Læknalög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á læknalögum nr. 53/1988 sem er flutt á þskj. 734.
    Nær tveggja ára framkvæmd læknalaganna sem gengu í gildi 1. júlí 1988 hefur leitt í ljós þörf á breytingum nokkurra ákvæða. Starfsmenn heilbrrn. í samráði við embætti landlæknis hafa því unnið frv. til laga um breytingar á læknalögum nr. 53/1988. Breytingarnar lúta að eftirfarandi fimm atriðum.
    Í fyrsta lagi meðferð umsókna um almennt lækningaleyfi og sérfræðingsleyfi.
    Í öðru lagi meðferð sérfræðingsleyfis hafi læknir aflað sér sérréttinda á einhverju Norðurlandanna.
    Í þriðja lagi er um að ræða tillögurétt að reglum um viðbótarnám og sérfræðinám.
    Í fjórða lagi um afhendingu sjúkraskráa.
    Í fimmta lagi um meðferð umsókna um leyfi til að reka læknastofu þó 75 ára aldri sé náð.
    Ég mun nú gera grein fyrir þessum atriðum nokkru nánar.
    Í fyrsta lagi var um að ræða meðferð umsókna um almennt lækningaleyfi og sérfræðingsleyfi. En samkvæmt gildandi læknalögum skal sérstök nefnd skipuð fulltrúum læknadeildar og Læknafélags Íslands meta umsóknir um almennt lækningaleyfi. Engar sérstakar kröfur eru hins vegar gerðar um meðferð umsókna um sérfræðingsleyfi. Heilbrigðisráðuneytið telur eðlilegt að gera hér
breytingu. Þorri umsækjenda um almennt lækningaleyfi hefur lokið læknanámi frá Háskóla Íslands. Það eina sem meta þarf vegna umsóknar um almennt lækningaleyfi er hvort umsækjandi hafi lokið viðbótarnámi, þ.e. kandídatsári í samræmi við reglur. Umsóknir um almennt lækningaleyfi eru því í fæstum tilvikum svo flóknar og vandmetnar að sérstaka nefnd þurfi til matsins. Íslenskir læknar stunda hins vegar sérfræðinám víða, svo sem á Norðurlöndunum, á Bretlandi, í Bandaríkjunum, svo nokkur lönd séu talin. Það er því talsverð ástæða til gaumgæfilegrar skoðunar á umsóknum um sérfræðileyfi.
    Í frv. er gerð sú tillaga að læknadeild og landlæknir annist mat á umsóknum um almennt lækningaleyfi en að þriggja manna nefnd verði falið að meta umsóknir um sérfræðileyfin. Í þessari þriggja manna nefnd verði landlæknir, sem jafnframt verði formaður, auk fulltrúa tilnefndra af læknadeild Háskóla Íslands og Læknafélagi Íslands. Frv. gerir og ráð fyrir að hlutverk læknadeildar og landlæknis vegna umsókna um almennt lækningaleyfi og nefndarinnar vegna sérfræðingsleyfa verði sambærilegt og hlutverk fagfélaga eða háskóladeilda hjá öðrum heilbrigðisstéttum, þ.e. að vera tillöguaðili.
    Í öðru lagi nefndi ég að hér væri fjallað um sérfræðileyfi hafi læknir aflað sér réttinda á einhverju Norðurlandanna. En frv. gerir jafnframt ráð fyrir því að hafi læknir sérfræðingsleyfi frá einhverju Norðurlandanna þurfi ekki að afla tillagna

læknadeildar heldur eingöngu landlæknis. Landlæknir mundi í þessum tilvikum afla upplýsinga frá heilbrigðisstjórnum Norðurlanda um hvort umsækjandi hafi í starfi sýnt af sér nokkuð það sem tálmaði íslensku sérfræðingsleyfi.
    Þetta fyrirkomulag byggist á aðild Íslands að norrænum samningi um viðurkenningu starfsréttinda innan heilbrigðisþjónustunnar. Samkvæmt samningnum hafa löndin skuldbundið sig til að viðurkenna starfsréttindi sem veitt hafa verið í einhverju Norðurlandanna þrátt fyrir að reglur um nám þeirra heilbrigðisstétta sem samningurinn nær til séu ekki fullkomlega sambærilegar á milli landanna. Samningur þessi er frá árinu 1981, leysti þá eldri samning af hólmi og hefur Ísland verið aðili að samningnum hvað lækna snertir um árabil.
