Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í raun er þessi fsp. í tengslum við aðra hér næst á eftir. Sá fjöldi einstaklinga sem hér um ræðir sýnir náttúrlega að þarna er um verulegar upphæðir að ræða fyrir Ríkisútvarpið. En ég hef þá e.t.v. fengið rangar upplýsingar eða eitthvað farið á milli mála þegar ég hélt því fram að Ríkisútvarpið hefði engin afskipti af framkvæmd þessara mála, ég taldi mig nú reyndar hafa þeirra orð fyrir því. En auðvitað er eðlilegt að eftirlit sé á hendi Ríkisútvarpsins og mun ég nú bæta um betur eða athuga hvort mér berast aðrar upplýsingar en ég hafði fyrr.
    Mér var ekki ljóst af svörum hæstv. ráðherra þegar hann svaraði spurningu minni um endurskoðun þessarar skrár hvort einstaklingar falla því aðeins út af skrá að þeir látist eða ef um er að ræða sérstakar heimildir, eins og hann orðaði það, hvort það eru aðstæður sem geta verið breytilegar og hvort fylgst er þá með því með viðunandi hætti.