Fyrirspurnir og svör við þeim
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Í þessari þingskapaumræðu er verið að ræða grundvallaratriði, þ.e. meðferð á þeim fyrirspurnum sem hér eru leyfðar og hvernig þeim er svarað. Vegna orða hæstv. viðskrh. áðan vil ég benda á að oft hefur dregist lengur en sex daga að fá svör við skriflegum fyrirspurnum og þingmenn hafa sýnt þolinmæði og beðið. Sú sem hér stendur beið frá því um miðjan október þangað til núna eftir jólin eftir svörum við fyrirspurnum sem voru 14. og 15. mál þingsins og mér hefur einmitt nýlega borist bréf frá félmrn. vegna annarrar fyrirspurnar þar sem farið er fram á að ég sýni örlitla biðlund þar sem fyrirspurn sú sem ég bar fram er mjög viðamikil. Ég held að full þörf sé á að ræða þessi mál, þ.e. þær fyrirspurnir sem leyfðar eru og síðan þau svör sem berast við þeim. Í þessari umræðu sendur alla vega enn eftir ósvarað spurningunni um það hvort hæstv. forseti og hæstv. viðskrh. telji þau svör sem hér voru gefin fullnægjandi.