Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að ræða efni þessarar skýrslu og að hún skuli vera lögð hér fram. Ég tel að hún sé mjög lærdómsrík og hún gefur tilefni til að fjalla um vinnubrögð, vinnubrögð stjórnsýslunnar, Alþingis og framkvæmdarvaldsins.
    Ég vil fyrst nefna það, og snúa mér að Alþingi, að þessari skýrslu var útbýtt fyrri hluta vikunnar, mánudag eða þriðjudag. Hún er tekin hér til umræðu á fimmtudegi. Á sama tíma hefur verið útbýtt nokkrum mikilvægum og viðamiklum stjfrv. sem krefjast yfirlesturs og athygli ef á að fjalla um þau af einhverju viti. Sama gerir þessi skýrsla upp á 150 blaðsíður rúmar. Það er mjög erfitt að finna til þess tíma að komast yfir að lesa allt þetta mikilvæga efni á svo stuttum tíma. Það út af fyrir sig lýsir vondu skipulagi, og nú er ég ekki að gagnrýna hæstv. forseta eða störf hennar, heldur fyrst og fremst það skipulag sem við þurfum oft að sætta okkur við þegar dynja yfir okkur mörg, mikilvæg, flókin og stór mál á sama tíma og okkur er ætlað að vinna þau öll í einni bendu á stuttum tíma. Þetta er auðvitað allt of lítill tími til undirbúnings. Þetta er jafnframt vanvirða við það verk sem unnið hefur verið í þessari skýrslu og í þeim frumvörpum sem fyrir þingið eru lögð, við lögin sem Alþingi setti um störf umboðsmanns og það fólk sem til hans leitar því að þarna er skýrsla um erindi þess og til þess voru lögin sett að reyna að leysa úr vanda hins almenna borgara þegar hann fær ekki úrlausn sem hann getur unað við í viðskiptum sínum við kerfið.
    Í öðru lagi að því er varðar vinnubrögð Alþingis er í 3. lið yfirlitsins fjallað um nokkuð alvarlegan ljóð á ráði Alþingis sem hefur reyndar oft komið til umræðu. Það er sú venja löggjafarsamkundunnar að setja lög, jafnvel lög með mörkuðum tekjustofnum til að tryggja starfsgrundvöll stofnana eða einhverrar starfsemi, en skammta síðan á fjárlögum svo naumt til stofnananna
eða starfsemi þeirra að viðkomandi geta alls ekki uppfyllt lagalegar skyldur sínar eða sinnt því hlutverki sem lögin kveða á um. Um þetta eru mýmörg dæmi en e.t.v. eru lánsfjárlögin sígildasta dæmið í þessum efnum. Þó má nefna nýleg dæmi eins og nefskatt í tengslum við lög um málefni aldraðra sem þegar í stað var svikinn strax á næsta ári. Mig langar að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í ágætt dæmi sem kom fram í umræðum um fyrirspurn þann 16. febr. 1989. Þá spurðu tvær þingkonur, Sigrún Helgadóttir sem þá var varaþingkona Kvennalistans og Danfríður Skarphéðinsdóttir menntmrh. eftirfarandi:
    ,,Hvernig er að Náttúruverndarráði búið, t.d. hvað snertir starfsfólk og fjárveitingar, til þess að það geti haft eftirlit með mannvirkjagerð og jarðraski eins og ráðinu er ætlað skv. 29. gr. laga um náttúruvernd, nr. 47/1971?`` Og í sama tölul.: ,,Hversu oft og í hvaða tilvikum hafa framkvæmdir verið stöðvaðar á grundvelli þessarar lagagreinar?``
    Menntmrh. svarar fyrirspurninni og í svari hans

kemur fram eftirfarandi:
    ,,Fjárlög ársins 1989 gera ráð fyrir að launaliður skrifstofunnar verði 4,7 millj. kr. og til annarra útgjalda hennar verði varið 4,8 millj. kr. Fjárhagsstaða skrifstofunnar er því mjög slæm miðað við fjárlög eins og þau liggja nú fyrir og það hlutverk sem Náttúruverndarráði er ætlað að sinna samkvæmt lögum`` en það hlutverk kemur fram hjá fyrirspyrjanda sem vitnar til þess eftirfarandi:
    ,,Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og náttúru þannig að ekki spillist að óþörfu líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft. Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstakt eða sögulegt. Lögin eiga að auðvelda þjóðinni umgengni við náttúru landsins og auka kynni af henni.`` Hér er ekki lítið hlutverk.
