Yfirstjórn öryggismála
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vestf. brigslaði mér um að hafa ekki lesið eða kynnt mér greinargerðina með þessari tillögu. Ég vil ekki sitja undir því. Ég talaði um að í þessari tillögu gætti mjög ríkrar tilhneigingar til aukinnar miðstýringar og það byggi ég á því sem hér er skrifað: ,,Gert er ráð fyrir að með yfirstjórn allra öryggis- og löggæslumála fari forstjóri eða öryggismálastjóri sem heyrir undir dómsmálaráherra.``
    Í öðru lagi vék ég að hlutverki björgunarsveita sjálfboðaliða, þ.e. Slysavarnafélagsins, flugbjörgunarsveitanna, hjálparsveita skáta og fleiri aðila sem hafa unnið ómetanlegt starf. Það er vissulega vikið að þessu hér í tillögunni en hér segir líka, með leyfi forseta: ,,En sá er munurinn að staða öryggismálastjóra á að vera miklu sterkari til að skipa niður sameiginlegum liðsafla til sérstakra verkefna sem upp kunna að koma og ráðstafa eftir þörfum tækjabúnaði sem á að vera til sameiginlegra nota.`` Það sem ég sagði byggðist líka á þessu sem hér er sagt.
    Ég ætla ekki að halda uppi löngum ræðum um þetta mál hér. Ég ítreka það sem ég sagði og það sem dómsmrh. tók raunar undir og sagði mjög sterklega að það kerfi sem við höfum hefur gefist okkur vel. Það er í fyrsta lagi ódýrt og það er, eins og hann orðaði það réttilega, ódýrt og skilvirkt og það er að þakka miklum fjölda sjálfboðaliða út um allt land og hér á höfuðborgarsvæðinu sem vinna störf fyrir ekki neitt sem aðrar þjóðir þurfa flestar að greiða dýrum dómum. Ég held þess vegna að við eigum að hugsa okkur vel um áður en við breytum kerfi sem hefur gefist vel. Það má kalla það íhaldsmennsku eins og hv. þm. Vesturl. gerði og ég held að það sé þá bara af hinu góða, ef menn hafa það sem vel hefur gefist, að breyta því ekki breytinganna vegna. Ég uni því ekkert illa að vera kallaður íhaldsmaður þegar um slíkt er að ræða. En þegar hv. 4. þm. Vestf. talar um að ganga á kartöflum verð ég að viðurkenna að ég hef ekki heyrt það orðtak áður og þar að auki finnst mér það ljótt og lítið íslenskulegt. Hins vegar finnst mér þegar stefnt er til aukinnar miðstýringar þar sem ekki er ástæða eða þörf á slíku að menn séu á hálum ís.