Jafnréttisáætlanir
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Baráttan fyrir jafnréttinu, þ.e. milli karla og kvenna, er orðin gömul og hefur birst í mörgum myndum í gegnum tíðina. Hin seinni ár hefur umræðan einkum snúist um launamálin þar sem hver könnunin og skýrslan af annarri hefur sýnt að staða kvenna er langtum lakari en karla. Þrátt fyrir lagasetningu um jafnrétti kvenna og karla, en þau lög leggja þá ábyrgð á stjórnvöld að vinna að jafnrétti karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins, stöndum við enn í dag frammi fyrir heldur dapurlegum staðreyndum um árangurinn. Með því að hæstv. félmrh. hafði forgöngu um það innan ríkisstjórnarinnar að samþykkt var að beina tilmælum til ríkisstofnana um að gera jafnréttisáætlanir er viðurkennt að enn sé nauðsynlegt að grípa til sérstakra tímabundinna aðgerða til þess að ná raunverulegu jafnrétti kvenna og karla og enn ein tilraunin er gerð. Hér liggur fyrir hefti sem gefið er út af félmrn. og Jafnréttisráði um þessar jafnréttisáætlanir sem hafa borist félmrn. Það er auðvitað spurning, og spurning mín til hæstv. félmrh., hvernig þeim áætlunum verði fylgt eftir.
    Með aukinni atvinnuþátttöku og menntun á öllum mögulegum sviðum hafa konur komið til starfa á vettvangi þar sem þær hafa ekki verið hingað til. Vinnumarkaðurinn hefur haft þörf fyrir vinnu þeirra en það er eins og mönnum hafi ekki hugkvæmst að um leið þyrfti að koma til móts við þarfir kvenna varðandi ýmis félagsleg atriði, t.d. þá sjálfsögðu staðreynd að til sé öruggt athvarf fyrir börnin. Það þarf ekki að minna á þá staðreynd að auðvitað ber að launa konum fyrir þá vinnu sem þær leggja fram og þá ábyrgð sem þær taka á sig jafnramt því sem þær að mestu leyti bera enn ábyrgðina á heimilisstörfum og uppeldi barna.
    Þó kannanir sýni að vinnutími kvenna á vinnumarkaðinum sé styttri en karla segir það ekki nema örlítið brot af sögunni því jafnframt vinnu sinni sjá þær um börn og heimili og stunda margar hverjar nám af einhverju tagi með það fyrir augum að bæta stöðu sína. Allt þetta erfiði skilar konum harla litlu og virðist skilningur stjórnvalda á mikilvægu vinnuframlagi kvenna næsta lítill. Það kom t.d. í ljós í könnun BHM á kjörum háskólamenntaðra kvenna á vinnumarkaðinum að launamunur þeirra og háskólamenntaðra karla er meiri hjá hinu opinbera en úti á almennum vinnumarkaði. Það er því mikilvægt í þessu máli, eins og því hinu fyrra sem ég ræddi um áðan, þ.e. um atvinnumál fatlaðra, að stjórnvöld gangi á undan og skapi fordæmi til þess að ná því markmiði að konur og karlar verði metin til jafns á vinnumarkaðinum og í samfélaginu öllu. Það er að sjálfsögðu lofsvert framtak að reyna að þoka málum áfram með því að hvetja stofnanir til að ræða jafnréttismál og gera áætlanir um hvernig skuli staðið að því að bæta stöðu kvenna.
    Fsp. mínar til hæstv. félmrh. varðandi þetta mál eru á þskj. 712 um það hversu margir hafi fengið tilmæli

og hve margar jafnréttisáætlanir hafi skilað sér og með hvaða hætti fyrirhugað sé að fylgja þeim eftir.