    Það kemur síðan fram eftir að fyrirspurninni hefur verið svarað og fyrirspyrjandi gerir athugasemd í lokin, ef ég má aftur vitna:
    ,,Hvað varðar fyrri spurninguna hlýt ég að láta í ljós vonbrigði um að ekki sé betur búið að Náttúruverndarráði en raun ber vitni og kom mjög ljóslega fram í svari hæstv. ráðherra. Þekking okkar á umhverfinu er alltaf að aukast og vitneskjan um það hve varlega við verðum að fara í allri umgengni. Samfara því aukast stöðugt þær kröfur sem gerðar eru til eftirlitsaðila, bæði hvað varðar magn og gæði eftirlitsins ef svo má að orði komast.
    Þegar bylgja fiskeldisstöðva fór að flæða yfir landið fyrir nokkrum árum stórjók það þá vinnu sem Náttúruverndarráði var ætlað að leysa af hendi, en ráðið fékk ekki að sama skapi að fjölga starfsfólki eins og kom fram áðan. Þar eru enn aðeins tvær stöður eins og fram kom, staða framkvæmdastjóra og ritara, alveg eins og var ákveðið árið 1971`` --- ég vil undirstrika að fyrirspurnin er gerð 1989 --- ,,um það leyti sem orðið ,,umhverfismál`` --- eða var það ekki það orð --- kom fyrst fram.
    Nú er gerð sú krafa af forstöðumönnum opinberra stofnana að þeir megi ekki fara fram úr fjárveitingum fjárlaga og mikil orð höfð um það, bæði á fundum og í fjölmiðlum. Ekki sýnist ósanngjarnt að samfara því sé gerð sú krafa við
stjórnvöld að fjárveitingar til stofnana séu í samræmi við það hlutverk sem þeim er ætlað núna og í framtíðinni en ekki í samræmi við það sem þeim var ætlað fyrir 10 eða 20 árum.``
    Mér finnst þetta lýsa vandanum mjög vel og taka undir athugasemdir sem komu fram hjá umboðsmanni Alþingis, en þar segir í 3. lið:
    ,,Ég tel rétt að vekja athygli Alþingis á því, að í frv. til fjárlaga 1990 lagði fjmrh. til lækkun framlaga til embættis umboðsmanns frá því, sem ég hafði óskað eftir og forsetar Alþingis síðan samþykkt að leggja til. Um þetta segir m.a. í fjárlagafrv.: ,,Kostnaður vegna umboðsmanns hækkar allmikið en þó er ekki orðið að óskum embættisins um fjölgun starfsmanna og aukið framlag. Þess má og geta að mikill óbeinn kostnaður hlýst af starfi umboðsmanns Alþingis vegna mikillar

vinnu í ráðuneytum og stofnunum við að svara erindum og vinna upplýsingar sem hann óskar eftir.``
