Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á því að ég vék mér úr sal þegar ég hélt að tvö önnur dagskrármál væru á undan þessari fsp. En hv. fyrirspyrjandi hefur nú gert grein fyrir spurningum sínum sem eru í þremur liðum.
    Svar við fyrstu spurningunni:
    Samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið í heilbrrn. um niðurfellingu afnotagjalda Ríkisútvarpsins sl. þrjú ár hljóða tölur þannig:
    Hinn 1. jan. 1988 var fjöldi þeirra sem fengu niðurfellingu 4574. 1. jan. 1989 var þessi fjöldi orðinn 5020 og 1. jan. 1990 var fjöldi þeirra sem fengu niðurfellingu orðinn 5558 elli- og örorkulífeyrisþegar.
    Til viðbótar þeim sem hér hafa verið taldir er það svo að skv. 3. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 357 frá 1986 greiða vistmenn dvalar- og elliheimila, með eigin viðtæki í notkun þar, ekki af þeim afnotagjöld. Hinn 1. jan. 1990 námu undanþágur, samkvæmt þessu ákvæði, 1105, þannig að samtals eru undanþágur samkvæmt þessum tveimur reglugerðarákvæðum 1. jan. 1990 6663. Því miður hef ég ekki tölu á þessum einstaklingum nema fyrir þetta seinasta ár. Það er því svolítið misræmi í heildartölunni ef við tökum þessa vistmenn á dvalar- og elliheimilunum með. Þá erum við með töluna 6663, en það á aðeins við um síðasta árið. Hinar tölurnar, sem ég las fyrst, eru sambærilegar.
    Annar liður fsp. var: ,,Eftir hvaða reglum er farið við ákvörðun niðurfellingar afnotagjalda?`` Þær reglur sem farið er eftir í þessu sambandi eru eftirfarandi:
    1. gr. laga nr. 40/1986, um breytingar á útvarpslögum nr. 68/1985, er svohljóðandi: ,,Við 24. gr. laganna bætist ný málsgr. svohljóðandi: Í reglugerð má ákveða að þeir sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri skv.
19. gr. laga um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum, verði undanþegnir afnotagjöldum. Í reglugerð má einnig ákveða undanþágu blindra manna frá greiðslu afnotagjalds af hljóðvarpi.``
    Ég vil vekja athygli á því að í þessum lagatexta segir: ,,Í reglugerð má ákveða að þeir sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri.`` Það er nokkuð annað en þeir sem bara hafa tekjutryggingu, því uppbót er skilgreind sem heimilisuppbót og skal ég aðeins koma að því nánar. Þau reglugerðarákvæði sem sett eru samkvæmt þessari lagagr. eru þannig: Í reglugerð nr. 357 frá 1986, um Ríkisútvarpið, 18. gr. 7. málsgr., sbr. reglugerð nr. 478 frá 1986, segir svo: ,,Veita skal þeim elli- og örorkulífeyrisþegum sem njóta uppbótar (frekari uppbótar) á lífeyri sinn skv. 1. málsgr. 13. gr. reglugerðar nr. 351 frá 1977 um tekjutryggingu, heimilisuppbót og heimildarhækkanir skv. 19. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds af viðtækjum í þeirra eigu enda séu viðtækin hagnýtt til einkanota. Undanþága frá greiðslu útvarpsgjalds tekur gildi fyrsta dag hvers mánaðar eftir að tilkynning berst

Ríkisútvarpinu um að viðkomandi elli- og örorkulífeyrisþegi njóti uppbótar á lífeyri samkvæmt fyrrgreindu reglugerðarákvæði.``
    Það er því samkvæmt fyrrgreindu reglugerðarákvæði komið undir mati Tryggingastofnunar ríkisins hverjir njóta þessarar undanþágu. Og þar er átt við það að það eru elli- og örorkulífeyrisþegarnir sem njóta heimilisuppbótar, sérstakrar heimilisuppbótar, og því sem hér er kallað heimildarhækkanir, skv. 19. gr. sem er einn liður enn þar sem Tryggingastofnunin metur sérstakar aðstæður einstaklinga. Það er þessi hópur sem fær þennan afslátt, enda sýna tölur það, á milli fimm og sex þús. einstaklingar. Ef það væru allir sem njóta tekjutryggingar væri það miklu meiri fjöldi. Tryggingastofnun ríkisins tilkynnir innheimtudeild Ríkisútvarpsins ákvarðanir sínar í þessu efni. Innheimtudeild Ríkisútvarpsins kannar hins vegar hvort um einkaafnot er að ræða, þ.e. hvort á viðkomandi heimili sé fólk sem að réttu lagi ætti að greiða afnotagjald þótt einhver annar heimilismaður njóti undanþágu. Reynist svo vera synjar innheimtudeild Ríkisútvarpsins um undanþáguna. Undanþága samkvæmt framansögðu gildir aðeins um eitt viðtæki. Þetta eftirlit er sem sagt á vegum Ríkisútvarpsins.
    Þriðji liður fsp. var: ,,Hvernig er háttað endurskoðun á skrá yfir þá sem njóta niðurfellingar afnotagjalda?`` Endurskoðun fer fram með þeim hætti að innheimtudeild Ríkisútvarpsins ber skrá Tryggingastofnunarinnar yfir þá sem njóta heimilisuppbótar saman við notendaskrá Ríkisútvarpsins til þess að kanna í ársbyrjun hverjir hafa rétt til uppbótar. Innheimtudeildin fylgist með því reglulega með aðstoð þjóðskrár hvaða elli- og örorkulífeyrisþegar sem uppbót hafa fengið eru látnir.
    Ég vænti þess að þetta svari fsp. hv. fyrirspyrjanda. Þó svo, eins og fram kom í fsp., að þetta séu reyndar ákvæði í útvarpslögum sem farið er eftir, er framkvæmdin auðvitað í samráði og samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnuninni.