Rannveig Guðmundsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem félmrh. hefur lagt hér fram. Fyrst og fremst fagna ég því að frv. er fram komið en hins vegar þarf engum á óvart að koma að félmrh. leggi fram slíkt frv. þar sem ráðherrann hefur sýnt það í verkum sínum sem félmrh. hve jafnréttissinnuð hún er. En nokkur orð vil ég gjarnan hafa um frv.
    Ef við lítum fyrst á I. kafla er í 1. gr. getið um sérstök ákvæði varðandi konur. Í 1. gr. og í 3. gr. er sagt um sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna að þær teljist ekki ganga gegn lögunum. Um þetta hefur aðeins verið fjallað hér. Ég verð að segja að þótt ég óski þess að slík ákvæði þyrftu ekki að vera í lögum þá held ég að við verðum að horfast í augu við að þau eru enn þá nauðsynleg. Því að þrátt fyrir að konur hafi víða haslað sér völl er alveg ljóst, og vita hverjir sem vilja, að enn er langt í land þar til eitthvað sem við getum kallað jafnrétti hefur náðst. Þess vegna held ég að þessi ákvæði eigi að vera inni í bæði 1. og 3. gr.
    Í II. kafla er fjallað um launamál og að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Í 5. gr. er ákvæði um að stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Ég vil taka undir orð hv. 12. þm. Reykv. hér fyrr í umræðunni þar sem hún benti á að það hlytu áfram að vera nokkurs konar sérstök kvennastörf en það sem skipti máli væri að störf kvenna væru ekki verr launuð eða ,,kvennastörf`` fyrir það að þau eru lægra launuð eða á annan hátt metin.
    Nú vitum við að það er oft sagt að greidd séu sömu laun fyrir sömu vinnu en það er alrangt. Það er farið fram hjá því með ýmsum hlunnindagreiðslum og öðru slíku sem þýðir þegar upp er staðið að fyrir sama vinnuframlag við svipuð störf fær fólk ekki sömu laun. Mig langar aðeins út af þessu að koma inn á þá
tilraun sem gerð er núna varðandi kjarasamninga og margir, þar með talið ég, binda miklar vonir við þá nýju leið. Það er skoðun mín að það eigi að nota það svigrúm sem fæst, ef vel tekst til með þessa tilraun, til að endurskoða og endurraða í launaflokka hjá launþegasamtökunum. Við vitum að í gegnum tíðina hefur orðið til einhvers konar röðun. Í kjarasamningum er barátta um einhverjar prósentur og í langan, langan tíma hafa sömu störfin haldið áfram að vera lægst launuð og önnur störf raðast örlítið ofar í skalanum. Í þessu efni vil ég nefna það að fyrir þremur árum voru kjarasamningar lausir hjá bæði ríki og sveitarfélögum. Þá vildi launanefnd sveitarfélaga sem ég átti sæti í á þeim tíma fara nýjar leiðir í kjarasamningum og leitaði eftir því við bæði Reykjavíkurborg og ríki að samstarf yrði um nýja leið í þessum málum. Það er skemmst frá því að segja að bæði Reykjavíkurborg, sem hafði slitið samstarfi við launanefnd sveitarfélaga, og ríkið synjuðu launanefnd

sveitarfélaga um samstarf á þessu sviði. Launanefndin fór þá ein og sér í viðræður við starfsmannafélög sveitarfélaga og meginatriði þeirra kjarasamninga voru nýtt starfsmat hjá öllum sveitarfélögum, endurröðun í launaflokka og að í framhaldi af því yrði samræming á röðuninni.
    Við gerum okkur öll grein fyrir því að þó enn sé langt í land í þessum efnum hefur það samt sýnt sig að þessi endurröðun þýddi endurmat á hinum svokölluðu mjúku gildum og kom það vel fram í umræðu hér fyrr í vetur, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og flutning verkefna frá sveitarfélögum til ríkis, að mjög mikill munur var á launum fólks sem gegndi sömu störfum hjá ríki og sveitarfélögum. Ég get látið nægja að nefna þetta hér við þessar greinar en það er afdráttarlaus skoðun mín að svigrúm sem nú hefur fengist hjá launþegasamtökunum ætti að nota til að endurraða gersamlega upp á nýtt og láta fara fram nýja flokkaröðun og nýtt gildismat á störfum.
    Ég vil aðeins koma inn á 7. gr. þar sem fjallað er um auglýsingar. Ég er mjög ánægð með síðustu málsgr. þeirrar greinar þar sem ákvæðin gilda ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Ég tel að oft þurfi að koma til hvatning í auglýsingum, þar sem annað kynið er kannski í miklum meiri hluta í störfum, til hins kynsins um að sækja um viðkomandi starf.
    Út af því sem kom fram hér í gagnrýni á 1. gr., um að bæta sérstaklega stöðu kvenna til að ná ákveðnum markmiðum og að ekki sé tekið tillit til karla í því efni vil ég benda á bæði 8. og 9. gr. en þar er þess einmitt getið að sama gildi um karla þegar viðkomandi telji að á hann sé hallað.
    Ég vil aðeins leggja orð í belg um III. kafla og 10. gr., þar sem segir að á öllum skólastigum skuli veita fræðslu um jafnréttismál m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Þetta er feikilega þýðingarmikið og þýðingarmikið að þetta geti orðið í raun. Og ég vil tengja þetta ákvæði því sem fram kom hjá hv. 2. þm. Austurl. um að það virtist sem straumar væru að ganga til baka á ákveðnum sviðum og nefndi sveitarstjórnarkosningar og hve fáar konur, sem hefðu verið í sveitarstjórn fjögur ár eða jafnvel meira, væru
tilbúnar að halda áfram.
    Mig langar aðeins að vekja athygli á því hvernig staða kvenna, sem fara í sveitarstjórnir, er. Þær eru gjarnan í fullu starfi, þær bæta við sig sveitarstjórnarstörfunum sem öll fara fram að loknum vinnudegi, oftast nær fundahöld fram yfir og í kvöldmatartímanum og náttúrlega með öllu því sem við þekkjum í ýmsu þinghaldi á fjölskyldutíma, svo sem um helgar. Nú er það staðreynd, hvað sem hver segir, að þegar karlmaður bætir við sig slíkum störfum er mjög algengt að konan reyni að hliðra til, hún minnkar jafnvel við sig vinnu hafi hún verið í fullu starfi, sé um börn eða stóra fjölskyldu að ræða, en

