Fundir í nefndum og deild
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Forseti (Jón Helgason):
    Ég þakka hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir ábendingar hans um að reyna að hafa þingstörf hér sem liprust. Af því tilefni vil ég geta þess að sú endurskoðaða áætlun sem þingflokksformönnum var fengin í hendur í fyrradag var með því fororði að þetta væri til athugunar og ábendingar. Ég tók sérstaklega fram á þeim fundi að það hlyti að sjálfsögðu að verða að skoðast hvernig skipta ætti tíma þingsins milli nefndafunda og þingfunda þannig að þó að þarna væru settir deildafundir mundi það verða skoðað með tilliti til álags á hvort fyrir sig. Ég vænti þess að við munum hittast, sennilega í dag til að ræða þetta aftur og þá mun ég taka þessa ábendingu til athugunar.