Almenn hegningarlög
Föstudaginn 23. mars 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19 frá 12. febr. 1940 sem flutt er hér á þskj. 745.
    Frv. það sem hér er til umræðu er endurskoðun á XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en sá kafli laganna fjallar um kynferðisbrot. Frv. sama efnis var flutt á síðasta Alþingi en varð ekki útrætt. Frv. er endurflutt óbreytt.
    Aðdragandi frv. er sá að þegar nauðgunarmálanefnd skilaði skýrslu sinni í nóvember 1988 var meðal tillagna nefndarinnar frv. til laga um breyting á 194.---199. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af þeim breytingum sem fram komu í frv. nauðgunarmálanefndar og því að á Alþingi vorið 1988 var frv. um breytingu á 202. og 203. gr. almennra hegningarlaga vísað til ríkisstjórnarinnar ákvað þáv. dómsmrh. að láta endurskoða aðrar greinar XXII. kafla hegningarlaga áður en frv. nefndarinnar væri lagt fyrir Alþingi.
    Fyrstu sjö greinar frv., um breytingu á heiti XXII. kafla laganna og um endurskoðun á 194.---199. gr. hegningarlaganna, eru í frv. þessu óbreyttar frá því sem nauðgunarmálanefnd lagði samhljóða til. Þær breytingar sem frv. felur í sér eru í fyrsta lagi að öll ákvæði kaflans eru nú gerð ókynbundin. En í gildandi lögum eru margar greinar þannig að einungis konur njóta refsiverndar og karlar einir geta verið gerendur. Tilgangur þessara breytinga er sá að auka réttarvernd almennt gagnvart kynferðisbrotum og eru tillögurnar
í samræmi við réttarþróun sem átt hefur sér stað á þessu sviði í öðrum löndum. Þótt þessi brot bitni nær eingöngu á konum er ekki ástæða til að ætla að víðtækari refsivernd raski á okkurn hátt réttarstöðu kvenna. Ákvæði frv. eiga því jafnt við um athafnir karla og kvenna og taka til kynferðismaka og annarra kynferðisathafna samkynja persóna eftir því sem við á.
    Í öðru lagi felst í frv. aukin réttarvernd þar sem á því er byggt að samræði verði skýrt rýmra en samkvæmt gildandi lögum, svo sem rakið er í greinargerð með frv. og að í frv. er lagt til að lögfest verði að ,,önnur kynferðismök`` verði lögð að jöfnu við samræði. Með ,,öðrum kynferðismökum`` er átt við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju er kemur í stað hefðbundins samræðis eða hefur gildi sem slíkt. Átt er við athafnir sem veita eða eru almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu.
    Þá eru í frv. ný ákvæði um kynferðislega áreitni sem ekki telst slík misnotkun á líkama að hún komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt. Hér er fyrst og fremst átt við káf ýmiss konar, þukl og annars konar líkamlega snertingu, ljósmyndun af kynferðislegum toga o.s.frv. Í gildandi hegningarlögum eru ekki bein ákvæði um þetta en verknaðir sem falla undir framangreindar verknaðarlýsingar hafa verið heimfærðir undir 209. gr. hegningarlaga sem fjallar um að særa blygðunarsemi.

    Í þriðja lagi eru ákvæði um sifjaspell flutt úr XXI. kafla laganna í þennan kafla, þar sem þau þykja eiga betur heima, enda oft nátengd öðrum kynferðisbrotum.
    Ég mun nú víkja að einstökum greinum frv.
    Í 1. gr. er lagt til að heiti XXII. kafla laganna verði breytt þannig að tekið verði upp heitið Kynferðisbrot í staðinn fyrir Skírlífisbrot. Rétt þykir að miða heiti kaflans frekar við einkenni háttseminnar en hin siðrænu viðhorf til brots og brotaþola.
    Í 2. gr. frv. eru lagðar til verulegar breytingar á 194. gr. hegningarlaga, þ.e. þeirri grein sem fjallar um nauðgun. Í fyrsta lagi er lýsing verknaðaraðferða rýmkuð verulega, með rýmri túlkun á samræði og með því að leggja ,,önnur kynferðismök`` að jöfnu við samræði svo sem áður er rakið. Auk þess tekur þetta nýja ákvæði frv. um nauðgun nú, auk beinnar valdbeitingar, til allra refsiverðra ofbeldishótana sem í gildandi lögum eru refsiverðar skv. 196. gr. laganna. Þá felst einnig rýmkun í því að ekki er lengur áskilið að hótun veki ótta um líf, heilbrigði eða velferð.
