Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. er í nánun tengslum við þá sem borin var hér upp næst á undan og varðar tekjutap Ríkisútvarpsins vegna niðurfellingar afnotagjalda.
    Við umfjöllun lánsfjárlaga í desember sl. kom fram hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins að þeir hefðu talsverðar áhyggjur af framkvæmd þessa ákvæðis í útvarpslögum, þ.e. um niðurfellingu afnotagjalda. Ég vil skjóta því hér að að mér komu nokkuð á óvart svör hæstv. heilbrrh. um eftirlit innheimtudeildar Ríkisútvarpsins vegna þess að ég tel mig hafa orð þeirra fyrir því að þeir hafi engin tök á að fylgjast með framkvæmdinni. Þeir tóku skýrt fram þó, eins og ég gerði reyndar áðan, virðulegi forseti, að þeir væru ekki að fetta fingur út í lögin en hefðu eðlilega áhyggjur af tekjutapi Ríkisútvarpsins vegna þeirra. Þeim fannst óeðlilegt að Ríkisútvarpið sjálft bæri þungann af þessum niðurfellingum. Er sú afstaða skiljanleg þar sem fjárhagur Ríkisútvarpsins er mjög bágborinn og það hefur ekki notið þeirra tekjustofna sem því ber lögum samkvæmt. Það hefur ekki notið tekna vegna aðflutningsgjalda eins og því ber samkvæmt núgildandi lögum, þó nú virðist í bígerð að fella þann tekjustofn Ríkisútvarpsins niður. Því brýnna verður að aðrir tekjustofnar þess séu ekki felldir niður því að nóg mun að gert og vandséð hvernig Ríkisútvarpið á að geta rækt skyldur sínar ef svo heldur fram sem horfir. Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh.:
,,1. Hvert var tekjutap Ríkisútvarpsins vegna niðurfellingar afnotagjalda samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar sl. fimm ár?
    2. Er Ríkisútvarpinu bætt tekjutapið og ef svo er, með hverjum hætti?
    3. Hefur Ríkisútvarpið aðgang að skrá yfir þá sem njóta niðurfellingar í því skyni að fylgjast með ákvörðunum um niðurfellingu og endurskoðun á skránni?``