Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Það eru aðeins nokkur atriði sem mig langar að koma að hér í þessari umræðu um þetta mikilvæga mál á þskj. 756, hins vegar geymi ég mér ýmsar efnisumræður þar til málið kemur til nefndar sem ég á sæti í.
    Ég tel að með lagasetningunni 1985 hafi verið stigið mjög mikilvægt spor í þessum málum. Þau lög voru gerð eftir mikla vinnu nefndar sem var skipuð fulltrúum flestra aðila í þjóðfélaginu sem þetta mál mæddi mest á, eins og ástandið var þá, og eru gildandi lög í fullu samræmi við löggjöf t.d. á hinum Norðurlöndunum.
    Það er náttúrlega margt sem mætti segja um gildandi lög og þann tíma sem starfað hefur verið eftir þeim. Ég held að óhætt sé að segja í stuttu máli að þau hafa tvímælalaust skilað árangri þó að sjálfsögðu mætti margt betur gera. Í gildandi lögum eru mjög skýr ákvæði um tilgang laganna og hvernig á að framkvæma þau og vissar aðgerðir, svo sem á að koma fram í áætlanagerð sem Jafnréttisráð gerir tillögu um og afhendir viðkomandi ráðherra sem leggur áætlunina fyrir Alþingi. En hinu er ekki að leyna að það sem hefur fyrst og fremst torveldað að ná meiri árangri er að sjálfsögðu það að það fjármagn, sem Jafnréttisráð hefur haft til sinna þarfa og til þess að framkvæma áætlanir sem lagðar hafa verið fram, hefur alls ekki verið nægjanlegt. Þarf ekki að ræða það sérstaklega.
    Ég tel að þessi lög sem voru sett 1985 hafi eigi að síður gert það að verkum að viðhorf almennings í þjóðfélaginu hefur breyst. Ekki síst hefur kvenfólk tekið virkari þátt í þessum málum en nokkurn tímann áður var raunin.
    Ég verð að segja það, eins og ég held ég hafi sagt þegar frv. var lagt fram 1985, að ég tel að ætla að ná fram þvinguðu jafnrétti sé ekki það sem við eigum að stefna að í nútímaþjóðfélagi heldur að reyna að haga málum þannig að fólk hafi í fyrsta lagi jafnrétti til menntunar og reyna að koma því þannig fyrir að fólk fái að njóta sín, af hvoru kyninu sem það er. Ég tek undir það sem hér
hefur komið fram að allt sem er þvingað fram í lögum sem sérréttindi til að ná einhverju markmiði er að mínu mati ekki jákvætt og ekki sú leið sem á að fara í lýðfrjálsu landi. Ég held að þrátt fyrir allt þetta hafi þróun þessara mála gengið í rétta átt.
    Það sem ekki hefur gengið nægjanlega fram, að mínu mati, er e.t.v. hægt að rekja til þeirrar umræðu sem mér hefur oft fundist vera neikvæð í þessum málum þar sem á að reyna að draga konur í sérstakan dilk í framkvæmd mála. Ég verð að segja það eins og er að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með áhrif Kvennalistans að þessu leyti til. Mér finnst að Kvennalistinn hafi raunverulega haft miklu meiri áhrif en menn hafa áttað sig á, að draga konur saman í dilka, draga konur saman í hópa til þess að hafa áhrif, frekar en hitt að hvetja konur til þess að beita hæfni sinni og þekkingu til áhrifa í þjóðfélaginu. Ég veit

ekki hvort ég skýri þetta nógu vel en þetta eru þau áhrif sem mér finnst að Kvennalistinn hafi haft og hafi mistekist í raun og veru hjá Kvennalistanum þegar maður hugsar lengra í átt að því sem við erum að tala um hér. Ég er ekki að vanmeta hæfni þeirra og störf og stefnu, heldur hitt að mér finnst að það hafi sannast að þær hafa frekar einangrað stóra hópa kvenna sem ekki vilja láta draga sig í svona dilk eins og þær hafa viljað starfa eftir, til að komast til meiri áhrifa í þjóðfélaginu.
