Útvarpslög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Mér þykir rétt, nú þegar við 1. umr., að víkja nokkuð að því frv. sem við fjöllum um og þá kannski helst nokkum atriðum sem í mínum huga eru grundvallaratriði í þessu máli. Hæstv. menntmrh. kom einmitt að þeim atriðum í sinni framsöguræðu sem ég vildi hér sérstaklega gera að umtalsefni.
    Hér var að ljúka máli sínu hv. 8. þm. Reykn. og kom inn á spurninguna um afnotagjöldin. Mér skildist á honum að hann væri andvígur því að halda sig við afnotagjöldin og teldi rétt að taka upp nefskatt í ríkissjóð í staðinn. Þetta er gagnstætt þeirri skoðun sem mér skildist að hæstv. menntmrh. hefði í þessu máli. Hann tók það sérstaklega fram að í frv. væru afnotagjöldin látin halda sér. Ég skildi hann svo að hann væri samþykkur því.
    Ég vil láta það kom hér fram að ég er samþykkur því að halda afnotagjöldunum og hef lengi verið á þeirri skoðun. Ég segi lengi vegna þess að afnotagjöldin eiga sér langa sögu. Þau komu til í upphafi útvarpsrekstursins. Stundum hafa verið skiptar skoðanir um það hvort þetta væri rétt fjáröflunarleið eða ekki. Ég minnist þess sérstaklega að á árunum þegar var komið fram undir 1970 þá voru mjög háværar raddir um að það bæri að leggja niður afnotagjöldin. Ýmis rök voru færð fyrir því svo sem að það væri óþarfa kostnaður sem lagt væri í með þeirri skipan og sérstakri innheimtu sem þyrfti að hafa á þessum gjöldum. Og svo var annað sem á þeim tíma var kannski meginástæða sem menn tefldu fram til afnáms afnotagjöldunum. Sú var ástæðan að það væru komnir aðrir tímar en voru hér á Íslandi um 1930, þjóðinni hefði fjölgað svo mikið að ekki væri hægt að framkvæma með góðum hætti þá skipan sem fólst í afnotagjöldunum, þó það hefði verið hægt í upphafi og þá hafi þetta ekki reynst svo slæm aðferð.
    Það var svo að sjá á þessum tíma, um nokkurt skeið, að saga afnotagjaldanna væri búin. En þá, ég rifja það hér aðeins upp, skipaði þáverandi menntmrh.
sérstaka nefnd til að athuga þessi mál. Í þessari nefnd voru sumir, eða kannski flestir en ekki allir, sem höfðu lýst þeirri skoðun sinni að það bæri að afnema afnotagjöldin. Nefnd þessi vann ítarlegt starf og fékk upplýsingar frá ýmsum löndum um fyrirkomulag þessara mála. Þá kom í ljós að flest löndin sem leitað var upplýsinga frá höfðu afnotagjöld til fjáröflunar fyrir sinn útvarpsrekstur, hliðstætt því sem við höfðum. En ég man eftir því að tvö af þeim löndum sem leitað var til höfðu það ekki. Þau höfðu nefskatt eða beinan skatt í ríkissjóð. Það voru Lichtenstein og Andorra. Þá kom þetta dálítið einkennilega fyrir sjónir ef taka átti alvarlega þá röksemd að við gætum ekki haldið uppi afnotagjöldum og innheimtu þeirra vegna aukningar fólksfjölda. Milljónaþjóðirnar og tugmilljónaþjóðirnar höfðu þessa skipan á, það voru aðeins þessi smáríki sem ekki gerðu það.
    Til þess að gera langa sögu stutta skal ég upplýsa

það að þessi nefnd lagði einróma til að haldið yrði við afnotagjöldin. Það var gert og þessi skipan stendur enn.
    Það er eitt sem snertir afnotagjöldin og fjáröflun til Ríkisútvarpsins og það er spurningin um sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Við sem höfum alltaf staðið með afnotagjöldunum, höfum talið að sú leið samræmdist betur því að stuðla að sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum á hverjum tíma en að gera Ríkisútvarpið háð fjárframlögum á fjárlögum hvers árs. Þessi spurning um sjálfstæði Ríkisútvarpsins kemur inn á spurningu sem hæstv. menntmrh. varpaði fram og það var hvort rétt væri að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun. Ég vil strax segja það að mér hefur oft komið einmitt þessi hugmynd í hug og sjálfsagt mörgum, að þetta væri leiðin til að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins og gera það óháðara stjórnvöldum og áttum í stjórnmálunum á hverjum tíma. Ég vil því alveg sérstaklega taka undir það sem mér skildist á hæstv. menntmrh., að rétt væri að athuga þessa hugmynd og möguleika á því að framkvæma hana, að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun.
