Fyrirspurnir og svör við þeim
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Ég held, virðulegi forseti, að ástæða sé fyrir okkur sem sitjum hér og störfum að íhuga nánar það sem á hefur verið bent hér um að setja nánari reglur um hvernig fyrirspurnir skuli vera. Í þingsköpum segir í 31. gr., með leyfi forseta: ,,Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.`` Það er alveg deginum ljósara að fjöldinn allur af fyrirspurnum sem hér eru bornar fram uppfyllir hreinlega ekki þessi skilyrði vegna þess að það er enginn vegur að svara þeim í stuttu máli. Ég held að menn þurfi hér á hinu háa Alþingi að taka sig á og koma fyrirspurnunum aftur í hið eiginlega form þar sem spurt er um ákveðið atriði sem hægt er að svara í stuttu máli og innan þess frests sem kveðið er á um í þingsköpum.
    Varðandi þá fyrirspurn sem hv. 18. þm. Reykv. hefur gert hér að umtalsefni er auðvitað engin leið að svara henni í stuttu máli. Þar að auki sýnist mér að sú fyrirspurn orki líka tvímælis í aðra veru vegna þess að mér sýnist að mörkin milli þess sem þar mætti kalla upplýsingaöflun eða fyrirspurn og þess sem sums staðar væri kallað persónunjósnir eða óæskileg hnýsni um hagi einstaklinga séu þarna ákaflega óljós og kannski gangi þessi fyrirspurn of langt í þá veru og sé því ekki viðurkvæmileg.