    Þó stendur í 7. gr. laga um umboðsmann Alþingis: ,,Umboðsmaður Alþingis getur krafið stjórnvöld um þær upplýsingar sem hann þarfnast vegna starfs síns. Þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öðrum gögnum sem mál varða.`` Og e.t.v. lýsir þessi afgreiðsla mála því að stjórnsýslan er of fámenn eða á of annríkt, að henni hefur ekki gefist tími til þess að halda nægilega ítarlega skrá yfir störf sín þannig að fyrirhafnarminna verði að sækja þangað upplýsingar en raun ber vitni. Og ég vil einnig vekja athygli á því að um leið og fjmrh. kvartar þarna yfir umfangi starfa umboðsmanns Alþingis að það var Alþingi sjálft sem átti frumkvæði að því að þetta embætti yrði sett á laggirnar og setti reglurnar um starfsemi þess og gerði þar með kröfurnar sem fylgja hlutverki umboðsmanns Alþingis. Þannig að Alþingi allt --- að vísu er núv. fjmrh. ekki þingmaður en vinnur þó hér jöfnum höndum með því að vera ráðherra --- ber að mínu viti ábyrgð á þessari lagasetningu og störfum umboðsmanns. Og það kemur einmitt athugasemd áfram frá umboðsmanni Alþingis í þessa veru þar sem hann vitnar í bréfið til fjmrh.:
    ,,Ofangreind athugasemd hlýtur að vera skýring á því, hvers vegna fjárveiting er lækkuð í fjárlagafrv. miðað við tillögur umboðsmanns Alþingis og forseta Alþingis. Sú skýring verður ekki skilin öðru vísi en svo, að nauðsynlegt sé að setja starfi umboðsmanns takmörk.``
    Nú er það hins vegar þannig að hlutverk umboðsmanns er markað í lögum nr. 13/1987 og reglum nr. 82/1988 sem Alþingi hefur sett. Þar er kveðið á um störf hans og starfshætti. Ég tel að hvorki umboðsmaður Alþingis né Alþingi geti unað við það að handhafar stjórnsýsluvalds taki fram fyrir hendur Alþingis. Þarna er í raun gagnrýni sem á rétt á sér. Og ég tek undir hana.
    Í 4. lið er fjallað um algengt umkvörtunarefni þeirra sem þurfa að eiga viðskipti við stjórnsýsluna en það er ótrúlegur seinagangur við afgreiðslu mála oft og tíðum og stundum berast jafnvel hreint engin svör. Og ef aðili eins og umboðsmaður Alþingis á í vandkvæðum með að krefja ráðuneytið svara, hvað má þá ætla með hinn almenna borgara sem hlýtur að standa mun hallari fæti en embætti umboðsmanns Alþingis gerir gagnvart stjórnsýslunni? Ég vil reyndar vekja athygli þeirra hv. þm. sem nú sitja hér í salnum á að það er kannski dæmi um þá lítilsvirðingu sem stjórnsýslan sýnir allt of oft hinum almenna borgara að hér situr enginn ráðherra til að hlusta á mjög ákveðna gagnrýni á hendur stjórnsýslunni. Hér er enginn handhafi framkvæmdarvaldsins til þess að taka þeirri gagnrýni. Það er lítilsvirðing gagnvart Alþingi og auðvitað líka lítilsvirðing gagnvart þeirri skýrslu sem hér er lögð fram og vinnu umboðsmanns Alþingis.
