Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. mars 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú fylgt úr hlaði hér í þessari hv. deild enn einu skattlagningarfrumvarpinu. Það kemur ekkert á óvart. Það er nokkurn veginn hægt að bóka að ef ráðherrar mæta hér til þingstarfa þá sé það vegna þess að þeir ætla að leggja nýjar klyfjar á landslýðinn. Og þó að hæstv. fjmrh. sé ekki þingmaður þá á hann þetta sammerkt með þeim þingmönnum sem í ráðherrastóli sitja að níðast á landslýðnum eftir því sem hægt er með aukinni skattheimtu, á einu sviði eða öðru. Hann segir okkur reyndar að hann hafi verið að lækka framfærsluvísitöluna um 0,3% frá því sem fyrirhugað hafði verið. Það er nú þetta sem þeir hafa verið að gera, þessir herrar, það hálfa annað ár sem þeir hafa starfað eða rúmlega það, þeir hafa alltaf verið að lækka hækkanirnar. Núna var t.d. ákveðin þessi 100% hækkun á bensíngjaldi, en ráðherrann er að fagna því að hann hafi lækkað hækkunina um helming. Þetta hafa þeir verið að gera með virðisaukaskatt og ýmislegt annað, óskaplega góðir, boða fyrst mikla hækkun og ætla svo að blíðka fólkið með því að þeir hafi verið að minnka hækkunina. Þetta var hann að boða hér núna, hæstv. fjmrh., mjög kampakátur yfir þessu öllu saman, að færa landslýðnum nú þessa lækkun í hækkuninni --- eða hækkun í lækkuninni. Þetta er allt saman hringavitleysa hjá þessum mönnum og það sér hver einasti, ekki bara þingmaður, heldur hver einasti maður í landinu.
    Og það er auðvitað alveg eðlilegur hlutur að stjórnarþingmenn séu ekki að mæta hér á þingi. Hvað hafa þeir hér að gera? Það er engin tilviljun að forseti neðri deildar Alþingis sendir þingflokkum stjórnarflokkanna áminningarbréf. Slíkt hefur aldrei gerst í sögu Alþingis. Það er alveg hreint öruggt mál. Og áminningin er sú að þeir eigi að mæta til þingstarfa. Að vísu eru þessi þinglaun nú sögð svo lág að það sé kannski ástæðulaust að vera að vinna eitthvað fyrir þeim. En þeim er alveg vorkunn, þessum hv.
stuðningsmönnum stjórnarinnar, að þurfa að harka hressilega af sér áður en þeir stíga yfir þröskuldinn í þinghúsinu, vitandi það að þeir bera ábyrgð með atkvæði sínu á öllum þeim ósköpum sem yfir landslýðinn er dengt.
    Við í stjórnarandstöðunni mætum yfirleitt miklu betur en stjórnarsinnar í þinginu. Og það er vegna þess að við erum að reyna að hamla eitthvað á móti og teljum að við séum að vinna gott verk með því, leiðbeina ríkisstjórninni, að fara nú ekki offari á öllum sviðum. Þess vegna getum við ósköp vel setið hér lengur og liðið betur en stjórnarsinnum. Þetta er auðvitað alveg eðlilegt. En ég held samt kannski að það að þessari áminningu forseta neðri deildar, sem eins og ég sagði er áreiðanlega einsdæmi í þingsögunni, skuli vera beint til stjórnarflokkanna einvörðungu en ekki þingsins alls sé vegna þess að það hefur ekki verið ástæða til að brýna okkur í stjórnarandstöðunni til að vera hér af því að við erum

hér yfirleitt alltaf.
    Kannski má segja að þetta sé útúrdúr, og þó ekki. Þetta er nefnilega mergurinn málsins. Fólkið í landinu veit ósköp vel hver efnahagsstefnan er og það trúir ekki einni af þeim tölum sem þessir herrar eru að nefna. Það trúir orðið engu nema sinni tómu buddu. Og það er áreiðanlega ekki ofsagt að kjör nú hafi verið færð svo mikið niður að þau séu lakari en þau voru fyrir 10 árum síðan. Ég fullyrði að kjör láglaunastétta á Íslandi voru fyrir 10, 20 og 30 árum betri en þau eru í dag, hjá lægst launaða fólkinu. Óréttlætið í þessu þjóðfélagi hefur vaxið gífurlega síðustu missiri. Það er ekki reynt verulega að ná sér niðri á neinum nema einmitt launafólkinu, láglaunafólkinu.
