Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að gera þegar við 1. umr. nokkrar athugasemdir við frv. sem nú er hér til umfjöllunar. Þessar athugasemdir verða ekki tæmandi og ég áskil mér að sjálfsögðu allan rétt til þess að gera fleiri athugasemdir í nefndarstarfinu, en mig langar að koma hér að nokkrum atriðum sem ég hef þegar staldrað við og tel rétt að ræða aðeins nánar og vænti þess að ráðherra blandi sér í þær umræður að nýju og svari athugasemdum mínum og fyrirspurnum.
    Ég er ekki frá því að ein meginbreytingin í frv. sé á atriðum er varða meðferð kærumála og viðurlög sem því tengjast. Ég geri ekki athugasemdir við þessi ákvæði um fyrirhugaða kærunefnd jafnréttismála eða um það að unnt verði að dæma bæði skaðabætur og miskabætur sé brotinn á fólki réttur samkvæmt þessum fyrirhuguðu lögum. En það er auðvitað grundvallaratriði þegar slík ákvæði eru sett í lög að það sé skýrt og það sé nákvæmt í lögunum hvað megi og hvað megi ekki og þar af leiðandi hvað sé brot á lögunum og hvað ekki. En mér sýnist að á stöku stað í frv. sé verið að setja inn ákvæði --- hugsanlega eru það ekki allt ný ákvæði, hugsanlega hafa þau verið í gildandi lögum --- sem erfitt er að framfylgja og sem erfitt er að kveða upp úr um hvenær séu brotin eða ekki. Og mætti ég til að mynda vekja athygli á 12. gr. þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar.``
    Þarna er nú í fyrsta lagi verið að skylda félagasamtök til að taka upp reglur, sem mér finnst ekki eðlilegt í sjálfu sér, þó svo ríkið setti sjálfu sér eða sveitarfélögum þessar reglur. Það er mjög auðvelt að hugsa sér alls kyns samtök og aðila þar sem slíkum reglum yrði ekki auðveldlega við komið. Nægir að nefna íþróttafélög og fleiri aðila þar sem réttast er auðvitað að hver félagasamtök hafi sínar eigin reglur. En það er ekki nóg með það því að jafnvel þó að ríkið teldi ástæðu til að setja sjálfu sér og sveitarfélögunum þessar reglur liggja náttúrlega í augum uppi nú þegar --- án þess að ég hafi gert neina sérstaka athugun á því --- ótal dæmi um nefndir, ráð eða stjórnir þar sem erfitt er eða næstum því óframkvæmanlegt að framfylgja svona ákvæði. Og byrjum bara hér á hv. Alþingi. Er það krafa samkvæmt þessari grein að í öllum nefndum Alþingis sitji jafnmargar konur og karlar eða því sem næst? ( Félmrh.: Þar sem því verður við komið.) Þar sem því verður við komið, já. Verður það krafa samkvæmt þessari grein að t.d. í dómnefndum í Háskóla Íslands, þar sem oft og tíðum er verið að fjalla um mjög sérfræðileg viðfangsefni þar sem eru kannski mjög fáir sérfræðingar á viðkomandi sviði og þeir kannski annaðhvort allir konur eða allir karlar, verður þá krafan sú að þar sitji jafnmargir af hvoru kyni? Í slíkum tilvikum er augljóst að ekki er hægt að

framfylgja þessu ákvæði. Þess vegna er auðvitað settur inn þessi asnalegi hortittur, með leyfi forseta --- ég bið ráðherra að afsaka orðalagið --- ,,þar sem því verður við komið``. En hver á að meta það? Hver á að meta slíkt undanþágu- og undankomuákvæði? Og spurningin er auðvitað alltaf þessi: Hvaða vit er í því að festa í lög ákvæði sem þessi sem eru auðvitað í eðli sínu markmiðsákvæði, jafnvel þó svo ekki sé ágreiningur um þau markmið.
    Ég er ósammála því í grundvallaratriðum að binda mikið af slíkum ákvæðum í lög. Ég er ekkert ósammála þessu markmiði, fjarri því, en ég tel ekki að það sé skynsamlegt að gera það og það er auðvitað hægt að nefna hér
margs kyns dæmi þar sem óframkvæmanlegt er að fara eftir slíku ákvæði og þar sem undanþáguklásúlan, ,,þar sem því verður við komið``, verður að sjálfsögðu til þess að allt mat á því hvað er refsivert og fyrir hvað megi dæma skaðabætur og miskabætur verður meira og minna handahófskennt. Þess vegna tek ég þetta sem dæmi um grein sem ekki er nægilega skýr og sem kann að valda ágreiningi að ástæðulausu um það hvernig túlka beri refsiákvæði og kæruatriði í þessum málum.
    Ég geri jafnframt, virðulegi forseti, athugasemd við 8. gr. frv. þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Við ráðningu í starf skal það kynið, sem er í minni hluta í starfsgrein, ganga fyrir uppfylli umsækjandi tilskildar kröfur til starfsins. Gildir þetta jafnt um stöðuveitingar hjá hinu opinbera sem og á almennum vinnumarkaði.``
    Ég get ekki að því gert, virðulegi forseti, að mér finnst þessi grein í sjálfu sér óeðlileg þó að aftur sé ég ekki ósammála markmiðinu með henni. Ég held að það hljóti að vera þannig að hæfasti umsækjandinn eigi að fá starf en ekki bara einhver umsækjandi sem uppfyllir tilskildar kröfur vegna þess að hann er af því kyni sem er í minni hluta í starfsgreininni. Það verður að gera greinarmun á tvennu í þessu efni. Það verður að gera greinarmun á því hverjir uppfylla tilskildar kröfur og svo hins vegar því hver er hæfastur þeirra sem uppfylla tilskildar kröfur. Ég lýsi andstöðu minni við þetta ákvæði þó að ég sé hins vegar ekki ósammála því markmiði sem að baki liggur, sem sé því að
konum jafnt sem körlum sé gert kleift að vinna sem flest störf í þjóðfélaginu og að konum sé fjölgað í svokölluðum hefðbundnum karlastörfum og öfugt.
    Síðan vil ég gera athugasemd, herra forseti, við 15. gr. frv. sem að mínum dómi inniheldur fráleitt ákvæði þess efnis að allir þingflokkar tilnefni jafnmarga fulltrúa í Jafnréttisráð. Það er að vísu svo að greinin er ekki fullkomlega skýr að því er þetta atriði varðar, en hún verður eigi að síður ekki lesin á annan veg en þann að þingflokkarnir allir tilnefni jafnt í Jafnréttisráð, óháð þingstyrk. Þetta þýðir það að þingflokkur með tvo þingmenn tilnefnir jafnmarga fulltrúa í Jafnréttisráð og sá þingflokkur, ef hann væri til hér á Alþingi, sem hefði 38 þingmenn eða þingflokkur með 20 þingmenn eða hvaðeina. Þetta er