    Ég vil aðeins horfa aftur í tímann og nefna nokkur atriði. Ég man það að á árunum 1979--1980 var mikil krafa í gangi hér inni á hv. Alþingi um það að rétta við stöðu heimavinnandi kvenna, heimavinnandi fólks. Þá voru lög um fæðingarorlof í brennidepli og það óréttlæti sem ríkti í þjóðfélaginu að þessu leyti til var til umræðu hér á hv. Alþingi. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þá, sem áhugamaður um að ná fram leiðréttingu, hvað það var mikil tregða hér á hv. Alþingi við að viðurkenna réttarstöðu þessa fólks, þ.e. fæðandi kvenna í landinu, hvort sem þær voru við störf inni á heimilunum eða úti í þjóðfélaginu. Og það voru einmitt kvenþingmenn á hv. Alþingi sem beittu sér gegn því að reyna að leiðrétta þennan þátt og töldu að réttur kvenna sem ynnu utan heimila ætti að vera afgerandi meiri en heimavinnandi kvenna. Niðurstaðan í málinu varð sú að við sem héldum því fram 1980 að þessi réttur ætti að vera sá sami urðum að lúta í lægra haldi við setningu laga hér á hv. Alþingi. Þetta sýnir þessa þróun í hnotskurn en sem betur fer hefur þetta breyst og smátt og smátt er ríkari skilningur fyrir því að þessi réttur eigi að vera sá sami fyrir allar konur, hvort sem þær eru úti á vinnumarkaðinum eða vinna inni á heimilunum. Þetta stefnir nú í rétta átt en ég vek athygli á því að samt sem áður er á mikill munur enn sem eftir er að leysa. Ef við tökum annað dæmi, skattalöggjöfina, þá er þar enn þetta óréttlæti að fólk sem vinnur heimastörfin nýtur ekki sama réttar. Hjón njóta ekki sama réttar að þessu leyti nema bæði vinni úti á vinnumarkaðinum. Þetta hefur ekki tekist að fá leiðrétt og ég sé ekki að konur hér inni á hv. Alþingi hafi beitt sér sérstaklega í þessu máli umfram aðra.
    Ég get sleppt að ræða þetta nánar. Þetta hefur ef til vill ekki hernaðarþýðingu í sambandi við frv. sem hér er til umræðu en ég vil þó koma inn á nokkur atriði í frv. sem ég tel að verði að skoða aðeins nánar og þá ekki hvað síst það sem raunar hefur komið fram áður, þ.e. um skipan Jafnréttisráðs. Mér finnst það spor aftur á bak eins og það er í frv. og ég hef allan fyrirvara á að það fyrirkomulag standist. Ég sé ekki nokkra þörf á því að fulltrúar þingflokkanna komi inn í Jafnréttisráð. Mér finnst að það sé miklu betri skipan á Jafnréttisráði eins og það er og ekki hvað síst þegar búið er að
setja í lög, ef að lögum verður, ákvæði 19. gr., sem ég tel mikilvægt atriði í þessari löggjöf og raunar sjálfsagt til þess að vinna að því sem aflaga fer í þessum málum og reyna að ná réttindum á eðlilegan máta. En ég tel að 15. gr. um skipan Jafnréttisráðs sé

röng og er ekki sammála þeim ákvæðum sem þar eru sett fram.
