar nema með samþykki Alþingis. Minni breytingar eru háðar samþykki þjóðminjavarðar og forseta Alþingis.
    4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Ég vil lesa hér úr greinargerð:
    ,,Húsið að Hverfisgötu 19 reisti íslenska þjóðin til að flytja listræn verk á leiksviði og hlúa að menningu sinni. Guðjón heitinn Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið og var það vígt til listanna 20. apríl 1950. Síðan hefur húsið þjónað vel gyðju leiklistar og fleiri gyðjum, en hefur nú heldur látið undan síga fyrir tímans tönn.
    Engum manni blandast hugur um að húsinu þarf að halda við svo að það megi vera athvarf fyrir allar sviðslistir og reynast höfuðstaðnum áfram hin mesta bæjarprýði. Húsið er arfur íslenskrar menningar sem þjóðin vill vernda óhreyfðan eins og aðrar minjar svo sem Þingvelli, Alþingishúsið og Dómkirkjuna eða Landsbókasafnið. Húsið er og verður þjóðminjar.
    Á sama hátt vill þjóðin vernda húsið innan stokks. Leiksvið og áhorfendasalur eru hluti af verkinu öllu og húsið er ein órofa heild og ber að varðveita það í upprunalegri gerð. Að breyta áhorfendasal og leiksviði er eins og að klæða styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli úr frakkanum.
    Menntamálaráðherra hefur skipað byggingarnefnd til að skipuleggja framkvæmdir við Þjóðleikhúsið. Hún skilaði áfangaskýrslu um starf sitt í septembermánuði 1989 og þar kennir margra grasa. Breytingar á leiksviði og áhorfendasal eru aðeins byrjunin á því sem koma skal, aðeins byrjunin.
    Í skýrslunni er gert ráð fyrir að byggt verði risavaxið hús utan á sjálfu Þjóðleikhúsinu. Það á að hýsa skrifstofur, skála, lítið svið, búningsherbergi, vörumóttöku, aðstöðu leikara, mötuneyti, saumastofu, leiktjaldamálun, margs konar geymslur, æfingasvið, smíðaverkstæði, aðstöðu til hönnunar og veitingastað.`` Þessa viðbyggingu má sjá á mynd nr. 1 sem fylgir með frv. sem fylgiskjal.
    ,,Þannig verður gamla ,,Þjóðleikhúsið`` hans Guðjóns Samúelssonar aðeins um þriðjungur af því stórhýsi sem reist verður á reitnum frá Þjóðleikhúsinu að Smiðjustíg á milli Hverfisgötu og Lindargötu.
    Andspænis Þjóðleikhúsinu handan við Hverfisgötuna er svo gert ráð fyrir útileiksviði með kaffihúsi og listmarkaði og miðasölu og tröppum út að

Laugavegi.
    Til að þessi framtíðarsýn megi rætast þarf a.m.k. að kaupa húsin og lóðirnar nr. 21 (Hið íslenska prentarafélag) og 23 við Hverfisgötu, nr. 7, 9, 11, 11a, 13 og 15 við Smiðjustíg og nr. 6 við Lindargötu.`` Þessi hús má sjá á mynd nr. 3 sem fylgir með frv. ,,Enda segir byggingarnefnd í áfangaskýrslu sinni:
    ,,Til þess að ná þeim framtíðaráformum, sem hér eru sett fram, er nauðsynlegt að ríkissjóður kaupi lóðir og fasteignir austan við Þjóðleikhúsið. Það er brýnt að falast verði eftir kaupum sem fyrst meðan þar eru enn hlutfallslega lítil verðmæti í mannvirkjum.``
    Til að rýma fyrir nýrri viðbyggingu Þjóðleikhússins á sem sé að kaupa þarna átta lóðir hið minnsta og sjö hús sem enn þá eru þó talin ,,hlutfallslega lítil verðmæti í mannvirkjum``.
    Þá eru ótalin hús sem hljóta að þurfa að víkja handan við Hverfisgötuna upp Traðarkotssund og við Laugaveginn til að byggja hringsviðið, Indriðasvið, og listmarkaðinn: Húsin Traðarkotssund nr. 3 og 6, Hverfisgata nr. 12, 14, 16, 16a og 18 og svo Laugavegur nr. 5. Það er vissulega nokkurt efni til íhugunar fyrir eigendur húsanna. En áfram segir byggingarnefndin í skýrslunni:
    ,,Af framansögðu ætti að vera ljóst mikilvægi þess að skilgreina verkefnið í heild, greina þarfir Þjóðleikhússins og aðrar umbætur, áður en hafist er handa við framkvæmdir. Þá aðeins er tryggt að ávallt sé unnið í rétta átt, að stærra markmiði, þó svo að verkinu sé skipt í verkþætti sem dreifast yfir langt tímabil. Húsnæðisvandi Þjóðleikhússins verður ekki endanlega leystur, fyrr en öll starfsemi þess er komin undir eitt þak.``
    Í haust opnaði glæsilegt Borgarleikhús í Reykjavík og er búið besta fáanlegum búnaði til leikhússtarfa. Þannig er landsmönnum prýðilega vel séð fyrir leiksviðum til að flytja verk af metnaði og listfengi. Aðsókn hefur ekki verið sem skyldi að því húsi. Það er óþarfi að byggja nýtt leikhús af því tagi til að standa hálftómt við hlið Borgarleikhússins, hvað þá að byggja annað Borgarleikhús utan á gamla Þjóðleikhúsinu; það gengur ekki upp.
    Þróun leiksýninga á Íslandi hefur vissulega verið í hina áttina síðustu ár því að fjöldi lítilla leikhópa starfar nú víðs vegar um landið og um þvera og endilanga höfuðborgina. Eitt vinsælasta leikhúsverk síðari ára var reyndar sett á svið í gamalli fiskskemmu vestur á Meistaravöllum í Reykjavík.
    Íslendingar eru aðeins 250 þúsundir; hvorki 2,5 milljónir né 25 milljónir. Það vill oft gleymast þegar stórhuga menn taka til óspilltra málanna í kappsfullum byggingarnefndum. En nú verðum við að koma niður á jörðina og horfast í augu við fólksfæðina.
    Fjárhagur þjóðarinnar er bágur um þessar mundir og víða blasa við atvinnuleysi og gjaldþrot. Háir skattar plaga landsmenn og óréttlátur matarskattur þrúgar heimilin. Ekkjur búa við rangláta skattlagningu og verslunarhús eru sérsköttuð. Okurvextir leggja hvert fyrirtækið af öðru að velli og mörg heimili.

