Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Ég ætla mér ekki að etja kappi við hv. 4. þm. Vestf. um þessi efni. Hins vegar hygg ég að ekkert af því sem hann sagði renni stoðum undir það að nokkuð sé óeðlilegt við þá málsmeðferð sem hér hefur átt sér stað. Þess eru áreiðanlega ýmis dæmi í þingsögunni að frv. um sama eða svipað efni hafi verið flutt í sitt hvorri deild þingsins. Það hefur komið fram að á þessum frv. tveimur er veigamikill munur í ýmsum atriðum. Ég tel það alveg óyggjandi að hér hefur á engan hátt verið brugðið út frá venju eða góðri reglu og ekkert við þessi vinnubrögð að athuga. Auðvitað er það svo hér í þingstörfum að stundum má eftir á að hyggja gera athugasemdir og benda á ýmislegt sem betur mætti fara, t.d. hefði það mátt í gær á fundi sameinaðs þings. Þá var til umræðu till. til þál. um samningu rits um kristni á Íslandi í þúsund ár. Flm. voru forsetar þingsins með forseta sameinaðs þings í broddi fylkingar og allir formenn þingflokka. Forseti sameinaðs þings gerði tillögu um að málinu yrði ekki vísað til nefndar. Hv. 4. þm. Vestf. gerði tillögu um að málinu yrði vísað til nefndar, sú tillaga var samþykkt.
    Hinn 17. apríl 1986 var samþykkt á Alþingi þáltill. um þúsund ára afmæli kristnitökunnar. Flm. voru forseti sameinaðs þings, forsetar beggja deilda og allir formenn þingflokka. Forseti sameinaðs þings var þá hv. 4. þm. Vestf. Hann gerði þá tillögu um að tillögunni um þúsund ára afmæli kristnitökunnar yrði ekki vísað til nefndar. ( Gripið fram í: Þá?) Já. ( Gripið fram í: Hvað segirðu.) Á það var fallist. Þannig er kannski ekki alltaf fullkomið samræmi í störfum Alþingis. En að því er þetta sérstaka mál varðar sem hann hefur nú kosið að gera hér að umtalsefni þá eru þessi frv., eins og hv. 4. þm. Vesturl. hefur líka undirstrikað, ólík um mjög veigamikil atriði og ekkert hefur komið fram í þessari umræðu sem rennir stoðum undir það að réttara hefði verið að fara öðruvísi að þótt auðvitað sé það rétt ábending að hugsanlega mættu menn hafa gert þetta með öðrum hætti. En það hafa engin rök komið fram og engum stoðum verið rennt undir þá skoðun að hér hafi ekki að fullu verið gengið fram í samræmi við þingsköp og réttar reglur.