Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Þetta frv. var mikið hitamál í Nd. og ekki að ófyrirsynju. Í frv. felst afstaða til mjög veigamikillar atvinnugreinar sem er fiskeldi. Það verður að segjast eins og er að því miður hefur þessi atvinnugrein ekki hlotið þann skilning eða náð fyrir augum valdamanna, þ.e. núv. valdamanna, þeim meiri hluta sem stendur að baki þeirri ríkisstjórn sem nú situr, sem skyldi. En það er nú oft svo, virðulegur forseti, að þegar stofnað er til nýrra atvinnugreina, þegar ráðist er í áhættuverkefni standa þeir helst upp til að leggja stein í götu framkvæmdamanna eða þess hugsjónafólks sem vill einhverju til fórna sem koma minnst við sögu úti á hinum almenna vettvangi þar sem framkvæmdir eiga sér stað og áhætta er tekin.
    Fiskeldi er dæmigert mál um slíkt. Það vita allir sem hafa kynnt sér sögu þessara mála að íslenskir stjórnmálamenn hafa upp til hópa sýnt fiskeldismálum á Íslandi mikið tómlæti að undanskildum nokkrum hugsjónamönnum sem hafa sem einstaklingar átt frumkvæði að því að stofna til fiskeldisstöðva hér á landi. Saga fiskeldis á Íslandi er mjög stutt borið t.d. saman við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar og á ég þar sérstaklega við Noreg og Skotland.
    En hvað sem því líður réðust nokkrir Íslendingar í það að eigin frumkvæði, án nokkurs stuðnings hins opinbera að koma hér á fót nokkrum fiskeldisstöðvum og hafbeitarstöðvum fyrir 10--12 árum. Þessir aðilar hafa þurft að berjast við ákveðna byrjunarerfiðleika eins og ætíð eiga sér stað. Þeir hafa þurft að leita þeirra leiða sem henta á Íslandi við þær aðstæður sem við búum við til þess að unnt væri að rækta hér eða ala fisk. Það er núna loksins á síðustu árum sem stjórnmálamenn viðurkenna að þeir hafa ákveðnar skyldur gagnvart þessari atvinnugrein sem birtist m.a. í því að núna liggur þetta frv. til laga fyrir hinu háa Alþingi. Og ég verð nú að segja núv. hæstv. fjmrh. það til málsbóta að hann hefur þó gengið feti lengra í því að reyna að nálgast það að finna lausn á því hvernig hið opinbera getur stuðlað að þróun þessarar atvinnugreinar en ýmsir fyrirrennarar hans. Það út af fyrir sig er þakkarvert. Hins vegar verð ég að segja það að í þessu frv. voru ákveðnir ágallar sem reynt var að laga í meðferð málsins í neðri deild en hefur samt ekki tekist
sem skyldi að mínu mati. Þar á ég við að það ákvæði 2. gr. sem lýtur að hafbeitarstöðvum er að mínu mati ófullnægjandi. Ég hlustaði á umræður í neðri deild þegar verið var að ræða um þetta atriði og ætla ekkert að vitna í ræður einstakra þingmanna eða hæstv. ráðherra en ég verð að segja það að mér fannst mikið skorta á skilning á því hjá hæstv. ráðherra að hafbeitarstöðvar geta í mörgum tilfellum verið betri en hefðbundnar fiskeldisstöðvar eins og við þekkjum þær, þ.e. strandeldi eða kvíaeldi.
    Það tekur lengri tíma að sanna ágæti hafbeitarstöðva en þessara almennu fiskeldisstöðva sem hér er verið að veita sérstakan stuðning umfram hafbeitarstöðvar. Staðreyndin er nefnilega sú að til

þess að hafbeitarstöðvar geti sannað ágæti sitt þá þurfa endurheimtur að fá að sanna sig.