    Á sama tíma kýs borgarstjórn Reykjavíkur að láta ráðhúsbyggingu í Tjörninni og veitingahús á geymum Öskjuhlíðar hafa forgang fram yfir þarfir líðandi fólks. Ríkið stendur í stórræðum við Þjóðarbókhlöðu og Þjóðskjalasafn, Blönduvirkjun og Múlagöng. Þjóðminjasafnið er að niðurlotum komið og byrði Flugstöðvarinnar hvílir þungt á skattgreiðendum. Þessar framkvæmdir eru misjafnlega þarfar og sumar óþarfar með öllu. Stórbygging Þjóðleikhússins er því bæði listfræðileg og fjárhagsleg tímaskekkja.
    Reykjavíkurborg hefur ekki farið varhluta af slysum í skipulagi byggðar og einstakra húsa. Nægir þar að benda á hörmulega viðbyggingu Útvegsbanka Íslands gamla við Lækjartorg, svipaða hörmung við hús Landsbankans á horni Pósthússtrætis og stílbrotið í húsi Gallerí Borgar á milli Reykjavíkurapóteks og Hótel Borgar. Nú er sagan um það bil að endurtaka sig á lóðinni nr. 19 við Hverfisgötu. Það má ekki gerast.
    Þessa dagana er verið að skrifa undir nýja samninga um kaup og kjör sem marka tímamót í atvinnusögu þjóðarinnar. Samningarnir kalla á útgjöld úr ríkissjóði til að halda þenslunni í skefjum og vernda þannig kaupmátt heimilanna. Vinnumarkaðurinn hefur þarna gefið tóninn og ríkið má ekki skorast undan að leggja sitt af mörkum til að halda niðri verðbólgu og snarlækka vaxtakostnað í landinu, öllum til heilla. Það er ekki hátt lausnargjald. Þess vegna má ríkið engan pening missa til að geta staðið í skilum með sinn hlut í þessum samningum.
    Það er ljóst að framkvæmdir byggingarnefndar Þjóðleikhússins kosta mikla peninga þegar öllu er til skila haldið. Miðað við síðustu skekkju hjá húsameistara ríkisins í Flugstöðinni er ekki fjarri lagi að verðleggja þessar framkvæmdir á þrjá til fimm milljarða króna. Nú kann einhverjum að þykja það hæfilegt verð fyrir að koma allri starfsemi Þjóðleikhússins undir eitt þak eins og byggingarnefndin sér fyrir sér.
    Flutningsmaður þessa frumvarps er ekki á þeirri skoðun og það eru fleiri. Getu einnar smáþjóðar til að þjóna sviðslistinni eru ákveðin takmörk sett. Breytingarnar á leiksviði og áhorfendasal Þjóðleikhússins eru aðeins fyrsta skrefið í þessum miklu framkvæmdum. Þar leiðir eitt af öðru og flutningsmaður óttast mjög að ekki verði séð fyrir endann á þessu verki öllu. Það fari úr böndum eins og dæmin sanna um fyrri stórframkvæmdir af þessu tagi, svo sem við Flugstöðina, eða eins og byggingarnefndin segir sjálf: ,,Þá aðeins er tryggt að ávallt sé unnið í rétta átt, að stærra markmiði, þó svo að verkinu sé skipt í verkþætti sem dreifast yfir langt tímabil.``
    Þessar fyrstu framkvæmdir eru því Trójuhestur stærri breytinga og meiri framkvæmda eins og að framan greinir. Í upphafi skyldi endinn skoða og á skal að ósi stemma.
    Þess vegna heitir flutningsmaður á þingheim að halda vöku sinni í þessu máli.``
    Virðulegi forseti. Við þetta er aðeins að bæta að

nú er búið að loka Þjóðleikhúsinu þó svo að ekki hafi enn þá fengist heimildir fyrir þeim framkvæmdum sem þar eru fyrirhugaðar.
    Að svo mæltu mæli ég með að frv. fari til 2. umr. og hv. allshn.