    Þá er eitt atriði sem hæstv. menntmrh. kom að, og reyndar fleiri sem hér hafa talað, og það er spurningin um Sinfóníuna. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að létt verði af Ríkisútvarpinu þeirri skyldu að leggja Sinfóníuhljómsveitinni til hluta af fjármagnstekjum hennar. Ég skal ekki mæla á móti þessu. En ég vil sérstaklega taka undir það sem hæstv. menntmrh. sagði, að þó að þetta væri gert væri ekki ástæða --- og ég mundi skilja það svo --- ekki hugmyndin að slíta tengsl Sinfóníunnar við Ríkisútvarpið. Og þá mætti hugsa sér að Ríkisútvarpið hefði aðild að stjórn Sinfóníunnar eftir sem áður. Að mínu viti er alveg sjálfsagt að gera þetta þegar litið er á þetta mál, sinfóníumálið, í ljósi sögunnar.
    Við verðum að hafa í huga þann þátt sem Ríkisútvarpið á í Sinfóníunni og þróun mála hjá henni og upphafi þess máls. Það má rekja allt til útvarpshljómsveitarinnar sem útvarpið hélt uppi á sínum tíma. Litið var svo á að það væri eðlilegur kostnaður við dagskrárgerð af hálfu Ríkisútvarpsins að stuðla að tilkomu Sinfóníuhljómsveitarinnar. Og að mínu viti er einmitt þáttur Sinfóníunnar eitt af því merkara sem Ríkisútvarpið hefur látið til sín taka. Fyrr á árum kom það fyrir hvað eftir annað að það lá við að Sinfónían yrði
lögð niður. Ýmsir vildu að hún yrði lögð niður vegna þess að ekki var fjármagn til að standa undir rekstri hennar. En það var jafnan Ríkisútvarpið sem kom til hjálpar í þessum efnum þegar mest á reyndi. Það er Ríkisútvarpinu ekki síst að þakka að við höfum sinfóníuhljómsveit hér í dag og með þeim hætti sem við höfum haft.
    Þá var eitt grundvallaratriði sem hæstv. menntmrh. kom að í sinni framsöguræðu og ég vil sérstaklega gera að umræðuefni. Það er hlutverk útvarpsráðs. Ég vil taka undir þau sjónarmið hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að það orkar tvímælis hvort rétt sé að taka það

verkefni af útvarpsráði að ákveða endanlega um dagskrárefni.
    Það orkar líka tvímælis hvort rétt sé að setja þetta verkefni alfarið í hendur starfsmanna stofnunarinnar. Ég segi: Þetta orkar allt tvímælis. Það eru
kostir og gallar við báðar aðferðirnar. Það er kostur við þá aðferð sem verið hefur, eða var, að láta þingkjörna fulltrúa bera þessa ábyrgð vegna þess að það varðar svo miklu að hægt sé að koma ábyrgð á hendur mönnum á því sem þeir gera. Þegar um er að ræða þingkjörna fulltrúa, kjörna á Alþingi af stjórnmálaflokkunum, á að vera hægt að koma að pólitískri ábyrgð. Menn getur svo greint á um það hvað sú pólitíska ábyrgð er virk, en auðvitað hlýtur hún að vera fyrir hendi. Það er hins vegar ekki eins einfalt, að mér virðist, að koma ábyrgð á hendur embættismönnum ef þeim misferst í þessum efnum. Og öllum getur missést og misfarist, hvort sem það eru þingkjörnir fulltrúar eða fulltrúar starfsmanna í Ríkisútvarpinu. Ég held að ekki væri fjarri lagi að athuga hvort ekki kæmi til greina að hafa þá skipan í þessu efni að útvarpsráð ákvæði endanlega aðalatriði dagskrárinnar en útvarpsráð væri skipað ekki einungis þingkjörnum fulltrúum heldur og fulltrúum starfsmanna Ríkisútvarpsins. Þá er spurning ef þessi skipan væri hvort ekki er hægt að ná með henni bæði því sem á að vera hægt með því að hafa einungis þingkjörna fulltrúa í útvarpsráði og líka hinu að hafa einungis fulltrúa starfsmanna Ríkisútvarpsins til umsjónar og endanlegrar ákvörðunartöku um dagskrána.
    En hvað sem þessu líður hljótum við að vera sammála um að nauðsynlegt er að hafa í útvarpslögum skýr ákvæði um það hver ber ábyrgð á endanlegri ákvörðun um útvarpsefni. Hæstv. ráðherra kom að þessu og það segir einnig í greinargerð með frv. að lagt sé til að breytingar verði gerðar á yfirstjórn Ríkisútvarpsins þannig að útvarpsráð fái fyrst og fremst rekstrar- og fjármálalegt efnishlutverk en framkvæmdastjórn fái veigameiri hlut við stjórn stofnunarinnar.