    Í 4. lið er talað um þennan seinagang og þar segir:
    ,,Sem fyrr hefur oft borið við að verulega hefur dregist að ráðuneyti sinntu tilmælum mínum um

upplýsingar og greinargerðir. Stundum eru slíkar tafir afsakanlegar, þar sem í hlut eiga starfsmenn, sem eru störfum hlaðnir og aukin fyrirhöfn bitnar því hart á. Á það ekki síst við, þegar margar kvartanir hafa borist á hendur sama stjórnvaldi og orðið tilefni óska af minni hálfu um upplýsingar og skýringar. Ég legg áherslu á, að fjöldi kvartana er í sjálfu sér ekki vísbending um að starfsháttum sé áfátt. Viðkvæm og vandmeðfarin mál verða óhjákvæmilega tilefni kvartana eins og raunin hefur orðið á.``
    Síðan kemur umboðsmaður Alþingis með dæmi um hvað svör við bréfum geta verið ótrúlega sein á ferðinni. Og ég vil vitna vegna þess að ég tel að þetta dæmi sé því miður allt of algengt: ,,Ég bað fjármálaráðuneytið að gera grein fyrir þessu máli`` --- og hann vitnar í ákveðið mál sem um er að ræða --- ,,í bréfi 23. júní 1988. Þessum tilmælum svaraði ráðuneytið í engu, fyrr en með bréfi ráðuneytisins frá 4. janúar 1989,,, --- það var langur tími --- ,,að frátöldum munnlegum skilaboðum frá fulltrúa í ráðuneytinu 23. desember 1988, en tilmæli mín hafði ég ítrekað í bréfum til ráðuneytisins 19. september og 4. nóvember 1988.`` Þetta er í raun og veru nokkuð sem margir hafa reynt á sjálfum sér. Ég veit dæmi þess að bréf barst í janúarlok frá utanrrn. til menntmrn. Þetta bréf var erlendis frá þar sem verið var að bjóða Íslendingum þátttöku í erlendu samstarfi, þeim að kostnaðarlitlu sem er vissulega áhugavert. Bréf frá
menntmrn. barst hins vegar ekki út á vettvang til umsagnar fyrr en nær tveim mánuðum síðar án þess að nokkur skýring væri gefin á þessari töf. Ég held að þetta sé atriði sem handhafar framkvæmdarvalds, ráðherrar, hefðu átt að vera hér til þess að hlusta á, taka til sín og bæta úr.
    Síðar víkur umboðsmaður Alþingis að nauðsyn þess að setja stjórnsýslulög vegna fenginnar reynslu sinnar af starfi í tvö ár. Hann segist hafa sannfærst um að ofangreind sjónarmið í greinargerð með frv. sem hann hafði áður vitnað til, frv. til stjórnsýslulaga, eigi við veigamikil rök að styðjast án þess þó að hann hafi tekið til þess afstöðu í einstökum atriðum hvernig slík lög eigi að vera úr garði gerð. Helstu röksemdirnar fyrir því að umboðsmaður Alþingis telur þörf á því að leggja fram frv. til stjórnsýslulaga eru þau að ekki sé til að dreifa í skráðum lögum almennum reglum um rétt manna til að kynna sér gögn í vörslu stjórnvalda. Hann segir:
    ,,Þar verður að gera greinarmun á skyldu stjórnvalds til að veita almennar upplýsingar, skyldu stjórnvalds til að veita aðilum, sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta, aðgang að upplýsingum, skyldu stjórnvalds til að kynna einstaklingi upplýsingar, sem hjá því eru skráðar um einkahagi hans, og skyldu til að veita öðrum stjórnvöldum upplýsingar. Slíkar reglur tengjast lagareglum um þagnarskyldu þeirra manna, sem fást við stjórnsýslu, en lagaákvæði um það eru fjölmörg á víð og dreif í settum lögum. Reynsla mín í starfi umboðsmanns hefur leitt í ljós, að á þessum vettvangi rísa

ágreiningsmál, sem oft vefst fyrir stjórnvöldum að greiða úr.``
    Nú liggur fyrir Nd. þingsins frv. til laga um breytingar á læknalögum þar sem lagt er til að almenningur fái aðgang að sjúkraskrám og það jafnvel aftur í tímann. Það tengist þessu fyrsta atriði.
    Síðan kemur annað atriðið og það vitnar beint til þeirrar umræðu sem hér fór fram í morgun um hæfi þeirra sem gegna stjórnsýslustörfum, sem taka að sér fyrir hönd Alþingis eða framkvæmdarvaldsins setu í stjórnum, ráðum eða nefndum. Og eins og kom fram í þeirri umræðu hér í morgun gilda ekki neinar almennar reglur eða nógu skýrar reglur um hæfi. Það kom glögglega í ljós, eins og kom fram í máli hv. 18. þm. Reykv. hér í morgun, þegar Kvennalistinn skipaði fulltrúa sinn til setu í bankaráði. Og hér stendur einmitt í skýrslu umboðsmanns í 2. lið sem röksemdafærsla fyrir nauðsyn þess að setja stjórnsýslulög: ,,Ekki eru í skráðum lögum almennar reglur um hæfi þeirra, sem hafa á hendi stjórnsýslu, til að fjalla um einstök mál sem þeir fá til úrlausnar.`` Og ég bið menn að huga að því eftir umræðuna í morgun og ég verð að segja að það vakti mikla furðu mína að enginn þingmaður skyldi sjá ástæðu til þess að taka til máls þegar jafnmikilvægt mál var til umfjöllunar eins og var hér í morgun.