    Í öðru lagi er í þessari grein lögð til sú grundvallarbreyting að ákvæðið verði tvískipt, þ.e. í 1. málsgr. almennt ákvæði og refsihækkunarákvæði í 2. málsgr. með sjálfstæðum refsimörkum. Núgildandi ákvæði er með refsilágmarki sem lagt er til að fellt verði brott. Með þessu er ekki verið að draga úr því að um alvarleg brot sé að ræða heldur er talið að refsiverndin verði virkari með þessum hætti. Skal það rökstutt nánar.
    Þegar ákveðið refsilágmark er í lögum svo sem í núgildandi 194. gr. er ákveðin hætta til staðar á því að brot verði ekki kært vegna refsilágmarks. Hætta er á að ákært sé fyrir brot gegn öðrum greinum laganna sem hafa vægari refsimörk eða jafnvel að dómstólar heimfæri brot undir aðrar greinar þar sem refsimörk eru vægari. Í Danmörku var refsilágmark fellt brott fyrir 15--20 árum af framangreindum ástæðum. En áður var gerð viðamikil rannsókn á dómum um kynferðisbrot og voru niðurstöður hennar að framangreind atriði ættu við rök að styðjast. Þá hefur það verið almenn löggjafarstefna hér og í nágrannalöndum
að fella brott refsilágmark nema við alvarlegustu brotum. Má í því sambandi m.a. benda á 110. gr. og 142. gr. almennra hegningarlaga. Í því að fella niður refsilágmark felst ekki að lagt sé til að dómstólar taki upp vægara refsimat en nú er gert.
    Varðandi 3.--7. gr. vísa ég til þess sem fram kemur í greinargerð með frv.
    Í 8. gr. frv. er fjallað um sifjaspell. Meginefni núgildandi 190. gr. er flutt í þessa grein og auk þess er tekið upp í greinina nýtt ákvæði um kynferðislega áreitni en áður hefur verið fjallað um það hugtak. Þá eru í greininni, eins og í 2. og 3. gr. frv., ,,önnur kynferðismök`` lögð að jöfnu við samræði.
    Í núgildandi ákvæði er sifjaspell refsivert bæði fyrir foreldri og barn sé barnið komið á sakhæfisaldur. En í þessu ákvæði frv. er refsiábyrgð barna og annarra niðja felld brott. Rök þess eru m.a. að alla jafna eru það börn og ungmenni sem sæta misnotkun af hálfu

hinna eldri er skáka í skjóli aldurs og reynslu. Ákvæðið á jafnt við um brot gagnvart skilgetnum og óskilgetnum börnum. Ef ofbeldi eða hótun um það er beitt er einnig refsað fyrir brot gegn 194. gr., sbr. 2. gr. frv., og ef barn er yngra en 14 ára er jafnframt refsað fyrir brot gegn 202. gr., sbr. 10. gr. frv. Refsimörk eru nokkuð þyngd frá núgildandi lögum.
    Í 3. málsgr. eru ákvæði varðandi systkini. Er þeim breytt frá núgildandi ákvæði á þann veg að refsimörk eru hert en jafnframt heimilað að fella niður refsingu þess eða þeirra sem ekki hafa náð 18 ára aldri í stað 16 í núgildandi lögum.
    9. gr. frv. svarar til 201. gr. núgildandi laga með þeirri breytingu, eins og í ýmsum öðrum greinum frv., að bætt er við ákvæðum um ,,önnur kynferðismök`` og kynferðislega áreitni. Þá er í upptalningu barna bætt við stjúpbarni og sambúðarbarni.
    Þær meginathugasemdir sem allshn. þessarar deildar bárust við frv. þetta á síðasta þingi vörðuðu 8. og 9. gr. frv. Þessar athugasemdir og brtt. voru ekki samhljóða en meginefni þeirra var að afnuminn skyldi mismunur á sifjaspelli og samræði og ,,öðrum kynferðismökum`` við börn og ungmenni sem eru í uppeldis- eða tilfinningatengslum við brotamann auk þess sem ákvæði í 1. málsgr. 9. gr. frv. skyldu útvíkkuð enn frekar. Í öðru lagi að refsihámark þessara greina skyldi hækkað og í a.m.k. einni athugasemd var lagt til að afnumin skyldu refsiákvæði um samræði eða önnur kynferðismök milli systkina.