    Það er eins og ég sagði í upphafi ekki ætlan mín nú að ræða frv. mikið. Við, fulltrúar míns flokks höfum, eins og í mörgum málum þar sem skoðanir kannski fara ekki alltaf saman um öll atriði, óbundnar hendur til þess að fylgja eða flytja brtt. við afgreiðslu frv. En það var eitt sem ég saknaði í framsöguræðu hæstv. ráðherra sem er svo mikilvægur þáttur í þessari lagasmíð og raunar var einnig í núgildandi lögum. Það er kostnaðarumsögn um þetta lagafrv. Það fylgdi ekki með þegar frv. var lagt fram hjá stjórnarflokkunum. Þingflokkur Framsfl. óskaði eftir kostnaðarumsögn um frv. eins og það lá þá fyrir. Mér finnst ástæða til, herra forseti, að skýra frá því hér að það sem við höfðum í höndum þegar við vorum að fjalla um frv. var kostnaðarumsögn frá fjmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Umsögnin var dagsett fyrri hluta mars og þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarp til laga um jafna stöðu karla og kvenna felur væntanlega í sér nokkra hækkun á framlagi úr ríkissjóði til jafnréttismála frá því sem gildandi lög kveða á um. Í fjárlögum 1990 er fjárveiting til Jafnréttisráðs 10,1 millj. kr. Með samþykkt frv. telur ráðuneytið að kostnaðarauki ríkissjóðs geti numið allt að 30--50 millj. kr. á ári. Samtals gæti því fjárveiting til Jafnréttisráðs og jafnréttismála numið 40--60 millj. kr. á ári. Það skal þó tekið fram að orðalag frv. er óljóst um fjárskuldbindingar ríkissjóðs vegna jafnréttisáætlunar og framkvæmdaáforma ráðuneyta í jafnréttismálum. Eftirfarandi er mat ráðuneytisins á kostnaðarauka ríkissjóðs og skiptingu kostnaðar á einstaka liði skv. ákvæðum frv.:
    1. Jafnréttisráð skv. 15. og 16. gr. Áætlunin er að þingflokkar á Alþingi tilnefni fulltrúa í Jafnréttisráð auk þeirra fulltrúa sem nú sitja í ráðinu. Fjölgun fulltrúa felur í sér aukinn kostnað vegna þóknunar sem nemur a.m.k. 0,5 millj. kr. á ári. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á mannahaldi eða rekstrarkostnaði við skrifstofu ráðsins þessu samfara.
    2. Áætlun í jafnréttismálum sbr. 17. og 18. gr. Frv. kveður á um að Alþingi samþykki áætlun í jafnréttismálum að fengnum tillögum ráðuneyta og Jafnréttisráðs. Í áætluninni komi fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna í jafnréttismálum. Við fjárlagagerð fær fjmrn. sundurliðaðar tillögur ráðuneyta um fjárveitingar til þessa málaflokks í samræmi við ályktun Alþingis. Skal í greinargerð með fjárlagafrv. birta yfirlit um fyrirhugaðar fjárveitingar og aðgerðir í jafnréttismálum. Þessi ákvæði gera augljóslega ráð fyrir auknum fjárveitingum til jafnréttismála. Ef miðað er við lágmarksfjárveitingu að upphæð 1--2 millj. kr. til einstakra ráðuneyta getur kostnaður ríkissjóðs numið 15--20 millj. á ári.
    3. Jafnréttisráðgjafar sbr. 19. gr. Jafnréttisráðgjafar skulu ráðnir af félmrn. Ef miðað er við ráðgjafa í hvert kjördæmi þýðir það ráðningu a.m.k. 8 starfsmanna auk kostnaðar vegna starfsaðstöðu, ferðalaga um kjördæmið og fleira. Kostnað við hvern

jafnréttisráðgjafa má lauslega áætla 2--3 millj. kr. á ári eða 15--25 millj. kr. þegar þessu ákvæði hefur að fullu verið komið í framkvæmd.
