Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla um það frv. sem hér liggur fyrir í löngu máli enda hefur umræða nú þegar farið fram um ýmis atriði sem mér þótti ástæða til að tína til. M.a. hefur hv. 12. þm. Reykv. drepið á nokkur þeirra atriða sem mér hafði þótt ástæða til að nefna í þessu sambandi.
    Einn er þó sá þáttur þessa frv. sem mér finnst nauðsynlegt að geta sérstaklega um en það eru ákvæði 12. og 13. gr. sem þegar hafa nokkuð verið til umfjöllunar. Það sem mig langar að gera að umtalsefni eru þau ákvæði er varða sveitarfélög sérstaklega. Þar eru ákvæði um að í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasambanda skuli sitja því sem næst jafnmargir karlar og konur, þar sem því verður við komið. Í flestum helstu nefndum ríkis og sveitarfélaga ætti þessu að verða við komið og því finnst mér óþarfi að draga úr gildi þessa ákvæðis eins og heyrst hefur í máli a.m.k. eins ræðumanna hér, hv. 17. þm. Reykv. Hins vegar get ég fyllilega tekið undir það með hv. 17. þm. Reykv. og fleirum sem hér hafa stigið í ræðustól að það vefst vissulega fyrir mér hvernig ætlast er til að þessum lögum verði framfylgt að þessu leyti. Einkum hvernig hugað verði að kynningu á þeim og þessum ákvæðum í ríkisstofnunum, sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum sem heyra undir þessa grein.
    Mig langar því til að beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvernig ætlast er til að kynning á þessum lögum muni verða, því ef ákvæði laganna eru gerð skýr í gegnum góða kynningu þá ætti að vera léttara að framfylgja þeim og menn gætu einfaldlega gert vart við þá þætti sem þeim fyndist ástæða til að gera athugasemdir við.
    Í 13. gr. eru ákvæði um jafnréttisnefndir sveitarfélaganna. Í skýringum með greininni kemur fram að slíkum jafnréttisnefndum hefur fækkað á undanförnum árum frá því er þær voru fyrst settar á laggirnar eftir 1975. Virkni þeirra
hefur sums staðar minnkað. Ákvæði greinarinnar um jafnréttisnefndir í sveitarfélögum sem hafa fleiri en 500 íbúa eru þó mjög nauðsynleg og þar finnst mér orðunum ,,þar sem því verður við komið`` e.t.v. vera ofaukið og óþarfa fyrirvari. Ég sé ekki hvað ætti að koma í veg fyrir að því yrði við komið. Starfssvið nefndanna er samkvæmt orðanna hljóðan í greininni ákaflega mikilvægt. Það er ekki bara að fylgjast með jafnréttismálum í reynd heldur einnig og ekki síður ráðgjafarhlutverk það sem nefndunum er ætlað.
    Það hefur komið fram að um það bil helmingur þeirra kvenna sem nú sitja í sveitarstjórnum vill ekki starfa þar áfram. Það er þeim mun alvarlegra þegar litið er á að hlutfall kvenna innan sveitarstjórna hér á landi er mun lægra en á öðrum Norðurlöndum. Samkvæmt þeirri könnun Jafnréttisráðs sem gerð var kunn sl. vor, þar sem þessi nöturlega staðreynd var upplýst, eru ástæður kvennanna margvíslegar. Ég held að jafnréttisnefndir sveitarfélaga þyrftu að gæta allt

eins að sveitarstjórnunum sjálfum eins og öðrum nefndum sveitarfélaganna. Með hverjum hætti það væri unnt ætla ég ekki að tilgreina í smáatriðum en ég er alveg sannfærð um að það er hægt.
    Vinnulag og vinnuaðstæður á þessum stað í stjórnsýslukerfinu eru konum fyrirstaða. Einfaldar leiðréttingar, eins og t.d. það að laga fundatíma sumra nefnda, eru meðal þess sem fram kemur í athugasemdum með þessari könnun að mundi auðvelda konum að taka þátt í sveitarstjórnum.
    Þar sem jafnréttisnefndir sveitarfélaga hafa verið vel virkar hafa þær beitt sér fyrir ýmsum ágætum málum. Er skemmst að minnast ágætrar umfjöllunar um nefndina á Neskaupstað sem hefur verið mjög virk og kom fram í Landpósti, sem er ákaflega fróðlegur þáttur í Ríkisútvarpinu og greinir frá ýmsu sem vel mætti huga að. Meðal þeirra mála sem hefur verið fengist við á Neskaupstað eru kannanir á launakjörum og aðstæðum kvenna og karla í sveitarfélaginu. Þá hefur sjónum verið beint bæði að opinberum aðilum og einkaaðilum. Þar eins og annars staðar hefur raunar komið fram að opinberir aðilar ganga ekki alltaf á undan með góðu fordæmi.
    Ég tek þetta litla dæmi einungis vegna þess að þessi umfjöllun er um það sem nefndir hafa verið að gera núna nýverið. Væri fróðlegt að sjá samantekt og niðurstöður frá þessum jafnréttisnefndum einhvers staðar á einum stað og aðgengilegar en ekki heyra, meira og minna af tilviljun, hvað verið er að gera. Þar er án efa saman kominn fróðleikur sem gæti verið vísbending um hvert ástæða er til að beina kröftunum.
    Mig langar að benda á hvernig tekið er til orða í 13. gr. frv. sem hér er til umfjöllunar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Skulu nefndirnar fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum til að bæta stöðu kvenna í sveitarfélaginu, taka við ábendingum vegna brota á lögum þessum og vera tengiliður við ráðuneyti og Jafnréttisráð.``
    Það eru einkum fyrstu orð þessarar setningar sem mig langar til að drepa örlítið á, þ.e. frumkvæðið. Ég vænti þess að slíkt frumkvæði gæti leitt til úrbóta því við höfum staðið hvað eftir annað frammi fyrir því að þrátt fyrir góðan vilja og lög sem þegar eru í gildi, og má bæta svo sem hér er verið að
reyna að gera, þá þarf einnig að leita hugmynda. Við vitum um ýmislegt sem hefur ekki leitt til úrbóta. Aðrir ræðumenn hafa orðið til að tíunda nákvæmar en ég hversu alvarlegt ástandið er t.d. ef litið er á launamálin. Það eru fleiri mál raunar sem eru í alvarlegu horfi um þessar mundir. En eins og bent hefur verið á breyta lög og reglur ekki hugarfari ein og sér. Framkvæmd einstakra laga ætti þó að geta stuðlað að breyttu hugarfari sé vel að staðið. Jafnréttisáætlanir eru tæki til úrbóta þar sem bent er á leiðir sem fara má. Ég vil minna á þá umræðu sem hér varð í fyrirspurnatíma í gær er Danfríður Skarphéðinsdóttir spurðist fyrir um framkvæmdir jafnréttisáætlana. Þessu máli verður sífellt að halda vakandi.

    Ég ætla ekki að fara nánar að svo stöddu út í efni þessa frv., ég mun hafa tækifæri til að koma nánar að því í umfjöllun í nefnd. En mér þykir gott að þetta mikil umræða hefur orðið um málið á þessu stigi og tel að ýmsar ábendingar sem hafa komið fram séu þess virði að líta á þær þó ég sé missammála efni þeirra.