Sveitarstjórnarlög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Hér er í sjálfu sér ekki um stórt mál að ræða en ég vil láta það koma fram hér að þegar núgildandi sveitarstjórnarlög voru sett 1986 kom það einmitt skýrt fram hjá þeim sem sömdu það frv. og þar á meðal fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga sem lögðu áherslu á það að breyta þessu frá fyrri lögum á þann veg að fulltrúar í bæjarráð eða hreppsráð yrðu eingöngu kosnir úr hópi aðalfulltrúa í viðkomandi bæjarfélagi eða sveitarfélagi. Þetta var rökstutt með því að það væri gert samkomulag meiri hluta o.s.frv. um stjórn byggðarlagsins og það væru kannski ólíkir aðilar en þeir kæmu sér saman um að skipta með sér setu í bæjarráði eða hreppsráði og þar af leiðandi væri það miklu virkara inn á við að þessi skipan yrði við höfð. Ég er ekki að leggja dóm á það hér hvort þarna er um rétta breytingu að ræða eða ekki en þó vil ég benda á að ég þekki allmörg dæmi þess að allt að fjórir flokkar eða aðilar sem hafa myndað bæjarstjórn eða sveitarstjórn hafa komið sér saman um skipan þessa og skiptast á að vera aðalmenn eða varamenn sitt árið hvor. Þar af leiðandi hefur tekist samkomulag um það sem menn hafa ekki fundið að, þannig að sameinaður meiri hluti og minni hluti hafa alltaf átt aðgang að því að skiptast á setu í bæjarráði eða hreppsráði, hvernig sem það er túlkað.
    Ég vildi aðeins gera þessa athugasemd en ég legg ekki neitt gegn því að þessi breyting verði gerð. En breytingin sem var gerð á lögunum 1986 var einmitt að frumkvæði sveitarfélaganna sjálfra og þeirra sem sömdu það frv. af því að sú leið sem nú gildir var talin eðlilegri en það getur vel verið að reynslan hafi sýnt að breytingar sé þörf en þarna eru ólíkir aðilar sem koma sér saman um þetta í allflestum tilvikum.