Peningamagn í umferð
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Veröldin er því miður þannig gerð að það eru ekki til þessi beinu einföldu svör við spurningunum þremur sem hv. þm. bar hér fram sem hann þráir. Ég vil fyrst endurtaka, hafi hann ekki heyrt það sem ég sagði, að viðmiðunarspá Seðlabanka Íslands um aukningu peningamagns á árinu 1990 er 7--8% frá upphafi til loka árs og er þá miðað við þær forsendur sem lagðar voru við gerð síðustu kjarasamninga. Þetta er hins vegar ekki neitt óbrigðult stjórntæki. Þótt okkur tækist að binda okkur fasta við þann stjóra gefst ekki fyrir því neitt garantí að það muni tryggja það að verðbólgan hjaðni niður í það sem við höfum sett okkur. Það er hins vegar eitt af mörgu sem huga þarf að þegar þetta mál er metið.
    Í öðru lagi vil ég andmæla því, virðulegi forseti, að ég hafi ekki svarað hv. þm. Það gerði ég í reyndar öllu lengra máli en mér er hér ætlaður tími til. Ég lýsti þeim stjórntækjum sem beita þyrfti til þess að ná þessu markmiði í fljótu bragði og að lokum vil ég ítreka það sem ég sagði að ég tel það óæskilegt að yfirdráttur ríkissjóðs gagnvart Seðlabanka fari úr hömlu og lýsti því reyndar að verið væri að breyta tilhögun á fjármögnun ríkissjóðs þannig að hann taki meira af sínu lánsfé beint á hinum almenna markaði. Ég tel það mjög mikilvægt því ég tel að eitt helsta markmið stefnunnar í peningamálum sé skipuleg fjármögnun halla ríkissjóðs án verðbólgu- eða þensluáhrifa í hagkerfinu yfirleitt.
    Að síðustu, virðulegi forseti, aðeins eitt. Þingmaðurinn hélt því fram að hvarvetna í aðildarríkjum OECD settu menn föst og óbifanleg mörk fyrir vöxt peningamagns í umferð og litu á það sem eitt mikilvægasta stjórntæki peningamála. Þetta er ekki rétt. Mér er ekki kunnugt um eitt einasta land sem beitir alfarið þeirri aðferð. Það ríður enginn einhesta til þings með þeim hætti eins og þingmaðurinn lýsti, alls ekki. Eitt land, Bretland, hélt sig
lengi nokkuð fast við þetta, en fyrir ári eða tveimur hurfu þáverandi fjármálaráðherra og Seðlabanki Englands frá þeirri aðferð og huga miklu fremur að því sem hér er nú oft rætt sem ankeri fyrir verðlagsstefnuna, nefnilega að freista þess að halda gengi pundsins sem stöðugustu.