Sveitarstjórnarlög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom af ræðu hæstv. félmrh. fjallar þetta frv. aðallega um það að varafulltrúar í sveitarstjórn geti verið kjörgengir í byggðarráð, þ.e. bæjarráð, hreppsráð eða borgarráð. Mér sýnist í fljótu bragði að þetta sé skynsamleg regla sem þarna er lögð til. Ég held að það geti oft valdið erfiðleikum og leitt til einkennilegrar niðurstöðu ef varamenn geta ekki tekið sæti í byggðarráðum. Ég hygg reyndar að það hafi tíðkast í sumum sveitarfélögum að þetta hafi verið gert í raun, það hefur verið vitnað hér til bæjarstjórnar Kópavogs. Ég minnist þess til dæmis að þegar ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur kom stundum upp sú staða a.m.k. að því er snertir varamenn að flokkur sem hafði aðeins einn fulltrúa í borgarstjórn sem átti jafnan sæti í borgarráði, eðli málsins samkvæmt hefði hann ekki getað kallað varamann úr sínum flokki ef eingöngu aðalmenn hefðu verið kjörgengir en sú regla var þá leyfð sem undantekning að hægt var að boða varamann í borgarstjórn sem aðalmann inn í borgarráð þegar þannig stóð á. Þannig að ég held að þetta sé skynsamleg regla og vildi aðeins láta þess getið við 1. umr. þessa máls að ég tel rétt að þetta frv. verði samþykkt enda hefur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga fallist á það.