    Í allri umræðunni í neðri deild, sem ég hlýddi á og það kom einnig fram hjá hæstv. ráðherra að hann mat stöðu hafbeitarstöðva þannig að þar sem endurheimtur hefðu brugðist tvö ár í röð, og einnig vísaði hann til annarra dæma, var það hans mat og skoðun að hafbeitarstöðvar skyldu ekki njóta sömu vil ég segja möguleika í lögum til afurðalána, fiskeldislána, eins og almennar fiskeldisstöðvar. Ég harma þessa, ég vil segja að mörgu leyti órökstuddu afstöðu ráðherrans. Hann vildi meina að í þessu væri fólgin svo mikil áhætta og sagði eitthvað á þá leið ef ég man rétt --- það er nú kannski ekki rétt að vitna svona í ummæli sem maður hlustar á og skrifar ekki hjá sér --- hann spurði menn hvort þeir ætluðu að vera með tryggingar í fiski sem væri að synda úti í sjónum einhvers staðar. Þetta er náttúrlega sagt svona í hita umræðunnar en staðreyndin er sú að við sem höfum fengist við það sem hugsjónamenn með afskaplega takmörkuð framlög miðað við það að við höfum takmarkaðar eignir til slíkra hluta en þó með öðrum aðilum sem hafa betri aðstöðu til þess, við þekkjum það og vitum að endurheimtur hafa verið tiltölulega góðar í ákveðnum hafbeitarstöðvum en að vísu eru árin ekki mörg. Ég nefni sem dæmi að hér í nágrenni Reykjavíkur, suður með sjó, er hafbeitarstöð og miðað við þau sex ár sem eru marktæk munu endurheimtur hafa að meðaltali verið um 6--7%. Það má segja að árlegar endurheimtur upp á 6% séu ekki fullnægjandi hvorki rekstrarlega séð né út frá þeim skuldbindingum sem þessi lög mundu heimila bönkum og lánastofnunum að nýta í sambandi við viðskipti við slík fyrirtæki. Hins vegar er hægt að benda á það að það tekur einnig tíma að rækta upp þann rétta stofn sem þolir það umhverfi, þolir þau skilyrði sem eru í hafinu í kringum Ísland.
    Sú hafbeitarstöð sem mér finnst vera marktækust og sem menn ættu að líta til er stöð Vogalax hf. í Vogum. Hún hóf starfsemi sína fyrir u.þ.b. 10 árum og það eru raunverulega ekki nema 6 ár sem hægt er að tala um að maður geti farið að skoða endurheimtur. Því að fyrstu árin fóru í að herða upp stofninn, finna hinn rétta stofn sem skilaði sér til baka. Það er alíslenskur stofn. Þessi
stofn hefur verið með mjög góðar endurheimtur, komst allt upp í 13% árið 1987 og hann var tvö ár í röð á bilinu 9--11%. En á sl. ári féllu endurheimturnar niður í 3,4%. Nú skulum við vona að á þessu sumri og næstu sumrum verði endurheimturnar komnar upp í 7--8% en þá kemur á móti, vegna þess hve hagkvæmt er að framleiða seiði til sleppinga í hafbeitarstöðvum á Íslandi, að þegar stöð sem þessi er farin að sleppa frá einni til þriggja millj. seiða á ári getur endurheimtuprósentan lækkað allverulega með tilliti til arðsemi.
    Þetta vildi ég útskýra fyrir hæstv. ráðherra vegna þess að ég veit að hann hlustar á þetta með athygli. En sú breyting varð í efri deild eftir að ákveðinn meiri hluti hafði komið sér saman um að í stað þess

að þar sem segir í 2. gr., með leyfi forseta, í frv. eins og hæstv. ráðherra lagði það fram í neðri deild: ,,Heimilt er að veita sjálfskuldarábyrgðir fyrir lánveitingum banka og lánastofnanna til hafbeitarfyrirtækja o.s.frv.``, þ.e. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þá hafði myndast meiri hluti í fjh.- og viðskn. neðri deildar þar sem lagt var til við meðferð málsins í brtt. að í stað orðanna ,,Heimilt er`` kæmi: Hlutverk sjóðsins er einnig. Þ.e., þar er ákveðin skylda en ekki heimild.
