Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er hverju orði sannara að hér er hreyft athyglisverðu máli, máli sem á að skoða vandlega og varðar það með hvaða hætti hægt er að auka umsvif og ábatasama starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Lengi vel voru uppi hugmyndir um fríiðnaðarsvæði, þ.e. iðnaðarsvæði til framleiðslu í tollvörugeymslu og einnig hugmyndir um umskipunarhöfn. Og menn hafa vissulega í huga þær breytingar á viðskiptaháttum í kringum okkur sem gætu þýtt að ríki utan EFTA--EB svæðisins, þegar þeir samningar taka gildi, hefðu ákveðinna hagsmuna að gæta í þessu efni. Þetta ber allt saman að skoða vandlega.
    En menn mega samt sem áður ekki ganga svo langt í því máli að þeir neiti staðreyndum. Hér er búið að leggja á borðið samanburð um lendingargjöld og gjaldtöku fyrir afgreiðslu flugvéla ( Gripið fram í: 25 tonna.) á þessum flugvöllum og öllum sambærilegum flugvöllum. Og menn sjá það fljótlega í hendi sér að Keflavíkurflugvöllur kemur nokkuð vel út úr þeim samanburði út af fyrir sig.
    Í annan stað er á það að benda að í öllum þeim dæmum sem menn hafa tekið af hagstæðustu flugvöllum annars staðar er sama kerfið, að einn aðili annast afgreiðsluna, þjónustuna. Það styðst við ákveðin rök, það er erfitt að skipta því milli aðila.
    Í þriðja lagi er hér talað eins og að Flugfax sé aðili sem ekki hafi verið talað við eða haft hafi verið horn í síðu hans. Ég vil taka það skýrt fram að ég hef átt mjög góðar viðræður, ítarlegar viðræður og gott samstarf við þá aðila og hef tvisvar skorist í leikinn til að gæta hagsmuna þeirra. Í fyrsta lagi var það að því er varðar spurninguna um sérhæfða vörulyftu til að hægt væri að hlaða á efra þilfar á þotum. Við beittum okkur í því máli. Niðurstaðan var sú að Flugleiðir keyptu slíka vörulyftu fyrir 6 millj. kr. Hins vegar hefur sú breyting orðið á að því er varðar flutningamagn að það hefur aldrei á það reynt, þetta tæki hefur aldrei verið notað.
    Hitt dæmið var krafan um aukinn sveigjanleika í gjaldtöku þar sem ég beitti mér fyrir því að Flugleiðir veittu afslátt frá þessum töxtum og hann er í boði. Þannig að ég mun vissulega halda áfram að skoða þetta mál vandlega og eiga góðar viðræður við Flugfaxmenn og fjarri sé mér að draga taum einhvers einokunaraðila í þessu máli.
    Á hitt er að líta að ég er bundinn af þeim verkum forvera minna að gera samning til fimm ára og ég hef skoðað það vandlega. Það er ekki hlaupið að því, út frá hagsmunum íslenska ríkisins, að rifta þeim samningi.