Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ljóst að hér er verið að breyta kerfi til frambúðar. Í öðru lagi hefur Alþingi tekið ákvörðun sem ríkisstjórnin, menntmrn. og fjmrn. munu að sjálfsögðu framkvæma, það liggur í augum uppi. Og í þriðja lagi get ég út af fyrir sig framreiknað þessar tölur fyrir hv. þm. og hef reyndar gert það á borðinu hjá mér. Það eru samtals 450 millj. kr. á núvirði, um það bil 80--90 millj. kr. á ári.
    Aðalatriðið er að það hefur verið viðurkennt af stjórnvöldum, bæði Alþingi og ríkisstjórn, að sú skipan sem verið hefur hafi verið óeðlileg. Farið var í það af núverandi ríkisstjórn að hreinsa upp skuldina sem safnast hefur, launaskuld Ríkisútvarpsins við ríkissjóð á árunum 1986, 1987 og 1988, og jafna það í raun og veru út með millifærslu að því er varðar niðurfellingu afnotagjalda til þeirra aldraðra og öryrkja sem búa aðeins við tekjutryggingu og heimilisuppbót. Þetta hefur verið gert og þetta verður framkvæmt með þessum hætti.
    Ástæðan til þess að menntmrh. gat ekki svarað þessu í Ed. í haust var sú að þetta hafði ekki verið ákveðið þá en var ákveðið fáeinum dögum seinna.