Jóhann Einvarðsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessa fsp. Ég held að hér sé mál sem þyrfti að ræðast miklu ítarlegar en hægt er að gera í venjulegum fyrirspurnatíma. Staðreyndin er sú að ekkert er gert á Keflavíkurflugvelli, hvorki af hálfu Flugmálastjórnar né Flugleiða, til að fjölga lendingum á vellinum. Það er staðreynd. Ég gæti nefnt nokkur dæmi, ekki endilega um fraktvélar sem eru að koma hér að sækja 10--20 tonn en nýverið veit ég um tvö tilfelli þar sem stórar farþegaflugvélar hafa lent á Keflavíkurflugvelli með allt upp undir 300--400 farþega. Vegna kostnaðar hefur einungis verið stoppað úti á flugvelli og tekið eldsneyti, en ekki lagst upp að flugstöðinni til að fá farþegana til að koma inn og versla þar. Ástæða þess að það er ekki gert er kostnaður og þjónustugjöld sem Flugleiðir taka fyrir þá afgreiðslu sem þeir þurfa að inna af hendi.
    Auðvitað þarf, miðað við þá aðstöðu sem við höfum skapað okkur á Keflavíkurflugvelli sem er mjög glæsileg, að gera allt sem hægt er til að fjölga viðskiptavinum. Núna, við þær breytingar sem eru að verða á flugumferð yfir Atlantshafið með aukinni umferð tveggja hreyfla flugvéla, er unnt að auka afköst flugstöðvarinnar mjög mikið. Þess vegna þakka ég fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. og vænti þess að við fáum einhvern tímann betra tækifæri til að ræða þessi mál en hér í örstuttum fyrirspurnatíma.