Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég sé ástæðu til þess að gera athugasemd við ræðu hæstv. forseta hér áðan vegna þess að þá ræðu mátti skilja svo að bæði ég og raunar fyrirspyrjandi værum að mæla gegn því að þeir lífeyrisþegar sem hér er rætt um njóti þeirra fríðinda sem þeir gera nú. Málið snýst einfaldlega um það hvort stofnunin á að selja þjónustu sína á mismunandi verði eftir því hver kaupir hana eða þá um það hvort Tryggingastofnunin á að greiða þennan kostnað fyrir hönd þeirra ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega sem hér um ræðir. Ég er fylgjandi fyrirkomulaginu sem ég nefndi síðar, þ.e. að Tryggingastofnunin greiddi, og ég skil það svo að hv. fyrirspyrjandi sé það líka. Þetta mál hefur komið hér til umræðu nokkrum sinnum á þingi eins og hæstv. forseti minnti hér á, m.a. í sambandi við hennar þáltill., og ævinlega þegar það hefur komið til umræðu hafa komið upp þessar mismunandi skoðanir um leið að þessu marki. Það hefur ekki verið deila um niðurstöðuna heldur um það hver ætti að bera kostnaðinn af þessari fyrirgreiðslu.