    Hér segir ekkert beint um það hvaða aðili eigi að fara formlega með það vald sem er verið að taka af útvarpsráði. Til glöggvunar á þessu þykir mér rétt að rifja upp hvernig hlutverk útvarpsráðs um þetta sérstaka efni var ákveðið í lögum. Í 6. gr. útvarpslaganna frá 1971 segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Útvarpsráð tekur ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli hagað í höfuðdráttum og leggur fullnaðarsamþykkt á dagskrá áður en hún kemur til framkvæmda.``
    En í útvarpslögunum frá 1985 í 20. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Útvarpsráð tekur ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli hagað í höfuðdráttum innan marka fjárhagsáætlunar.``
    Hér er bætt við ákvæði frá því 1971 ,,innan marka fjárhagsáætlunar.`` En hvað segir það frv. sem við erum nú að ræða um þetta efni? Í 16. gr. frv. segir,

með leyfi forseta:
    ,,Útvarpsráð fylgist með og tekur ákvarðanir til að tryggja að gerð dagskrárefnis og rekstur dagskrárdeilda sé innan marka fjárhagsáætlunar.`` Hér er búið að hverfa með skipulegum hætti frá því sem stóð í lögunum frá 1971 og í frv. er tekið inn ákvæðið sem sett var inn í lögin frá 1985. Að öðru leyti eru þessi ákvæði felld niður. Þegar svo er komið er eðlilegt að spyrja: Hvar er þetta vald sem búið er að taka eða á að taka af útvarpsráði, hvar er það niðurkomið, samkvæmt frv. því sem við nú ræðum? Þá kemur manni að sjálfsögðu fyrst í hug útvarpsstjóri. Spurningin er: Er útvarpsstjóra fært þetta vald í hendur? Ég vitna aftur til útvarpslaganna frá 1971. Þar segir í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Útvarpsstjóri undirbýr og stjórnar framkvæmd dagskrár og gætir þess að settum reglum um hana sé fylgt.``
    Í 18. gr. útvarpslaganna frá 1985 er þetta ákvæði óbreytt og í 13. gr. frv. sem við nú ræðum er þetta ákvæði frá 1971 óbreytt. Hvað segir þetta okkur? Frv. gerir ekki ráð fyrir að það vald eða hlutverk sem tekið er af útvarpsráði til að ákveða endanlega dagskrá sé fengið í hendur útvarpsstjóra. Hvar er þetta vald þá samkvæmt frv.? Hvar er það? Hvað kemur manni þá til hugar? Það er framkvæmdastjórnin. Getur verið að þetta vald sé í hendi framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt frv. sem við ræðum? Ég vitna enn í lögin frá 1971, 7. gr. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skal framkvæmdastjórn vinna að samræmingu á starfi deilda og gera tillögur um önnur mál sem fyrir hana verða lögð.``
    Í 20. gr. útvarpslaganna frá 1985 er þetta ákvæði frá 1971 óbreytt. Framkvæmdastjórnin hefur sama vald samkvæmt lögunum 1985 eins og hún hafði samkvæmt lögunum frá 1971. En hvað segir í frv. sem við nú ræðum um þetta efni? Það segir í 12. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Framkvæmdastjórn skal vinna að samræmingu á starfi deilda.``
    Hér er gerð breyting, takmarkað valdsvið framkvæmdastjórnar frá því sem það er orðað í lögunum frá 1971 og í lögunum frá 1985. Af því hljótum við að draga þá ályktun að því hlutverki sem tekið er frá útvarpsráði varðandi dagskrárgerð sé ekki ráðstafað til framkvæmdastjórnar, ekki samkvæmt ákvæðum þessa frv. sem við nú ræðum.
    Niðurstaðan af þessu er sú að ábyrgð á endanlegri ákvörðun um dagskrá er tekin frá útvarpsráði. Hlutverk útvarpsstjóra er óbreytt og hlutverk framkvæmdastjórnar er minnkað, takmarkað. Mér sýnist því að samkvæmt þessu frv. sé í lausu lofti hvaða aðili eigi að bera formlega ábyrgð á endanlegri ákvarðanatöku um dagskrá. Það er ekki nóg að segja að starfsmenn eigi að gera það. Þar verður að vera einhver lögformlegur aðili kvaddur til verka og ég sé ekki að frv. geri ráð fyrir því.
    Ég vil vekja athygli á þessu hér. Hvers vegna? Vegna þess að dagskráin er kjarni þess máls sem varðar Ríkisútvarpið. Allt annað eru umbúðir og

framkvæmdaratriði varðandi það sem þarf að koma til til þess að koma dagskránni til þjóðarinnar. Þetta verðum við að hafa í huga. Það er undir dagskránni komið hvernig Ríkisútvarpið leggur rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningu. Og það er undir dagskránni komið hvernig Ríkisútvarpið heldur í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi, svo og frelsi til orðs og skoðana.
    Hæstv. forseti. Ég held ég þurfi ekki að ræða þennan þátt frv. og þessa máls frekar til að skýra og leggja áherslu á mikilvægi þess atriðis að það sé með formlegum hætti og liggi ljóst fyrir hverjir taka endanlega ákvörðun um dagskrána. Það þarf að gera með þeim hætti að gæði dagskrárinnar megi verða sem mest. Og það þarf líka að vera gert með þeim hætti að ljóst sé hverjir bera ábyrgð á verkum sínum í þessu efni sem eru svo þýðingarmikil.