Sveitarstjórnarlög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Rannveig Guðmundsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram og vona og treysti því að það eigi skjótan framgang í gegnum þingið. Eins og lagt er til í því frv. sem félmrh. hefur mælt fyrir, þannig var þetta áður í sveitarstjórnum að varamenn tóku sæti í bæjarráði þar sem var t.d. einn fulltrúi í bæjarstjórn sem átti sæti í bæjarráði. Síðan komu ný sveitarstjórnarlög og þá var þesum ákvæðum breytt þannig að það skyldi alltaf vera aðalmaður sem tæki sæti í bæjarráði við forföll.
    Á þeim tíma var einmitt verið að vinna nýja bæjarmálasamþykkt fyrir Kópavog, þannig að mér er þetta mál mjög kunnugt, og fulltrúar allra flokka voru sammála um það að þessi breyting, að ævinlega skyldi aðalmaður taka sæti varamanns í bæjarráði, yrði í raun óframkvæmanleg.
    Oft eru það tveir eða þrír flokkar sem mynda meiri hluta í sveitarstjórnum. Það getur verið að það sé flokkur með einn kjörinn fulltrúa sem á aðild að slíkum meiri hluta. Slíkur aðalmaður getur verið kjörinn í bæjarráð en með þeim lögum sem hafa verið í gildi var ætlast til þess að aðalmaður úr bæjarstjórn af öðrum lista tæki sæti í bæjarráði.
    Það var alveg ljóst að í Kópavogi, þar sem var fjallað mjög um þetta mál fyrst og fremst vegna þess að það var verið að vinna bæjarmálasamþykkt og menn ráku sig á þessa breytingu, voru allir sammála um það að þetta skerti mjög sjálfræði sveitarstjórnarmanna og stöðu þeirra bæjarfulltrúa sem væru í sveitarstjórn. Óskin kom frá Kópavogi um að það yrði kannað með breytingu á þessum lögum enda hefur komið fram í máli félmrh. að hún er studd af Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Hvað varðar athugasemd hv. 17. þm. Reykv. um hvað gerist þegar menn koma sér saman um framboð þá er það nú svo að til langs tíma hafa verið samsteypuframboð flokka og óháðra af ýmsu tagi í sveitarstjórnum út um land á þeim tíma sem þau ákvæði giltu sem hér er verið að leggja til að taka upp aftur og þá eru menn bara reiðubúnir að láta listann gilda eins og gildir um svo margt að það kemur röðin að næsta manni. Mjög svipað og gerist hér á hv. Alþingi og við verðum vör við þegar varamaður kemur inn, að það fylgir bara með skeyti eða tilvísun um að sá sem fram hjá er farið getur ekki tekið sætið. Við hljótum að ætla að þar sem menn hafa komið sér saman um framboð þá leysi þeir slík innanlistamál og yrði kannski seint hægt að búa til lög sem sniðu af alla slíka annmarka. En fyrst og fremst fyrir listana sem bjóða fram þá skiptir það mjög miklu máli að í bæjarráð geti varamaður af sama lista tekið sæti í forföllum þannig að ég treysti því að þetta frv. fái skjóta og góða meðferð og geti fljótlega orðið að lögum.