Peningamagn í umferð
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Til mín er beint fyrirspurn í þremur liðum. Ég mun leitast við að svara hverjum þeirra.
    Í fyrsta lagi, um það hversu mikið peningamagn í umferð megi aukast á þessu ári til þess að það fari ekki í bága við nýgerða kjarasamninga, vil ég segja þetta: Peningamálastjórn Seðlabankans hefur ekki verið í því fólgin að reyna að stýra peningamagninu nákvæmlega til að ná tilteknum markmiðum í verðlagsmálum. Í þess stað hefur bankinn lagt áherslu á að halda útlánum sínum til innlánsstofnana og ríkissjóðs innan hóflegra marka og stuðla þannig að hóflegri aukningu á útlánum bankakerfisins í heild til samræmis við sett markmið í lánsfjáráætlun eða endurskoðun hennar hverju sinni. Þetta þýðir ekki að bankinn fylgist ekki með þróun peningamagns. Hann gerir reyndar reglulegar áætlanir eða viðmiðunarspár um þessar hreyfingar. Samkvæmt fyrirliggjandi viðmiðunarspá bankans er gert ráð fyrir að peningamagn vaxi litlu hraðar en landsframleiðsla milli áranna 1989--1990. Það er svona eins og samanburður á 15--16% fyrir peningamagn og sparifé samanlagt og landsframleiðslu með 12%. Þá er ég að tala í peningum. Frá upphafi til loka árs, og það er kannski það sem þingmaðurinn spyr um beinast, er áætlað að þessi stærð, peningamagn og sparifé samanlagt, vaxi um 7--8% á sama tíma og gert er ráð fyrir að verðbreytingar verði 6--7%. En spurning þingmannsins virðist byggjast á þeirri fræðikenningu að stöðug aukning peningamagns umfram hagvöxt leiði til verðbólgu.
    Það er nú þannig að ekki einungis eru forsendur þessarar kenningar umdeildar meðal fræðimanna heldur hefur ekki verið unnt að sýna fram á það með tölfræðirannsókn hér á landi að orsaka verðbólgunnar væri að leita í aukningu peningamagns þótt þetta fari jafnan saman. Það má benda á t.d. að á áttunda áratugnum dróst peningamagnið verulega saman án þess að því fylgdi hjöðnun
verðbólgu. Þá má t.d. nefna að það er hægt að skilgreina þetta hugtak, peningamagn, á ýmsa vegu og það er ekki alveg ljóst hvaða mælikvarða stjórnvöld ættu helst að hafa til hliðsjónar þegar menn taka ákvarðanir um það hvað sé nú æskileg aukning peningamagns. Mér dettur í hug að nefna í þessu sambandi það sem kallað hefur verið lögmál Goodharts, en Goodhart þessi er fyrrverandi hagfræðingur Englandsbanka og nú prófessor við Lundúnaháskóla.
    Lögmálið sem hann hefur sett fram er ákaflega einfalt. Það er svona: ,,Sérhver mælikvarði á peningamagn fer að haga sér öðruvísi en áður um leið og hann er gerður að opinberu markmiði við stjórn peningamála.`` Í þessu eru fólgin mikil hyggindi einfaldlega af því að peningarnir leita sinna leiða.
    Í öðru lagi var spurt hvaða stjórntækjum menn hygðust beita til að ná þessum marmkmiðum og hvaða skrifleg eða munnleg fyrirmæli hefðu verið

gefin Seðlabankanum varðandi seðlaprentun. Ég vil um þetta mál segja það að ég hef reglulegt samráð við stjórn Seðlabankans um þróun peningamála og gengis. Ég hef ítrekað skrifað þeim og óskað eftir skýrslum um þessi efni alla tíð frá því að ég tók við starfi viðskrh., ekki síst vegna vaxtaþróunar. Af því sem ég hef þegar sagt um fyrstu spurninguna er auðvitað ljóst að ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé viturlegt að gefa peningamagnsfyrirmæli með beinum tölum, þ.e. ég tel að hin almennu fyrirmæli í lögunum um Seðlabankann, að hann tryggi að nægilegt magn sé af gjaldmiðli í umferð til þess að menn geti stundað sín viðskipti með eðlilegum hætti, séu nægileg. Stjórntækin sem þarf að beita til þess að ná því markmiði sem hv. þm. lýsti eru á sviði ríkisfjármálanna, launamála, gengis og peningamála. Allt þetta þarf að stilla saman ef árangur á að nást eins og t.d. aðilarnir að kjarasamningum sem nýlega voru gerðir hafa gert sér ljósa grein því þeir hafa sjálfir hvatt til slíks samráðs með launanefnd og ýmsum fyrirsvarsmönnum efnahagsmála af opinberri hálfu. Ekkert eitt dugir þarna. Mér virðist margt benda til þess að við getum náð þarna skárri árangri. Þarna eru áhyggjumál að sjálfsögðu í för. Ég nefni þar ríkisfjármálin en skipuleg
fjármögnun hallans á ríkissjóði er kannski mikilvægasta og mest aðkallandi verkefnið núna.
    Þar með kem ég beint að þriðju spurningu hv. þm., það er hvort rétt sé að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs með yfirdrætti í Seðlabankanum. Mig langar nú að benda á að það er eitt af meginhlutverkum Seðlabankans í öllum löndum eða nær öllum löndum að vera banki ríkissjóðs. Í því felst að seðlabankar þurfa iðulega að hlaupa undir bagga með ríkissjóði og brúa bil á milli tekna og gjalda um skemmri tíma rétt eins og viðskiptabankar hlaupa undir bagga með einstaklingum og fyrirtækjum. Það er hins vegar ljóst að óhóflegur yfirdráttur til langframa getur dregið úr aðhaldi í peningamálum. Þetta er okkur fullljóst og því hefur verið lögð á það mjög rík áhersla að þróa hér á landi markað fyrir ríkisvíxla sem geti komið í staðinn fyrir yfirdrátt í Seðlabankanum, þ.e. að ríkið þurfi að keppa eftir lánsfé á hinum almenna markaði. Markaðurinn fyrir þessa víxla tók mikinn kipp á liðnu ári og í lok janúar voru útistandandi ríkisvíxlar að fjárhæð rúmlega 9 milljarðar kr. Á sama tíma var yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabankanum 3,6 milljarðar. Hann hafði þá lækkað um rúmlega 5 milljarða á einu ári, þ.e. úr tæplega 9 milljörðum niður í 3 1 / 2 . Þetta er auðvitað ánægjuleg þróun og, eins og ég skildi spurningu þingmannsins, það sem hann leitar eftir. Það er mikilvægt að þessi markaður verði efldur til þess að draga úr þörfinni fyrir yfirdrátt í Seðlabankanum.
    Að lokum vil ég, virðulegi forseti, ef ég má ljúka máli mínu, benda fyrirspyrjandanum á að samkvæmt lögunum um Seðlabankann er bankanum óheimilt að fjármagna halla á ríkissjóði til langframa. Í 10. gr. seðlabankalaganna segir að bankanum sé heimilt að veita ríkissjóði lán til skamms tíma. Síðan segir að

slík lán skuli greiðast upp innan þriggja mánaða frá lokum hvers fjárlagaárs með lántöku eða annarri fjáröflun utan Seðlabanka. Með þessu ákvæði en fyrst og fremst með eflingu markaðar fyrir ríkisvíxla og spariskírteini ríkissjóðs á að vera unnt að draga verulega úr óæskilegum áhrifum af halla ríkissjóðs á þróun peningamála.