    Og þetta er allt saman gert til að reyna að koma í veg fyrir þenslu. Ég veit ekki hvað margir hafa hlustað á hæstv. forsrh. í sjónvarpi eða séð hann þar núna fyrir nokkrum kvöldum. Hann taldi upp einhverjar fjórar leiðir, held ég, til að koma í veg fyrir þenslu. ( Fjmrh.: Það var í gærkvöldi.) Var það bara í gærkvöldi? Það hefur verið aftur þá. ( Fjmrh.: Nei, nei, það var í gærkvöldi.) Jæja, þá. (Gripið fram í.) Ég hef líklega verið að reyna að gleyma þessu ... En úr því að þetta tækifæri gafst nú að ávarpa hér ágætis vin minn, hæstv. fjmrh., við höfum gaman af að tala saman, þó við séum nú sjaldnast alveg sammála. --- En þessar fjórar leiðir til þess að koma í veg fyrir þenslu fólust m.a. í því að halda áfram atvinnuleysi og láglaunum, koma í veg fyrir það að kjörin bötnuðu og umsvifin yrðu meiri í þjóðfélaginu. Það eru ær og kýr þessarar stjórnar. Lærði þetta í einhverjum kennibókum líklega. Þær bækur eru nú allar komnar á eld, held ég, nærri því eins og var fyrir austan tjald á sínum tíma. Það trúir enginn alvöruhagfræðingur lengur á þessar dellukenningar um að leiðin til bættra lífskjara sé sú að skerða kjörin, halda þeim niðri, og að leiðin til auðsöfnunar sé að koma í veg fyrir auðsöfnun. En þetta er kenningin sem hæstv. forsrh. flutti fyrir hönd hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnarinnar. Ég man ekki hvað þetta var, þetta fernt sem hann ætlaði að gera eða taldi koma til álita. Eitt var hækkun vaxta. Honum leist nú ekki beint á það. ( Fjmrh.: Það var Verðjöfnunarsjóðurinn.) Verðjöfnunarsjóðurinn, já. (Gripið fram í.) Gengishækkun að sjálfsögðu. ( Fjmrh.: Vaxtahækkun eða skatta.) Já, og eitthvert sambland af þessu á að koma sem sagt yfir þjóðina
núna. Þetta er nýjasta úrræðið. Og er nú ekki furða þó að jafnvel þeir sem eru með tómu budduna brosi. Það er a.m.k. ekki furða þó að þeir treysti ekki þessum mönnum. Það er ekki furða þó að það hrynji af þeim fylgið. Svo er náttúrlega hæstv. fjmrh. eiginlega fyrsti formaður í stjórnmálaflokki nokkuð lengi, sem hefur engan flokk því að hann er dauður. Það er verið að kljúfa hann í frumeindir sínar, þennan flokk sem hæstv. fjmrh. er formaður í að forminu til. Og hann verður náttúrlega að reyna að blakta hér á Alþingi því að ekki hefur hann neinn vettvang innan síns flokks. Og þótt hann sé ekki þingmaður þá er hægt að nota

þessa viðdvöl hér til þess að láta ljós sitt skína og koma fram þessum sameiginlegu kenningum hans og hæstv. forsrh., þessari nýju efnahagsstefnu sem er nú náttúrlega að sumu leyti eldgömul. Gleymdi hæstv. forsrh. að nefna peningaskömmtun? ( Fjmrh.: Já.) Gleymdi hann því? Ég ætla að biðja hæstv. fjmrh. að minna hann á að það er eitt úrræðið í efnahagskenningunum sem afdankaðir og steindauðir hagfræðingar boðuðu hér fyrir áratugum síðan eða jafnvel öldum --- að bæta því við, þá er þetta nú orðin góð súpa allt saman, þegar það er komið heim og saman.
