Peningamagn í umferð
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja það að ég get gefið hæstv. viðskrh. einkunnina 9,5 fyrir að koma sér hjá því að svara spurningunum því að hann hoppaði í kringum þær allar eins og köttur í kringum heitan graut. Í fyrsta lagi hvaða markmið hefðu verið sett varðandi peningaprentun. Af hverju setja ríki OECD sér þá þau markmið að seðlaprentun sé í samræmi við hagvöxt? Eru þau þá öllsömul svona vitlaus, eða hvað? Er þetta þá svona voðalega gott á Íslandi? Ég skil ekki svona. Ég held að það sé tími til kominn að fara að ræða það, alveg eins og við höfum verið að ræða hér eyðslu framkvæmdarvaldsins umfram fjárlög, hver það er sem gerir þetta mögulegt, þessa eyðslu. Það er hæstv. viðskrh. Hann er bankamálaráðherrann í ríkisstjórninni. Það er hann sem leyfir hæstv. fjmrh. að fara yfir á heftinu. Hann ber ábyrgð á því og gerir það með stjórnlausri seðlaprentun. Ég tel að þetta mál þurfi að ræða hér í hv. Alþingi. Þetta er mjög alvarlegt mál. Og það er fyllsta ástæða til þess að ræða það í leiðinni að það getur varla verið að ástæðulausu að búið er að prenta peningaseðil með mynd af Jóni Sigurðssyni forseta sjö sinnum síðan 1918 og sex sinnum hefur aftur þurft að setja hann í úreldingu. Árið 1981 var 500-kallinn núverandi, 500 króna seðillinn, ég held að ég sé með einn hér í vasanum, verðmestur, við myntbreytinguna. Hann er kominn í þriðja flokk í dag. Hvað á þetta að halda lengi áfram, hæstv. ráðherra? Ég held að það sé tími til kominn að ræða þetta hreint út og stöðva þessa eyðslu sem og seðlaprentun.