Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Á ráðstefnu Ferðamálaráðs á Egilsstöðum 16. og 17. febr. sl. komu fram miklar áhyggjur aðila í ferðaþjónustu hér á landi vegna sívaxandi umsvifa erlendra ferðaskrifstofa í ferðaþjónustunni hér á landi. Fram kom að vitað er um a.m.k. fimm erlenda aðila sem ætla að hafa hér lengda Land Rover jeppa sem þeir munu nota til að aka ferðamönnum um hálendið.
    Áhyggjur manna voru tvíþættar. Annars vegar er auðvitað spurningin um það hvort við Íslendingar ætlum að láta þessa atvinnugrein okkur úr greipum ganga. Þetta er sú atvinnugrein sem við bindum einna helst vonir við sem góða tekjulind á komandi árum. Ég vil geta þess hér að áætlað er að á síðasta ári hafi gjaldeyristekjur okkar af ferðaþjónustunni verið 9--10 milljarðar. Það er ekki síður mikilvægt að ferðaþjónustan hefur haft töluverð áhrif á uppbyggingu atvinnulífs í sveitum landsins og ferðaþjónustan kallar á mörg ný störf þannig að hér er um verulega hagsmuni fyrir okkur að ræða. Hins vegar hafa menn auðvitað áhyggjur af því umhverfi sem við búum í, viðkvæmri náttúru Íslands og spurning er hvort erlendir aðilar sem hingað koma hafi þá þekkingu á viðkvæmri náttúru landsins sem nauðsynleg er til þess að farið sé um með gát og ekki sé spillt frekar en orðið er. Sérstaklega á ég þá við viðkvæmustu svæðin uppi á hálendi landsins.
    Í gær barst okkur þingmönnum bæklingur um akstur utan vega og merktra slóða sem gefinn er út af nokkrum samtökum. Hann er hér á íslensku og ég vil benda á að ég tel þetta mjög jákvætt framtak þeirra aðila sem að því standa, en það eru Náttúruverndarráð, Vegagerð ríkisins, Landssamband ísl. vélsleðamanna, lögreglustjórinn í Reykjavík, Ferðaklúbburinn fjórum sinnum fjórir og Slysavarnafélag Íslands.
    Ástæða þess að ég ber fram þessa fsp. til hæstv. samgrh. eru þær áhyggjur sem fram komu á ferðamálaráðstefnunni. Vegna þess að ég fór að minnast á þennan bækling, um akstur utan vega, þá vil ég aðeins geta þess um leið að þó svo að ekki séu erlendir aðilar í skipulögðum hópferðum uppi á hálendinu hefur umferð útlendinga aukist á einkabifreiðum á undanförnum árum. Ég tel því alveg nauðsynlegt að þessi bæklingur komi líka út á öðrum tungumálum en íslensku. Ég veit að þessi bæklingur er ekki á vegum samgrn., en ég vil geta hans hér við umræður um þessa fsp.
    Ég spyr hæstv. samgrh. hvernig hann hyggist bregðast við þeim tíðindum sem borist hafa um áform erlendra aðila í ferðaþjónustu um að bjóða upp á jeppaferðir fyrir erlenda ferðamenn um hálendi Íslands næsta sumar.