Fyrirspurnir og svör við þeim
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég kem hér upp í umræðum um þingsköp til þess að taka undir það að ræða þarf svör ráðherra. Ég spurði hæstv. ráðherra spurninga fyrir nokkrum mínútum síðan varðandi hvaða fyrirmæli hann hefði gefið Seðlabankanum til þess að ná markmiðum nýgerðra kjarasamninga og svarið var það að hann hefði samráð á hverjum degi. (Gripið fram í.) Er hægt að segja að það séu skýr svör? Spurt var: Hvaða fyrirmæli voru gefin? Svarið var það að haft væri samráð á hverjum degi. Og hæstv. ráðherra er svo vinsamlegur rétt í þessu augnabliki að labba út úr salnum til þess væntanlega að lýsa fyrirlitningu sinni á þingræði.
    Skipstjóri var spurður að því hvaða fyrirmæli hann hefði gefið áhöfninni. Hann sagði: Við höfum samráð á hverjum degi. Það er ákaflega skýrt svar. Ég held að tími sé til kominn að þingheimur taki sér tak, hvernig á að meðhöndla ráðherra sem ganga lausir og eyða eins og þeim sýnist og svara svo og snúa út úr þegar þeir eru spurðir.