    Nú, það er kannski alveg ástæðulaust að vera mikið að fjölyrða um þetta frv. Þetta er bara einn þátturinn af þessu öllu saman. En það er auðvitað rétt að þetta er algjört smámál miðað við þær skattahækkanir sem núna eru boðaðar ofan á alla súpuna. Það sem er þó verst við þetta allt saman er að halli ríkissjóðs vex alltaf í réttu hlutfalli við skattahækkanir. Það hélt ég að menn væru nú farnir að skilja. Þetta hefur gerst alltaf. Því meira sem dengt er af sköttum yfir fólkið, því meira sem dregið er úr atvinnu, því meira sem þrengt er að atvinnulífinu, þeim mun minni verða tekjur ríkissjóðs og útgjöldin halda áfram að hækka fyrir því. Þess vegna er alltaf verið að auka hallann á ríkissjóði en ekki minnka hann. Það er ekki verið að fylla upp í göt, það er verið að þenja þau út, blása upp blöðruna þangað til hún springur og hún springur alltaf, á hverju ári. Allt byggt á sandi, hvergi stendur steinn yfir steini þegar upp er staðið með blessuð fjárlögin sem eiga að vera heilög.
    Það er alveg nákvæmlega sama hvernig kjör fólksins eru, bara ef blessaður ríkissjóðurinn skyldi nú verða hallalaus. Það væri nú dýrlegt. En hallinn vex alltaf í réttu hlutfalli við skattlagninguna. Mönnum gengur voðalega illa að skilja þetta. Það eru meira að segja til menn í mínum flokki sem ekki skilja þetta eða hafa verið til skamms tíma. ( Fjmrh.: Er þá langt til jafnað.) Þeir skilja það allir meira og minna í flokki hæstv. fjmrh., gæti maður ætlað, eftir því hvernig hann talar. Ég held að það sé nú sama hvar í flokki fólkið er, að það sé nú að sjá að þessi ósköp ganga ekki.
    Hitt er svo annað mál að þessi ríkisstjórn ætlar sér að hanga, alveg sama hvort Róm brennur eða Reykjavík eða eitthvert sveitarfélög úti á landi, t.d. Kópasker eða eitthvað annað. Það skiptir engu máli. Eða bara heimilin.
    Hér var ráðherra að tala um húsnæðismál í fyrradag. Og einhverjir hlustuðu á það. Ætli ástandið í húsnæðismálum hafi batnað í tíð þessarar ríkisstjórnar? Ég held að hæstv. fjmrh. sé ekki svo hraustur maður að hann haldi því fram að húsnæðismálin hafi batnað í hans tíð. Þar er neyð. Og ekki síst hér á Reykjavíkursvæðinu. Þar er neyð. Fólkið er að missa sínar íbúðir, sama hvað það þrælar, ef það þá fær vinnu. Það er verr ástatt í húsnæðismálunum en nokkru sinni síðustu áratugina. Og að þessi félagslega stefna eða hvað það nú heitir,

félagslega kerfi, sé að bjarga mönnum, því fer fjarri. Það er sagt að sjálfseignarstefnan hafi komið mönnum í gjaldþrot. Það var nú einu sinni svo fyrir jafnvel tugum ára að mjög fátækt fólk gat komið sér upp íbúð. Það fékk að vinna í henni. Það var jafnvel skattfrjáls vinnan sem fólkið lagði á sig, aukavinnan. Það var allt gert til að hjálpa fólki að eignast þak yfir höfuðið. Það er það sem kannski hefur verið aðal þessarar þjóðar, að fólkið hefur búið í mannsæmandi íbúðum og átt þær sjálft í langflestum tilfellum. Nei, nú þykir þetta voðalega ljótt, eitt það alversta, þessi sjálfseignarstefna, sagði hæstv. félmrh. hér. Það er félagslega kerfið sem blífur. Félagslega kerfið, það átti að verða miklu víðtækara, sagði hæstv. ráðherra. Nú væri það miklu víðtækara. Það væri verið að finna nýjar leiðir til þess að endurbæta kerfið.
    Það er sem sagt ekki nógu flókið að t.d. ung hjón þurfi núna að labba inn í Húsnæðisstofnun, gera þar grein fyrir tekjum sínum og væntanlegum tekjum næstu árin, kannski næstu 40 árin. Þetta unga fólk hefur nú kannski hugsað sér að eignast krakka og það hefur ætlað að byggja þriggja herbergja íbúð. Nei, þá segja kommissararnir: ,,Góða fólk, þið hafið ekki tekjur til að byggja þriggja herbergja íbúð. Þið getið hugsanlega fengið eitt herbergi eða tvö. Þið getið fengið lán til þess.`` Þetta gerist svona, bókstaflega. Hvar í veröldinni halda menn að svona vinnubrögð séu viðhöfð nema á Íslandi? Ég nenni nú ekki að fara að nefna þessi járntjaldslönd, eða fyrrverandi. Satt að segja get ég ekki fengið af mér að vera að sparka í gamlan sósíalista. Þó að ég hefði getað það sl. 40 ár, þá geri ég það ekki lengur. Ég kann ekki við að vera að sparka í liggjandi fólk. Þetta er auðvitað alls staðar hrunið, þessi ósköp, þetta ofstjórnarbrjálæði sem viðhaldið er hér t.d. í húsnæðismálunum sem er nú það mikilvægasta í lífi sérhverrar fjölskyldu, að geta haft öryggi í
húsnæðismálum, geta átt sína eigin íbúð án þess að vera sliguð með gjöldum og launaskerðingu.
