Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er spurt hvað samgrh. hyggist gera til að bregðast við tíðindum um áform erlendra aðila í ferðaþjónustu um að bjóða upp á jeppaferðir fyrir erlenda ferðamenn um hálendi Íslands næsta sumar. Og svarið er það að sem stendur er vitað um það með vissu að fjórir aðilar hafa uppi áform um að staðsetja hér á landi lengda Land Rover jeppa sem þeir munu ætla að nota til að aka ferðamönnum um hálendið í sumar. Þessir aðilar eru frá Bretlandi, Þýskalandi, Austurríki og Hollandi.
    Í reglugerð um eftirlit með skipulögðum hópferðum erlendra aðila til Íslands í atvinnuskyni, reglugerð nr. 175/1983, er skýrt kveðið á um að ökutæki verði að fylgja hópum, bæði inn í landið og eins út úr því. En það segir í 4. gr. þessarar nefndu reglugerðar, með leyfi forseta: ,,Hafi erlendur ferðamannahópur ökutæki meðferðis við komuna til landsins til eigin nota skal það fylgja hópnum við brottför úr landi``, þ.e. ökutækið. Af þessu má ljóst vera að ekki er heimilt að koma með ökutæki hingað og hafa það staðsett hér allt sumarið og taka sífellt við nýjum hópum sem síðan hefðu ökutækið til afnota.
    Ferðamálaráð hefur þegar gert þessum fjórum aðilum sem vitað er um viðvart og gert þeim ljóst að það sem heyrst hefur um áætlanir þeirra brjóti í bága við þessar gildandi reglur. Þeim hefur líka verið gert það ljóst að gildandi reglum verði framfylgt þannig að samgrn. muni grípa til ráðstafana verði þær brotnar.
    Ég mun einnig sjá til þess að Ferðamálaráð fylgist mjög grannt með þessu máli og þessum aðilum sem þarna eru grunaðir um að hafa uppi áform um ólögmæta starfsemi og það verði gert í samráði við hlutaðeigandi yfirvöld á Keflavíkurflugvelli og á Seyðisfirði. Komi það í ljós að einhverjir ætli samt sem áður að gera hér út með þessum hætti, staðsetja hér bíla og skipta um hópa, verður það stöðvað og með þeim ráðstöfunum sem til þarf, með því að fá lögregluyfirvöld til að skerast í leikinn ef ekki vill betur til.
    Ferðamálaráð mun einnig á fundi sínum 30. mars nk. taka fyrir fleiri mál sem þessu tengjast, svo sem reglur um magn matvæla sem hópum er heimilt að taka inn í landið og sömuleiðis verður þar væntanlega fjallað einnig um hlutverk og starfsréttindi erlendra leiðsögumanna.
    Því má svo bæta við að auðvitað gæti sá möguleiki orðið fyrir hendi að þessir aðilar reyndu að skrá bifreiðar sínar hér á landi. Útlendingar mega skrá hér bíla samkvæmt upplýsingum dómsmrn. en þá er enn fremur hægt að setja undir þann leka með því að séu bílar ætlaðir til flutnings á fleiri farþegum en átta, og það mundi eiga við í þessu tilviki, eftir því sem við best vitum, þar sem í hlut ættu lengdir Land Rover jeppar, skal skrá slíkt ökutæki sem atvinnutæki. Ökumenn þurfa þá meira próf og erlend meiri próf gilda ekki sjálfkrafa hér á landi.
    Þá má einnig hafa það í huga að ef ökutækið er

notað í atvinnuskyni þarf það hópferðaleyfi, sbr. reglugerð nr. 90/1990, þannig að ég held að það ætti með tiltækum og þegar gildandi reglum að vera unnt að koma í veg fyrir þessa útgerð. Það eina sem gæti gert það erfitt væri ef erlendi aðilinn fengi formlega til samstarfs við sig einhvern innlendan aðila, ég vil leyfa mér að segja, forseti, og með leyfi þínu ,,lepp``. Þá gæti orðið erfitt að beita þessum tiltæku ráðstöfunum sem ég hef hér gert grein fyrir, en við munum þá fara ofan í saumana á því ef til kæmi.
    Ég vona að þessi svör fullnægi hv. fyrirspyrjanda og ég leyfi mér að fullvissa hann um að það verður allt gert sem í okkar valdi stendur til þess að afstýra því að um útgerð af þessu tagi, sem brýtur í bága við lög og reglur og er auðvitað ekki þjónanleg okkar hagsmunum, verði að ræða.