Jafnréttisáætlanir
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hennar. Það gladdi mig að áætlununum skyldi í raun hafa fjölgað því í skýrslunni sem félmrn. og Jafnréttisráð gáfu út voru þær aðeins 40, þannig að einhverjir hafa tekið við sér síðan. Það er auðvitað alvarlegt að stofnanir eins og t.d. skólar, þar sem fræðslan ætti að fara fram, skuli ekki standa sig betur en raun ber vitni. Það vakti einmitt athygli mína við lestur þessarar skýrslu að einungis tveir framhaldsskólar senda jafnréttisáætlun, Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Sund og síðan Tækniskóli Íslands sé ég hér og Samvinnuskólinn. Þeir eru reyndar á háskólastigi báðir tveir. En það væri full ástæða til að ýta við þessum málum, bæði í grunnskólunum og framhaldsskólunum vegna þess að það er e.t.v. ekki síst þar sem fólk fer að huga að því að velja sér nám með tilliti til starfs. Ef við eigum að ná því fram að stokka eitthvað upp vinnumarkaðinn þá hlýtur það starf að verða að byrja inni í skólunum.
    Það kom einnig fram í máli hæstv. félmrh. að um næstu áramót verður farið yfir þessar áætlanir og ákvörðun tekin í framhaldi af því. Það er auðvitað ekki annað að gera á þessari stundu en að vonast til að einhverju hafi þokað. Það sem hefur gerst eftir að þessi fsp. var lögð fram hér á Alþingi er að nú hefur komið fram frv. til nýrra jafnréttislaga. Það er nú reyndar svo komið að margar konur eru hættar að trúa á lögin vegna þess að þeim finnst málum þoka svo hægt. Auðvitað er alltaf erfitt að setja lög um hugarfar, sem þetta mál óneitanlega er.
    Ég vil nota tækifærið og fagna því að frv. er þó komið fram. Þar eru ýmis ákvæði sem ég tel vera mjög til bóta. Það er tekið fastar og ákveðnar á málum og ég vona svo sannarlega að það verði að lögum hér á þessu þingi.