    Þriðja röksemdin greinir svo frá eftirfarandi: ,,Á ýmsum sviðum stjórnsýslu er ekki svo skýrt sem skyldi, hvaða rétt menn eiga til að skjóta máli sínu til æðra stjórnvalds. Ég tel sérstaka ástæðu til að vekja athygli á því, að slíkur vafi hefur risið í framkvæmd sveitarstjórnarlaga, að því er ákvarðanir sveitarstjórna varðar.`` Þó að framangreind talning sé ekki á neinn hátt tæmandi eru þessi þrenn rök mjög sterk að mínu viti, enda greindi framsögumaður fyrir þessari skýrslu frá því áðan hvernig það mál væri statt nú og vonandi verður sú nefnd sem um það mál fjallar fljótlega til þess að leggja fram frv. að nýjum stjórnsýslulögum.
    Í skýrslunni eru fjölmörg dæmi um þann vanda sem einstaklingarnir geta ratað í þegar þeir eiga viðskipti sín við kerfið og eru þau að mörgu leyti lærdómsrík. Mér hefur ekki unnist tími til að fara yfir þau öll en ég hef hugað að nokkrum þeirra og vildi að lokum taka dæmi, sem ég held að sé gott dæmi, um það hvern árangur störf umboðsmanns Alþingis geta borið. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að ég geti fengið að víkja úr ræðustól til að sækja mér málsgagn í sæti mitt. ( Forseti: Þingmanninum er leyft það.)
    Ég hef setið, hæstv. forseti, í tryggingaráði undanfarin tvö ár og þar hafa erindi frá umboðsmanni Alþingis komið inn á borð til umfjöllunar vegna kvartana frá viðskiptavinum tryggingaráðs eða Tryggingastofnunar réttara sagt. Og í bréfum frá umboðsmanni Alþingis voru athugasemdir varðandi málsmeðferð kvartana sem berast vegna afgreiðslu Tryggingastofnunar. Það voru athugasemdir um að slík málsmeðferð þyrfti að vera skýrari. Tryggingaráð hafði fjallað um slíkt áður og hafði í huga að gera úrbætur í þeim efnum en vegna athugasemda frá umboðsmanni

Alþingis var strax hafist handa og útbúið sérstakt eyðublað þar sem hinn almenni borgari sem hefur kvartanir fram að færa við Tryggingastofnun getur komið þeim skilmerkilega á framfæri við tryggingaráð og fær við þeim rökstudd svör og ég vil sýna hv. þm. plaggið. Þetta má segja að sé betrumbót á stjórnsýslunni sem fylgir í kjölfar athugasemda umboðsmanns Alþingis og er jafnframt réttarbót og styrkur fyrir hinn almenna borgara, öruggari farvegur til að bera fram kvartanir og fá tillit til þeirra tekið.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Það væri tilefni til að ræða margt annað í þessari skýrslu. Ég vildi bara koma þessum athugasemdum á framfæri. Mér finnst þetta lærdómsríkt plagg. Ég vil bera fram kvörtun við hæstv.
forseta að engir ráðherrar skuli sjá ástæðu til að sitja fund þegar þessi skýrsla er rædd og ég vona að þingmenn hafi betra tóm síðar til þess að kynna sér skýrsluna betur, draga af henni lærdóm og e.t.v. nýta einhver mál hennar til þess að flytja þingmál sem mættu auka rétt hins almenna borgara.