    Af þessu tilefni er rétt að vekja athygli á að brotalýsing þessara greina er ekki að öllu leyti eins. Skv. 1. málsgr. 8. gr. frv. eru samræði og ,,önnur kynferðismök`` við barn sitt eða annan niðja ávallt refsiverð án tillits til aldurs barns eða niðja viðkomandi. En skv. 1. málsgr. 9. gr. eru samræði og ,,önnur kynferðismök`` þartilgreindra aðila ekki refsiverð eftir 18 ára aldur kjörbarns, stjúpbarns o.s.frv. Að hækka refsihámark þessara greina þannig að þau verði slitin úr samhengi við refsihámark annarra greina hegningarlaganna er ekki líkleg aðgerð til að bæta refsivernd eða til að þyngja refsingar fyrir þessi brot almennt. Jafnframt verður að hafa í huga að brot á þessum greinum getur jafnframt verið brot á öðrum köflum hegningarlaganna sem hafa þyngra refsihámark og í slíkum tilfellum ber jafnframt að refsa fyrir brot á þeim greinum.
    Ég tel að sú aðgreining sem er að finna í 8. og 9. gr. eigi við rök að styðjast en ef ástæða þykir til mætti athuga hvort samræma eigi refsihámark í 1. málsgr. 8. gr. og 1. málsgr. 9. gr. frv.
    Varðandi 10.--17. gr. er vísað til þess sem segir í athugasemdum við þær greinar. Þó tel ég rétt að fara nokkrum orðum um 1. málsgr. 13. gr. frv. þar sem segir að hver sem stundar vændi sér til framfærslu eða hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra, skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum. Hvorki skv. gildandi hegningarlögum né skv. frv. þessu er vændi sem slíkt refsivert. Refsiákvæðin taka til þess að stunda vændi sér til framfærslu. Í athugasemdum við frv. þetta á síðasta ári var lagt til

að fella brott ákvæði um að vændi til framfærslu væri refsivert. Væru forsendur þær að það væru ytri aðstæður sem neyddu fólk til að hafa framfærslu sína af vændi. Í flestum tilfellum væri það kaupandinn sem væri að misnota seljandann og ekki ætti að refsa veikari aðilanum en sleppa þeim sterkari. A.m.k. í einni athugasemd var bent á að athugað yrði hvort ekki ætti að gera kaup þjónustunnar refsiverð. Ljóst er að mál þetta á sér margar hliðar og er viðkvæmt. Ég er ekki viss um að menn átti sig almennt á afleiðingum þess að þetta ákvæði verði fellt brott.
    Hæstv. forseti. Í frv. þessu eru refsimörk fyrir kynferðisafbrot almennt þyngd frá því sem er í gildandi lögum, þó með einstökum frávikum sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við viðkomandi greinar. Verði frv. þetta að lögum verða refsimörk fyrir kynferðisbrot hér á landi með þeim þyngstu á Norðurlöndum.
    Ég gat þess í upphafi máls míns að hvatinn að frv. þessu hefði verið tillögur frá nauðgunarmálanefnd um breytingu á 194.--199. gr. almennra hegningarlaga. Í skýrslu og tillögum nauðgunarmálanefndar er mikil áhersla
lögð á aukna réttarvernd og aðra aðstoð við fórnarlömb eða þolendur kynferðisbrota. Að bæta réttarstöðu þeirra verður ekki gert með því einu að breyta hegningarlögum. Öll hegningarlög fjalla fyrst og fremst um háttsemi geranda og hvernig eigi að bregðast við gagnvart honum. Í þessum kafla hegningarlaganna skiptir viðhorf þolanda þó meira máli en víðast annars staðar í hegningarlögum. Í þessu frv. eru ákvæði þar sem almenn siðferðisviðhorf og þjóðfélagsviðhorf skipta máli bæði varðandi mat á einstökum verknuðum og alvöru þeirra. Lögð hefur verið áhersla á að gera frv. þannig úr garði að viðunandi friður og jafnvægi megi haldast um viðkvæm siðferðisviðhorf, jafnframt því að bæta réttarvernd þeirra sem fyrir kynferðisbrotum verða.
    Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.