Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Í tilefni orða hv. 13. þm. Reykv. þá hélt ég að ég hefði tekið skýrt fram í upphafi máls míns að ég væri ekki að amast við þessari niðurfellingu, síður en svo, heldur var ég að spyrja um á hverjum tekjutap lenti. Ég hélt að ég hefði gert það skýrt í báðum fsp. reyndar. Ég vil taka undir þá skoðun hv. þm. að það sé eðlilegt að fella þessi gjöld niður til umrædds hóps. Ég er sammála því að það þyrfti að koma til ansi mikil hækkun á bótum ef ellilífeyrisþegar ættu að geta staðið undir ýmsum útgjöldum sem þeir eru undanþegnir nú.
    Við hæstv. menntmrh. vil ég segja þetta: Mér þykir gott að heyra ef búið er að finna endanlega lausn á þessu máli. Ég undrast satt að segja örlítið þessi orð hans um að tölur séu ómarktækar. Það hefði átt að framreikna þetta. Því voru þær þá ekki bara framreiknaðar? Það getur nú varla verið ofverk með fimm tölur. En jafnvel á verðlagi hvers árs kemur berlega í ljós að þetta eru verulegar upphæðir sem þarna um ræðir. Nú er ekki svo að mér hafi ekki verið kunnugt um þessa ákvörðun sem tekin var hér í lok þings fyrir áramót heldur að í umræðu um lánsfjárlög virtist hæstv. menntmrh. ekki treysta sér til að svara því afdráttarlaust hvort og hvernig yrði við þetta staðið. Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að það líður þarna ár, þ.e. frá 13. des. 1988, þá líður rúmt ár þangað til málið er aftur til umfjöllunar. Það átti að koma til framkvæmda í janúar 1989, gerði það ekki og því leikur manni forvitni á að vita hvort framkvæmdin er betri nú en þá. Og ef staðið verður núna við þessar niðurfellingar millifærsluskulda Ríkisútvarpsins við ríkissjóð, hvert verður þá framhaldið á þessum málum? Hvernig verður á þessu haldið í framtíðinni? Verður þetta gert með slumpum öðru hverju eða verður komið þeirri skipan á að ekki komi til skuldasöfnunar vegna þessara niðurfellinga?