Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Vestf. spyr fyrst hvort ég muni beita mér fyrir endurskoðun á gjaldskrá um lendingar- og þjónustugjöld á Keflavíkurflugvelli og samræmingu þeirra við gjaldskrár samkeppnisflugvalla.
    Sem svar við þessu vil ég taka fram að ákvörðun á lendingargjöldum, sem eru ákveðin af utanrrn., er miðuð annars vegar við sambærileg gjöld á Shannon-flugvelli í Írlandi og Prestwick á Skotlandi, en þessir tveir flugvellir keppa við Keflavíkurflugvöll um lendingar vegna eldsneytistöku á leiðinni yfir Norður-Atlantshaf. Hins vegar er höfð til hliðsjónar sambærileg gjaldtaka á flugvöllum sem flogið er til á Norðurlöndum og í Norður-Evrópu. Gjaldskrá vegna lendingargjalda er stöðugt í endurskoðun, t.d. í tengslum við gerð fjárlaga. Þess má geta að lendingargjöld á Keflavíkurfugvelli eru nú mun lægri en á áðurnefndum samkeppnisflugvöllum, samanber töflur og upplýsingar sem dreift hefur verið hér á borð hv. þm., og m.a. lægri en þau eru á Reykjavíkurflugvelli.
    Hvað varðar þjónstugjöld þá er í gildi samningur við Flugleiðir hf. sem var gerður fyrir mína tíð, eins og þar stendur. Hann tók gildi 15. apríl 1987 og gildir til fimm ára. Ef spurt er hvort ég hafi í hyggju að segja þeim samningi upp þá hefur það verið skoðað en á því eru miklir meinbugir. Gjaldtakan er tvenns konar, annars vegar fast afgreiðslugjald fyrir millilendingu án umhleðslu. Afgreiðslugjald t.d. fyrir B-747 þotu sem millilendir á Keflavíkurflugvelli er 900 dollarar á móti 1480 á Shannon, svo dæmi sé tekið. Hins vegar er afgreiðslugjald í áætlunar- og leiguflugi, hleðsla og afhleðsla, háð sérstöku samkomulagi milli aðila. Áskilið er að taxtar séu gagnkvæmir þegar hægt er að koma því við. Dæmi um þetta er að SAS borgar sama afgreiðslugjald á Keflavíkurflugvelli og félagið tekur fyrir sambærilega þjónustu sem það veitir öðrum flugfélögum á flugvöllum í Danmörku, Noregi og
Svíþjóð. Þegar ekki er hægt að koma gagnkvæmisreglum við er gjaldtaka miðuð við meðaltaxta á Norðurlöndum. Gjaldskrártaxtar Flugleiða hf. eru háðir samþykki utanrrn. og við það miðaðir að þjónustugjald standi undir kostnaði en flugafgreiðslan er opin allan sólarhringinn allt árið um kring.
    Í hvert skipti sem farið er fram á endurskoðun gjaldskrár þjónustugjalda Flugleiða hefur Flugmálastjórn nýtt sér heimild í samningi til að fá aðgang að öllum bókhaldsgögnum Flugleiða hf. til að ganga úr skugga um réttmæti gjaldskrárbreytinga og var það síðast gert í júlí 1989.
    Þá er spurt í öðru lagi: ,,Er þess að vænta að afgreiðsla á Keflavíkurflugvelli verði færð í hendur hlutlausra aðila sem stuðli að auknum umsvifum?``
    Eins og fram hefur komið er þessi samningur um afgreiðslu á Keflavíkurflugvelli í gildi til 15. apríl 1992. Umferð er það lítil um Keflavíkurflugvöll að verkefni eru ekki til skipta, að mínu mati. Flugvöllurinn er opinn allan sólarhringinn, alla daga

ársins. Umferðin einkennist af álagstoppum, á morgnana og síðdegis. Umferðarþungi er tiltölulega mikill um sumartímann en mun minni að vetrar- og vorlagi. Mannafli og tækjabúnaður nýtist því illa. Flugvöllurinn þarf að veita m.a. eftirtalda þjónustu:
    Flugumsjón; upplýsingar til flugmanna, flugfjarskipti, flugáætlunargerð o.s.frv.
    Flugvirkjadeild; þjónusta á flughlaði, flugvélaviðgerðir, flugvélaafgreiðsla, hleðsla eða afhleðsla á vörum og farangri, ræsting flugvéla o.s.frv.
    Farþegaafgreiðsla; innritun, upplýsingar o.fl.
    Til að sinna þessum verkefnum starfa 250--300 manns hjá afgreiðsluaðilanum. Hann hefur fjárfest í sérhæfðum afgreiðslubúnaði fyrir á annað hundrað milljónir króna. Það gefur auga leið að miðað við þann samning sem í gildi er við Flugleiðir hf. er ekki grundvöllur fyrir því að heimila öðrum aðila að taka að sér takmarkaða afgreiðslu og sinna aðeins tilfallandi verkefnum en láta fastakostnaðinn hvíla aðeins á einum aðila. Hins vegar mun verða fylgst nákvæmlega með gjaldskrá og við það miðað að þjónustugjöldunum sé haldið í lágmarki því það er auðvitað mikið hagsmunamál að stuðlað verði að því með öllum ráðum að umsvif á Keflavíkurflugvelli verði aukin. Við það er miðað að þegar kemur að lokum samningstímabils við Flugleiðir verði gerð ítarleg úttekt á þjónustuþáttum og öllu sem varðar flugumferð á Keflavíkurflugvelli.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, vísa ég til þeirra upplýsinga sem hér hafa verið lagðar á borð þingmanna, bæði að því er varðar samanburð á þessari gjaldtöku og magni þeirrar umferðar, þeirra flutninga sem þarna fara um.