Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Hv. 4. þm. Vesturl. lagði áherslu á að við þá breytingu sem gert er ráð fyrir á rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar verði ekki fyrirtækið opnað fyrir einkafjármagni, eins og hann orðaði það. Ég skil málið svo að hæstv. iðnrh. sé á þeirri skoðun að það eigi að vera möguleiki á að opna fyrirtækið fyrir einkafjármagni. Ef þetta er ekki réttur skilningur hjá mér leiðréttir hann það. Ég tel að tilgangurinn með þessu frv. sé mjög vængstýfður --- ef það mætti orða það svo --- ef ekki er gert ráð fyrir því að fyrirtækið sé opnað fyrir einkafjármagni þegar horfið er frá því rekstrarformi sem tilheyrir ríkisfyrirtæki og til þess rekstrarforms sem er við hæfi einkafjármagns.
    Um formið á þessu máli vil ég aðeins segja að hér er borið fram frv. sem er að stofni sama frv. og flutt er í hv. neðri deild af hv. 1. þm. Reykv. Að stofni til, sagði ég, sama frv. en með breytingum og, eins og hæstv. iðnrh. orðaði það, með veigamiklum breytingum. En ég vil vekja athygli á því að mér virðist þetta vera nokkuð einkennileg málsmeðferð. Það er náttúrlega alkunna og þarf ekki að segja að það eru gerðar breytingar á mörgum frv. sem flutt eru í þinginu og kannski flestum eða meiri hluta frv. sem lögð eru fram. En þær breytingar eru gerðar í því formi að bornar eru fram brtt. við viðkomandi frv., en ekki borin fram ný frv. til þess að koma fram breytingum. Þess vegna virðist mér að það hefði verið eðlileg meðferð þessa máls að hæstv. iðnrh. hefði freistað þess að bera fram brtt. við frv. í neðri deild og leitað atfylgis þingsins til þess að fá þær samþykktar.
    Ég vil vekja athygli á því að ef tekinn væri upp sá siður að flytja ný frv., og kannski í sömu deild, alltaf ef menn vildu gera breytingar á frv., þá væri um að ræða grundvallarbreytingu á starfsháttum þingsins og ekki samræmanlegt þingvenju og anda þingskapa. Ég vildi aðeins láta þessa skoðun koma fram. En ég fagna þessu frv. og ég fagna að sjálfsögðu áhuga hæstv. iðnrh. fyrir að breyta ríkisfyrirtækjum í form sem henta einkafjármagninu. En ég vil aðeins segja að mér þykir liggja við að í áhuga sínum sjáist hæstv. iðnrh. ekki fyrir í þessu efni. Það hefði verið eðlilegri málsmeðferð að fara þá leið að breyta því frv. sem liggur fyrir um þetta efni.