Peningamagn í umferð
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fyrirspurn til viðskrh. sem hljóðar svo:
,,1. Hvað má peningamagn í umferð [eins og það heitir á fínu máli eða öðru nafni] (seðlaprentun) aukast frá upphafi til loka ársins 1990 svo það samrýmist verðlagsforsendum nýgerðra kjarasamninga?
    2. Hvaða stjórntækjum hyggst viðskrh. beita til þess að ná þessum markmiðum og hvaða skrifleg eða munnleg fyrirmæli hefur hann gefið Seðlabanka Íslands varðandi seðlaprentun?
    3. Telur viðskrh. rétt að fjmrh. fjármagni hallarekstur ríkissjóðs með svokölluðum ,,yfirdrætti í Seðlabankanum``?``
    Það er rétt að geta þess í leiðinni að ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er sú að hér hefur ríkt stjórnleysi og glórulaus eyðsla hjá ríkinu umfram fjárlög sem síðan er fjármögnuð með seðlaprentun umfram það sem Alþingi hefur leyft. T.d. er ég hér með tölur úr janúarhefti af Hagtölum mánaðarins, gefnum út af Seðlabankanum, að á tímabilinu 31. nóv. 1988 fram að tímabilinu 30. nóv. 1989 hafi seðlaprentun aukist um 5 milljarða 690 millj. kr., þ.e. 40,1%. Þetta finnst mér alveg ógnvekjandi tölur. Á sama tíma og hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn eru að tala um að verið sé að ná tökum á öllu, góðri stjórn á efnahagsmálum, þá er nú ástandið í reynd svona.
    Varðandi 2. lið fyrirspurnarinnar, hvaða stjórntækjum sé beitt, er mér kunnugt um að í öllum ríkjum OECD er seðlaprentun yfirleitt höfð í samræmi við hagvöxt þannig að hér þarf að skoða málin upp á nýtt.
    Í þriðja lagi varðandi það hvort viðskrh. telji rétt að fjmrh. fjármagni hallareksturinn með yfirdrætti í Seðlabankanum, þá eru hér samþykkt lánsfjárlög á hv. Alþingi og spurningin er sú hvort viðskrh. geti heimilað fjmrh. að fara fram yfir þessi lánsfjárlög með því að gefa bara yfirdrátt í Seðlabankanum. Hefur hann til þess leyfi?