    Þetta náði því miður ekki fram að ganga í neðri deild. Hins vegar varð ákveðið samkomulag við ráðherra um að upprunalega orðalagið skyldi vera óbreytt sem er ,,Heimilt er að veita`` og önnur atriði koma inn í staðinn sem væru til bóta eins og t.d. hækkun á prósentum í sambandi við afurðalánin, þ.e. hámarkið fór upp í 50%.
    Nú geri ég ráð fyrir því að það sé tilgangslaust að koma með brtt. í þeim dúr sem meiri hl. fjh.- og viðskn. neðri deildar var með eftir það samkomulag sem var gert. Hins vegar vil ég beina því til ráðherra, þar sem ég tel að hann muni ráða þessu skv. 5. gr., að ég treysti því að hæstv. ráðherra og sú stjórnarnefnd sem verður skipuð átti sig á því að raunverulega var búið að viðurkenna hafbeitarstöðvar frá tryggingarlegu sjónarmiði séð við meðferð málsins hjá þeim stofnunum og aðilum sem fjölluðu um þetta áður, að hafbeitarstöðvar fullnægðu þeim skilyrðum að flokkast undir svipaða áhættu og fiskeldisstöðvar þrátt fyrir það að fiskurinn syndi í sjónum. Það er með tilliti til þess að menn mátu það þannig að þegar sleppingar eru háar og miklar, skipta milljónum, og endurheimtur geta verið þetta á bilinu 6--7% eru hafbeitarstöðvarnar orðnar mjög góð og örugg fyrirtæki. Mun betri fyrirtæki heldur en hinar almennu fiskeldisstöðvar að mínu mati vegna þess að lax sem er í sjó er hvað gæði áhrærir miklu betri en sá sem er alinn í kerjum. Það fer ekki á milli mála. Það fæst 10--15% betra verð fyrir hafbeitarfisk. Hann er alltaf mjög söluhæfur og eftirsóttur þannig að hann selst um leið og honum er slátrað.
    Ég vildi þess vegna hugleiða það, en bíð eftir svari ráðherra. Ef svör ráðherra eru jákvæð um það að hann muni skoða stöðu mála með það í huga sem ég hef hér sagt geri ég varla ráð fyrir því að ég komi með brtt. við 2. gr. Ef hins vegar ráðherra treystir sér ekki til þess að vera jákvæðari en hann var í umræðunni í neðri deild þá mun ég koma með þessa till. og svo ræðst það auðvitað hér í deildinni hvort hún verður samþykkt eða felld.
    Hins vegar verð ég að lýsa yfir þeirri skoðun minni að sú breyting sem gerð var á 5. gr. í neðri deild sem fjallar um skipan stjórnarnefndar að ég var sammála frv. ráðherra þar sem segir í 5. gr., með leyfi forseta: ,,Fjmrh. skal skipa þriggja manna stjórnarnefnd, þar af einn formann, til þriggja ára í senn.`` Þessu var því miður breytt í meðferð málsins í neðri deild þannig að í stað þess að fjmrh. hefði þetta vald sem hann á eðli málsins samkvæmt að hafa því hann fjallar um ríkisábyrgðir, var því breytt

þannig að fjmrh. skal skipa fimm manna stjórnarnefnd. Einn samkvæmt tilnefningu viðskrh., einn samkvæmt tilnefningu landbrh. og þrjá án tilnefningar og skal formaður skipaður úr þeirra hópi. Ég tel þetta óeðlilegt og hefði talið að upprunalega greinin hefði átt að vera. Þannig að ég styð það sjónarmið sem ráðherra hlýtur að leggja áherslu á. Og auðvitað kemur til greina að koma með brtt. sem mundi hníga í þá átt að verða nákvæmlega eins og ráðherrann lagði sjálfur til og mun ég auðvitað hugleiða það í framhaldi af þeim umræðum sem verða um þetta mál.
    Ég mun ekki, virðulegur forseti, fjalla nánar um þetta hér nú, en taka upp þráðinn síðar ef þörf krefur. En ég vil undirstrika að ég tel að þetta frv. sé til bóta fyrir fiskeldismál í landinu. Það er nú víst ekki venjan að stjórnarandstæðingar þakki ráðherrum fyrir einstök verk þeirra en ég vil leyfa mér að gera það í þessu tilviki.