    Læknadeild Háskóla Íslands telur að þrátt fyrir aðild Íslands að samningnum skuli í hverju einstöku tilviki meta hvort viðkomandi læknir uppfylli íslensk skilyrði um starfsréttindi. Með öðrum orðum læknadeildin telur að starfsréttindi annars staðar skipti ekki máli og hafnar þar með þeirri grundvallarhugmynd sem samningurinn hvílir á. Þetta hefur valdið ágreiningi milli læknadeildar og heilbrrn. um veitingu sérfræðingsleyfa og hefur læknadeildin í nokkrum tilvikum neitað íslenskum læknum með sænsk sérfræðingsleyfi um sams skonar íslenskt sérfræðingsleyfi. Vegna ákvæða læknalaga um neitunarvald læknadeildar í þessum efnum hefur heilbrrn. orðið að synja viðkomandi læknum um sérfræðingsviðurkenningu og þar með brjóta hinn norræna samning.
    Einn læknir vildi ekki una þessu og kærði synjunina til embættisnefndar sem annast eftirlit með framkvæmd samningsins. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Ísland væri með þessari framkvæmd að brjóta samninginn. Nefndin hefur gefið íslenskum heilbrigðisyfirvöldum frest til þess að breyta um framkvæmd ella verði þau kærð til norrænu ráðherranefndarinnar. Heilbrrn. telur lagabreytingu einu leiðina til að bæta hér úr.
    Þriðja atriðið sem ég nefndi var tillöguréttur að reglum um viðbótarnám og sérfræðinám. En samkvæmt læknalögum getur læknadeildin ein haft frumkvæði að
breytingum á reglum um viðbótarnám, svonefnt kandídatsár annars vegar og reglum um sérfræðinám hins vegar. Það gefur auga leið að óskir heilbrrn. og læknadeildar um hvernig reglur þessar skuli vera hverju sinni þurfa ekki alltaf að fara saman. Á það má og benda að læknadeild heyrir ekki undir heilbrrn. og því erfitt fyrir heilbrrh. að snúa sér til deildarinnar og óska tillagna.
    Frv. gerir ráð fyrir að fjölga þeim aðilum sem komið geta með tillögur um framangreindar reglur þannig að í hópinn bætist landlæknir og Læknafélag Íslands. Mál læknisins sem ég gat um áðan snertir þetta atriði. Synjun læknadeildar í hans tilviki hvílir á tilteknu ákvæði sem brýtur í bága við hinn norræna samning og er að finna í reglugerð frá 1986 um

veitingu læknaleyfa og sérfræðingsleyfa.
    Læknadeild var ritað bréf í ágúst 1989 um að fyrirhugað væri að breyta þessu ákvæði reglugerðarinnar. Læknadeild svaraði og benti á það ákvæði læknalaga sem segir að reglur um sérfræðingsnám skuli setja að fengnum tillögum læknadeildar. Af bréfinu mátti ráða, þó ekki kæmi það fram berum orðum, að slíkra tillagna væri ekki að vænta frá læknadeild. Ég tel því ekki aðra leið færa en að lögunum verði breytt.
    Í fjórða lagi nefndi ég breytingar á ákvæðum um afhendingu sjúkraskráa. Heilbrrn. hefur undanfarna mánuði haft til athugunar tillögur Læknafélags Íslands og landlæknis um reglur vegna afhendingar sjúkraskráa. Ráðuneytið telur að ákvæði læknalaga um þetta atriði sé ekki nægilega skýrt og vill því gera nokkrar breytingar á því. Ráðuneytið telur að skýrt þurfi að koma fram í læknalögum að sjúkraskrá sé eign þeirrar heilbrigðisstofnunar þar sem hún er færð eða þess læknis sem hana færir. Jafnframt þarf að vera skýrt í lögunum að ef um afhendingu er að ræða skal afhenda afrit skrárinnar. Loks telur ráðuneytið nauðsynlegt að fram komi í lögunum að afhendingin nái til allra sjúkraskráa, þ.e. einnig skráa sem færðar eru fyrir gildistöku laganna frá 1988.
    Ráðuneytið hefur túlkað heimild læknalaga frá 1988 til afhendingar sjúkraskráa með þessum hætti en telur nauðsynlegt að þetta komi skýrt fram í lögunum sjálfum. Umboðsmaður Alþingis virðist einnig sammála ráðuneytinu hvað þessa túlkun varðar.
    Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim fimm meginatriðum þeirra brtt. sem þetta frv. gerir ráð fyrir á gildandi læknalögum og vísa að öðru leyti til ítarlegrar greinargerðar og athugasemda við einstakar greinar frv.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.