Fyrirspurnir og svör við þeim
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Þeim mönnum og konum er mikið traust sýnt sem nefnd eru, oft af löggjafarvaldinu, til að taka sæti í stjórnum peningastofnana. Það er eins og kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. Það verður líka að ætlast til þess að þegar löggjafarvaldið, þingmenn, beinir spurningum til framkvæmdarvaldsins sem svara á innan skamms tíma, ýmist í næsta fyrirspurnatíma eða innan sex virkra daga, eftir því hvort um er að ræða munnlega eða skriflega fyrirspurn, að fyrirspurnin fjalli um eitthvert það mál sem fyrir liggja um upplýsingar í ráðuneytum eða undirstofnunum þeirra eða ráðuneytin geti aflað á þeim fresti sem þeim er settur eða upplýsingarnar séu þess eðlis að eðlilegt sé að afla þeirra. Sumt af því sem um var spurt í fyrirspurn hv. þm., um viðskipti einstakra manna, störf þeirra og afstöðu til starfa, er ekki þess eðlis að eðlilegt sé að tíunda það nákvæmlega og hitt er líka rétt að ýmislegt af því sem um var spurt er ekkert varanlegt. Viðskiptin breytast frá einum tíma til annars og ég tel það alls ekki skynsamlega stefnu að ráðuneyti afli slíkra smáatriða eða upplýsinga um hvern þann mann sem þarna um greinir. Hitt er jafnfjarstæðukennt að falist hafi nokkurn tíma af hálfu viðskrn. einhver sérstök gagnrýni á Kristínu Sigurðardóttur sem var deildarstjóri hjá Kaupþingi og er nú bankaráðsmaður í Landsbanka Íslands. Þvert á móti hef ég sagt af þessum ræðustól að það sé Kvennalistanum til sóma, og sérstaklega Kristínu Sigurðardóttur, að hafa leyst þann vanda sem reis í því máli með þeim hætti sem raun ber vitni.
    Hitt er svo enn annað að á þá skrá sem hv. þm. var send og þinginu komu eingöngu þær upplýsingar sem fúslega voru gefnar af þeim sem til var leitað.
    Ég vil ítreka það að með því svari sem hér var gefið við fyrirspurn þingmannsins öðru sinni er alls ekki verið að svara út úr. Það er einmitt verið að svara um kjarna máls. Ég varpa þeirri spurningu hér fram í þessari
þingskapaumræðu hvort ekki þurfi að huga að því hvernig þingskapaheimildin til að bera fram fyrirspurnir á Alþingi er notuð því að mjög margar fyrirspurnir sem hér ber upp á eru frekar efni til skýrslubeiðni en fyrirspurnar þar sem eiga að vera stutt orðaskipti eða gefa skal svar innan sex daga.