Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Eins og fram hefur komið er annað mál um sama efni til umræðu, meðhöndlunar og umfjöllunar í hv. Nd. Það frv. er flutt af hv. þm. Friðriki Sophussyni og var á ferðinni snemma á þinginu.
    Þetta frv. sem við fáum hér til meðferðar er að sumu leyti breytingar frá því sem lagt er til í hinu frv. og hefur flm. þess frv. raunar sagt mér og ég hef það raunar hér í þskj. að hann hafi lýst yfir stuðningi við þær brtt. sem fram koma í frv. hæstv. ráðherra. Ég held að ég og minn flokkur getum stutt þetta mál svo til í heild. Vafalaust mun nefndin fjalla um það og finna eitthvað sem betur má fara. Það hefði kannski verið alveg nægilegt að breyta því frv. sem til meðferðar er í Nd. en úr því þessi kostur er valinn er auðvitað alveg sársaukalaust af minni hálfu og flm. hv. þm. Friðriks Sophussonar í Nd. að þetta frv. gangi fyrir. Bæði frv. verða til hliðsjónar að sjálfsögðu í nefndum beggja deilda og kannski greiðir það fyrir því að málið nái örugglega fram í vor að um það er fjallað í báðum deildum þingsins.
    Ég lýsi sem sagt stuðningi við meginefni frv. og þarf ekki að taka það fram að minn flokkur hefur lengi verið með það á sinni stefnuskrá að fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjan eigi að vera hlutafélag frekar en í ríkiseigu.