Innflutningur dýra
Föstudaginn 23. mars 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. sem er samið af nefnd fyrir þó nokkrum árum. Það eru nokkur atriði í frv. sem mig langar til að vekja athygli á og spyrja hæstv. landbrh. nokkurra spurninga. Það fyrsta sem vekur athygli og mig langaði til að minnast á er á bls. 5 í athugasemdunum. Þar er sagt að það frv. sem hér liggur fyrir sé að stofni til byggt á tillögum ofangreindrar nefndar, sem er sú nefnd sem samdi upphaflega frv. Mér er ekki alveg ljóst hvort einhverjar veigamiklar breytingar hafi orðið á þeim tillögum að frv. sem nefndin samdi. Ég var að velta fyrir mér hvort það væri kannski eingöngu varðandi innflutning á frjóvguðum alifuglaeggjum eða hvort það væru einhverjar víðtækar breytingar.
    Í 9. gr. er ákvæði um að umsjónarmaður sóttvarnastöðvar skuli ráðinn af landbrh. og skuli hann fá sérstakt erindisbréf. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegra að maður sé í raun ekki ráðinn fyrr en erindisbréf liggur fyrir eða það sé afhent samhliða. Ég segi þetta vegna þess að umsjónarmaður sóttvarnastöðvarinnar í Hrísey hefur starfað þar í nær fjögur ár og hefur enn ekki fengið erindisbréf. Því velti ég fyrir mér hvort ekki sé rétt að tengja þetta saman. Og ég beini því til þeirrar nefndar sem fær málið til meðferðar að athuga hvort ekki sé rétt að kveða þarna fastar að orði ef svo langur tími getur liðið frá ráðningu starfsmanns þangað til hann fær erindisbréf sitt.
    Í þessari grein er talað um sóttvarna- og einangrunarstöðvar og í því sambandi að landbrh. setji reglugerð um rekstur slíkra stöðva. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt áður en sóttvarnastöð er byggð að fyrir liggi nákvæmlega hvernig hún eigi að vera og hvernig hún skuli rekin. Ég hringdi í landbrn. og spurði um reglugerð um sóttvarnastöðina í Hrísey, þ.e. lögin og reglugerðina á grundvelli þeirra. Ég veit ekki hversu gömul þau lög eru en ég fékk þær upplýsingar að reglugerð væri ekki til. Þess vegna finnst mér að þarna þurfi að athuga nánar hvort ekki þurfi að setja aðeins harðari ákvæði um að ekki sé hægt að hefja rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva öðruvísi en ljóst sé hvernig þar eigi að halda á málum.
    Ég vil einnig gera að umtalsefni 14. gr. Út af fyrir sig tel ég mjög jákvætt það sem þar kemur fram og það tengist reyndar því sem kemur fram í 9. gr., að flytja eigi innflutt dýr í sóttvarnastöð. En þá verður einhver sóttvarnastöð að vera til. Það þýðir ekkert að tala um að það eigi að flytja dýr í sóttvarnastöð ef hún er ekki til. Og enn minnist ég þess að einhvers staðar las ég að í Hrísey væri einungis til grunnur að þeirri sóttvarnastöð fyrir gæludýr sem þar á að vera og aðstaða sé algerlega ófullnægjandi til að taka við dýrum í sóttkví. Hæstv. ráðherra minntist á að ekki kostaði neitt að framkvæma þessi lög, en ég vil benda á að það þýðir ekkert að setja lög sem ekki er hægt að framkvæma vegna þess að ekki eru til hús til að

taka við dýrunum. Ég get nefnt fleiri dæmi, t.d. minkana á Möðruvöllum í Hörgárdal. Þegar þeir komu var aðstaða ekki fyrir hendi þó svo að dýrin væru komin. Enn þá er aðstaðan algerlega óviðunandi. Fólk sem þar vinnur þarf t.d. að ganga í gegnum stöðina í sínum fötum til þess að geta farið í vinnuföt, þarf að ganga í gegnum sjálfa stöðina. Það hlýtur að vera mjög varhugavert.
    Að öðru leyti er ég ánægð með margt sem hérna kemur fram. Ég tel að við eigum að fara mjög varlega í innflutningi á dýrum. Við megum samt ekki bjóða hættunni heim með því að ekki sé hægt að fara að lögunum. Og alls ekki standa þannig að málum að það bjóði í raun upp á að fólk smygli inn bæði fósturvísum og öðru vegna þess að aðstaða sé í raun ekki fyrir hendi til að framfylgja lögum.