Atvinnumál fatlaðra
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hennar. Það er greinilegt á þeim svörum sem hún las hér upp fyrir þingheim að töluverður hópur fatlaðs fólks er skráður atvinnulaus. Hins vegar má auðvitað reikna með því að um töluvert dulið atvinnuleysi sé að ræða jafnframt. Tölurnar segja því auðvitað ekki alltaf allt, en þetta eru hinar opinberu tölur sem eru skráðar.
    Það kom fram í máli ráðherra að verið er að vinna að þessu. Það hefur auðvitað verið svo í gegnum árin að stöðugt er verið að vinna að slíkum málum. En það er með þessi mál eins og svo mörg önnur að fólki finnst miða allt of hægt. Hér er í gangi könnun sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og er vonandi að svör við henni berist fljótt og gefi vísbendingar um hvernig megi byggja upp vinnumiðlun og annað því um líkt og menntun fyrir fatlaða og hvaða þarfir eru í fyrirtækjunum og hvaða störf fötluðu fólki standa til boða.
    En það er e.t.v. ýmislegt fleira sem hægt væri að gera. Hæstv. félmrh. minntist á Starfsþjálfunarskóla ríkisins, einnig atvinnuleit og vinnumiðlun. Ég held að það sé mjög mikilvægtur þáttur í atvinnumálum fatlaðra að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og reyni að ráða sem mest af fötluðu fólki í þau störf sem því hæfa og sem það getur tekið að sér. Hæstv. félmrh. hefur haft forgöngu um það innan ríkisstjórnarinnar að leggja til að ráðuneyti og stofnanir geri jafnréttisáætlanir um hvernig ná megi jafnrétti karla og kvenna innan stofnana ríkisins. Auðvitað mætti spyrja líka hvort ekki væri þörf á því að stjórnvöld gerðu einhverjar slíkar áætlanir vegna fatlaðra, sett yrði upp markviss áætlun um það hvernig skyldi á málum tekið.
    Mig langar aðeins til að minna á að auðvitað er líka nauðsynlegt að það sé innibyggð einhvers konar hvatning bæði fyrir vinnuveitendur og hina fötluðu
til að fara út á vinnumarkaðinn. Vil ég þá sérstaklega minnast á, ef ég fæ með leyfi forseta að syndga hér upp á náðina í hálfa mínútu, bætur sem falla niður þegar fatlaðir hefja störf. Margir eru ragir við að fara út á vinnumarkaðinn, í fyrsta skipti jafnvel, eða eftir áfall sem þeir hafa orðið fyrir. Það er auðvitað spurning hvort ekki mætti hugsa sér að fatlaðir héldu þessum bótum um eitthvert skeið, t.d. sex mánuði eða eitt ár meðan þeir eru að komast að því hvort þeir í raun geta sinnt því starfi sem þeir hafa tekið að sér. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér sem eina hugmynd, en það er nauðsynlegt að það verði innibyggð einhvers konar hvatning fyrir vinnuveitendur og þeir verði upplýstir þannig að þeir verði fúsir til að nýta sér þann ágæta vinnukraft sem fatlaðir eru auðvitað eins og aðrir.