    4. Kærunefnd jafnréttismála sbr. 20.--22. gr. Kærunefnd skipuð þremur fulltrúum skal m.a. rannsaka brot á ákvæðum laganna, beina tilmælum um úrbætur til viðkomandi aðila og höfða mál til viðurkenningar á rétti kæranda ef tilmælum er ekki sinnt. Skrifstofa nefndarinnar skal jafnframt vera skrifstofa Jafnréttisráðs. Áætla má að kostnaður við skrifstofuhald Jafnréttisráðs aukist með tilkomu þessarar nefndar auk þess sem fulltrúum í nefndinni verði greidd þóknun fyrir starf sitt. Áætlaður kostnaður er 2--2,5 millj. kr. á ári en hann mun m.a. ráðast af fjölda kærumála og umfangi þeirrar lögfræðilegu þjónustu sem nefndinni er ætlað að veita.``
    Þetta voru þær upplýsingar sem kallað var eftir og lög gera ráð fyrir að séu við öll lagafrumvörp sem lögð eru fram. Þar sem ljóst er að frv. hefur tekið nokkrum breytingum, m.a. í sambandi við jafnréttisráðgjafa, er ljóst að þessi áætlun fjmrn. og Hagsýslustofnunar, sem var lögð fram í byrjun mars, mun hafa breyst talsvert og ég saknaði þess í framsöguræðu hæstv. ráðherra hvað þetta í raun og veru þýðir miðað við frv. eins og það er sett upp. En ég vil endurtaka
að eitt vandasamasta og erfiðasta atriðið í þessu máli er hvernig hægt er að fá fjármagn og hvernig að því verður staðið til þess að framkvæma lög sem þessi. Reynslan hefur kennt okkur frá því að lögin voru sett 1985, að um visst tregðulögmál er að ræða sem, skulum við segja, hefur alla vega heft talsvert starfsemi og möguleika núverandi Jafnréttisráðs til þess að fylgja fram af meiri krafti því sem það telur, miðað við þá reynslu og upplýsingar sem það hefur í fórum sínum, að þurfi til þess að framkvæma lögin. Þess vegna held ég að þessi þáttur þeirra laga, sem kunna að verða sett um þetta efni, þurfi að vera talsvert skýr og skýrari en hér kemur fram í sambandi við meðferð þeirra áætlana sem ráðherra jafnréttismála mun leggja fram og gert er ráð fyrir að fylgi fjárlagagerð hverju sinni. Ég held að það sé mikilvægt við meðferð þessa máls í nefnd og hér á hv. Alþingi að menn geri sér grein fyrir því hvað það þýðir að herða á þeirri löggjöf sem við höfum, því ef fjármagn er ekki fyrir hendi er mjög vafasamt hvernig þessar breytingar koma til með að virka.
    Herra forseti. Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að hafa hér langt mál. Ég gæti að sjálfsögðu talað um þær breytingar frá gildandi lögum sem verið er að gera í mörgum fleiri greinum. Um sumt get ég sagt strax að ég er samþykkur því en við sumt er spurningarmerki, bæði að því er varðar tilganginn og eins hvort hægt er að ná fram ákvæðum greinanna. Ég tel að jafnréttismálin eigi að þróast í takt við þjóðfélagið og það sé heppilegt að gera það án þvingana en stefna örugglega að því að ná fram eðlilegu jafnrétti sem við erum sjálfsagt allir hv. þm. á Alþingi sammála um að eigi að vera í okkar

þjóðfélagi og nútíminn raunar krefst þess. En ég vil draga vissan lærdóm af því hvers vegna meira en helmingur allra kvenna á Íslandi sem hafa setið í sveitarstjórnum í fjögur ár kýs núna að hætta þátttöku í þeim störfum. Ég hef ekki enn þá séð neina skilgreiningu á því sem skýrir hvers vegna, því að konur í sveitarstjórnum og bæjarstjórnum hafa nákvæmlega sömu aðstöðu og karlar og sömu laun fyrir þau störf sem þær leggja fram þannig að það getur ekki verið skýringin. Og enn á ný beini ég því til Kvennalistans að mér finnst áhrif hans í þessu skyni ekki hafa verið nægjanlega jákvæð eins og ég hef viljað að þau væru miðað við þá stefnu sem Kvennalistinn starfar eftir. En eitthvað hefur mistekist og það sýna líka skoðanakannanir.