auðvitað gömul spurning sem menn þekkja, en þetta er að mínum dómi algjörlega óeðlilegt og kemur ekki til greina að samþykkja.
    Ég fæ ekki betur séð en að það leiði síðan af þessu að Jafnréttisráð er ekki skipað tilteknum fjölda nefndarmanna heldur breytilegum fjölda. Mér sýnist að það séu sex samkvæmt tilnefningum tiltekinna aðila og aðrir samkvæmt tilnefningu allra þingflokka á Alþingi. Og ef það eru sex þingflokkar á Alþingi, eins og var hér eftir síðustu alþingiskosningar, þá væru 12 fulltrúar í þessu Jafnréttisráði. Nú hefur hins vegar atvikast svo að þingflokkarnir eru ekki lengur sex hér á Alþingi heldur sjö plús þingflokkksígildið, Samtök um jafnrétti og félagshyggju, þannig að þá hefði samkvæmt þessu ákvæði átt að fjölga í Jafnréttisráði við það eitt að Borgaraflokkurinn klofnaði í tvo þingflokka á síðasta þingi. Ég sé ekki annað en að þessi grein þýði það og þar með hefði fjölgað úr 12 í 13. Mér berst að vísu sú ábending úr sal að þetta eigi að gera eftir hverjar þingkosningar. En andi þessa frv. er sá að tryggja öllum þingflokkum jafnan rétt. Má vera að það sé jafnréttishugsjón í sjálfu sér þó að hún sé nú á misskilningi byggð. En hvers vegna skyldi þá gengið á rétt Frjálslynda hægriflokksins hér á Alþingi eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Þetta er auðvitað allt ein endaleysa að hafa þetta svona og er sérstaklega óeðlilegt að nefndir eða ráð sem tilnefnt er í með atbeina Alþingis eða þingflokka sé ekki ákveðin föst stærð heldur breytileg. Það er þó í sjálfu sér kannski minni háttar atriði en það er þetta með tilnefningu þingflokka í ráðið sem ég vil leyfa mér að gera mjög alvarlega athugasemd við.
    Ég hef þegar nefnt hina nýju fyrirhuguðu kærunefnd jafnréttismála sem mér líst nokkuð vel á og það sem undir þá nefnd heyrir í frv. Hins vegar vaknar auðvitað sú spurning í sambandi við kærumeðferð og viðurlög hvernig beita eigi viðurlögum gagnvart ráðherra sem staðinn er að því að brjóta þessi lög. Við höfum ýmis nýleg dæmi um það að Jafnréttisráð hefur úrskurðað svo að ráðherra hafi brotið jafnréttislögin. Og það er engin ástæða til að halda annað en að úrskurður hefði fallið á sama veg í kærunefnd jafnréttismála hefði hún verið fyrir hendi á þeim tíma. Spurningin er þessi: Hvað gerist ef ráðherra brýtur hin nýju lög? Má þá sækja hann til embættismissis samkvæmt þeim úrræðum sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir eða á að fara með hann fyrir venjulega dómstóla og stefna fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs til að greiða bæði skaðabætur og miskabætur? Hvaða úrræði verða fyrir hendi fyrir ráðherra þessa málaflokks, sem nú er hæstv. félmrh. og verður áfram samkvæmt frv., til þess að tryggja það að samráðherrar hans sæti ábyrgð ef upp koma slík mál, eða réttara sagt, hvaða úrræði verða fyrir hendi fyrir ráðherra þessa málaflokks til að þurfa ekki að sitja í ríkisstjórn framvegis með aðilum sem brjóta lögin með ósvífnum hætti í krafti síns ráðherravalds? Þetta vildi ég leyfa mér að spyrja um í tilefni af þessum nýja kafla, þessum VI. kafla frv. um viðurlög og réttarfar.

    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa fleiri orð um frv. Það hefur að vísu fengið nokkra umfjöllun frá því á síðasta þingi og eitthvað af athugasemdum og umsögnum hefur borist, en ég tel sýnt að það þurfi að fara mun betur í þessi ákvæði, a.m.k. þessi sem ég var að nefna, áður en frv. verður tilbúið til afgreiðslu hér í hv. deild. Það er a.m.k. mín skoðun. Það má vera að unnt verði að gera þær breytingar á frv. að það geti gengið hratt og greiðlega fyrir sig en það byggist þá á því að komið verði til móts við þau sjónarmið sem ég var hér að lýsa.