Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég þakka hv. 4. þm. Vestf. fyrir stuðninginn við frv. sem hér er til umræðu. Ég vildi benda honum á, þótt ég viti að svona þingvönum manni þarf ekki að segja þingsöguna, að það er algengt að frv. komi fram um sama efni þegar verulegur munur er á frv. í sömu deild þingsins og reyndar stundum í báðum þingdeildum. Ég þekki að sjálfsögðu vel ákvæði þingskapa um það að ekki sé rétt að flytja samhljóða frv. á sama þingi. Það er sjálfsagt sú þingskaparegla sem hv. 4. þm. Vestf. vitnar til í andanum, þykist ég vita. Hér er ekki um það að tefla. Og ég vildi benda á að á minni þingmálaskrá sem fylgdi stefnuræðu forsrh., og reyndar er það vel kunnugt frá því sem ég hef fyrr talað í þessu máli, að ég hafði sett mér að flytja þetta þingmál á þessu þingi. Síðan kemur fram frv. hv. 1. þm. Reykv. í neðri deild. Ég hef að sjálfsögðu tekið þátt í umræðum um það mál þar og kýs fremur að ræða það mál á þeim vettvangi. Ég lýsti þá ástæðunum fyrir því að þessi háttur er hafður á framgangi málsins. Ég tel þetta alls ekki vera þeirrar gerðar að hér sé verið að flytja brtt. við annað frv. í annarri deild í þinginu og held að sú markalína sem þarna þarf að þræða sé alveg rétt mörkuð með þessum málatilbúnaði. En að sjálfsögðu er það rétt ábending hjá hv. 4. þm. Vestf. að það þarf að huga að þessu eins og öðru í þingstörfunum. En ég bendi á þessi atriði.
    Að endingu vildi ég segja að frv. hv. 1. þm. Reykv. var í reynd samið í iðnrn. haustið 1988 og honum þaðan kunnugt. Það er þess vegna að kalla mætti hráefni í stjfrv. sem hér er á ferðinni og þannig í raun og veru ekki venjulegt þingmannsfrv. og ég bendi líka á fyrri yfirlýsingar mínar um ásetning að flytja slíkt frv. á þinginu. Síðast kem ég þó að því sem mestu varðar, að frv. í þeirri gerð sem það liggur fyrir þinginu og með þeim aðdraganda sem það hefur haft hefur góðar líkur á að verða að lögum með víðtækri samstöðu þingmanna. Og veit ég að hv. 4. þm. Vestf. er mér sammála um það að þau mál eru best sem hafa sterkastan þingvilja að baki sér.