Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Aðeins út af þessari seinustu athugasemd hv. fyrirspyrjanda um endurskoðun. Hér kom fram, ég hef kannski ekki lesið það nógu skýrt eða of hratt, að endurskoðun fer fram með þeim hætti að innheimtudeild Ríkisútvarpsins ber skrá Tryggingastofnunarinnar yfir þá sem njóta heimilisuppbótar saman við notendaskrá útvarpsins til þess að kanna í ársbyrjun hverjir hafa rétt til uppbótar. Það er einmitt þetta, það geta verið breytilegar aðstæður þannig að menn geta farið aftur út af skránni þó að þeir hafi verið þar inni ef aðstæður hafa breyst eitthvað.