    Þetta getum við auðvitað rætt allt saman í löngu máli og við vorum að hugsa um það kannski, hæstv. fjmrh. og ég, að taka einhvern tíma svona skorpu ( Fjmrh.: Já, við gerum það.), að reyna að ræða málin. Það er líklega of lítill tími til þess í dag ef það á að slíta fundi kl. 3.
    En sem sagt, að þessu leyti get ég aðeins vitnað til stefnunnar í heild. En þó það, að ég var að tala um nauðsyn fólks á að eiga sitt eigið húsnæði og það hefði verið aðall íslenskra stjórnmála og þjóðmála í áratugi að tryggja fólki það eftir því sem mögulegt hefði reynst. Þá var í tísku að níðast á bílaeign. Það þótti mjög slæmt ef menn voru á fínum eða dýrum bílum og jafnvel bara litlum tíkum, hvað menn væru að eyða peningunum í þetta og hvort menn þyrftu yfirleitt á þessu að halda, sérstaklega þótti sósíalistum það sem þá hétu og síðan víst Alþýðubandalagið eða sameiningarflokkur einhver. Það er alltaf verið að sameina þessa flokka eða sundra þeim. Sameiningarflokkur alþýðu er nú ágætt nafn á þetta nýja þarna, á rauðu ljósi eða eitthvað. Það nær

eiginlega aðalflokkum og þar er gamla nafnið komið aftur, Sameiningarflokkur alþýðu.
    En ef menn horfa á þetta núna. Hvað er með bílanotkunina? Við skulum bara taka Reykjavík þar sem bílarnir eru flestir. Hvernig getur fólk, við skulum segja fólk sem vinnur frá 8 á morgnana til 7 á kvöldin og á eitthvað af börnum, bæði hjón vinna, eða einstæðir foreldrar, býr uppi í Breiðholti, vinnur úti á Granda. Hvernig getur það komist af án þess að hafa einhverja bíltík? Bensínið er t.d. orðið jafnviðkvæmt í vísitölu og í daglegu lífi fólksins eins og mjólkin var áður. Það er ekki hægt að komast hjá því að hafa einhvern bíl. Þú þarft að koma barninu í leikskóla eða bara í skóla o.s.frv. Nei, nei, það er alltaf hægt að bæta pinklum á bílana. Það er algjör óþarfi. Fólk getur bara labbað eða notað strætó og eru þetta þó einu samgöngutækin hér. Við höfum enga sporvagna, járnbrautir o.s.frv. Þess vegna er það kannski enn þá fáránlegra en margt annað að vera stöðugt að hækka gjöldin á bílana.
    Það kemur auðvitað líka verst við lágtekjufólkið og það sem minnstar á eignirnar. Það notar bíllinn nákvæmlega eins mikið og ég og kannski meira. Það þarf að fara fleiri ferðirnar til að sinna sínum börnum og sjá fyrir fjölskyldunni, bæði hjón eða ég tala nú ekki um einstæða foreldra. Það þarf að nota bílinn meira en við sem förum hér innan bæjar nánast í vinnuna. Það skal hundelta þetta fólk alveg með bros á vör, í þessu eins og öllu öðru.
    Svo koma þeir hér og segja: Það varð nú lækkun á fyrirhuguðu hækkuninni. Svo lækkuðu þeir bara 100% hækkun í 50%, og hlæja að. Þetta er sem sagt lækkun á hækkuninni og ég held að risið á þeim sé nú að smálækka. Þetta verður kannski komið í núllið áður en langt um líður. En við skulum fjalla um þetta í nefnd og hér aftur þegar framhaldsumræða verður.