það er ekki viðurkennt af neinum að karlmaðurinn minnki við sig ef konan hefur tekið að sér viðbótarstörf. Og það er þá sem þunginn á fjölskyldulífið og heimilishaldið byrjar, þegar enginn er til að taka ákveðna þætti. Og þá er ég ekki að tala um hin föstu verkefni í heimilishaldi, þvotta, hreingerningar, matseld og annað slíkt. Ég er að tala um alla litlu þættina sem skapa fjölskyldulíf og sem algengast er að konan haldi utan um og sem því miður verður þannig þegar hún hefur fyllt vökutíma sinn af verkefnum að það er enginn til að halda utan um þá þætti. Ég tek e.t.v. nokkuð stórt upp í mig, en ég geri það viljandi til að ýta við. Staða kvenna og karla er mjög ólík, a.m.k. þegar um börn er að ræða í fjölskyldunni. Og ég fullyrði að það yrði ekki viðurkennt af vinnuveitanda ef karlmaður segði: Konan mín er störfum hlaðin í sveitarstjórn eða konan mín er komin inn á þing og hefur mjög mikið að gera, ég vil gjarnan minnka við mig starfið niður í við skulum segja 70%. Ég býst við að hann yrði litinn stórum augum, bara ef hann segði: Gæti ég verið undanþeginn eftirvinnu á meðan svo stendur á? En það fyndist engum undarlegt ef kona sækti um slíkt hið sama. Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að það er kannski, ég get leyft mér að segja, hin sálræna pressa í þjóðfélagi þar sem ofbeldi og þrýstingur gagnvart börnum hefur aukist mjög og að það eru konurnar sem fara að hugsa: Er þetta þess virði, ef þeim finnst of miklu fórnað. Ég vil vekja athygli á þessu gagnvart 10. gr.
    Annað sem ég gjarnan vil koma inn á er 12. gr. Ég hef haft um hana mjög miklar efasemdir. Þar segir að í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skuli, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar. Ég er sannarlega sammála þessu markmiði og vil lýsa því yfir hér að skemmtilegustu nefndarstörf sem ég tek þátt í eru þau þar sem eðlileg blöndun er í hópnum og mig dreymir um þann tíma þegar konur verða helmingur hvort heldur er á þingi eða í nefndum og ráðum af því að ég tel að þá fyrst náist farsæl lausn og stefna í málin. En ég hef svolitlar efasemdir um þessa tilnefningu um bæði konu og karl og ég ætla að færa fyrir því örlítil rök. E.t.v. getur þetta gengið sæmilega þegar, við skulum segja, ráðherra óskar eftir tilnefningum frá ýmsum félagasamtökum eða hagsmunasamtökum og fær nöfn karla og kvenna og einhver einn aðili á síðan að skipa. Þá er þetta eflaust nokkuð vel framkvæmanlegt, ekki veit ég hversu vinsælt þó. En ég hef velt því fyrir mér hvernig þetta er í sveitarstjórn og þar þekki ég mjög vel til. Nú er það svo í sveitarstjórn að yfirleitt kýs hver flokkur einn fulltrúa í fimm manna nefnd. Þar sem ég þekki til er það einungis einn flokkur sem hefur getað kosið tvo. Sá flokkur ætti í engum erfiðleikum, hann mundi velja einn karl og eina konu. Þetta hefur gengið þannig fyrir sig í sveitarstjórn að hver flokkur velur fulltrúa í nefndir og síðan koma fram listar. Ég hef velt því fyrir mér að þó það væru sett nöfn eitt og tvö eða a og b, kona og

karl, hver það er sem á að taka ákvörðun um frá hvaða flokki á að velja konuna og frá hvaða flokki á að segja: Nei, þetta verða of margar konur, það verður að taka karl eða öfugt. Yrði það forseti bæjarstjórnar, yrði það viðkomandi meiri hluti? Ég sé fyrir mér hættu á vissri valdbeitingu þar sem viðkomandi meiri hluti sæti með þetta vald. Hins vegar sé ég líka að möguleiki væri á, þar sem oftast nær eru færðir fram tveir listar, a og b af hálfu meiri hluta og minni hluta, að taka upp ný vinnubrögð þannig að flokkarnir hafi með sér samráð fyrir fram um tilnefningu í nefndirnar, sem ekki hefur verið hingað til. Það hefur verið einkamál hvers flokks hvern hann kýs til nefndarstarfa. Ef þetta á að geta gengið verður einhvern veginn að velja fyrir fram. Og ef reglugerð verður sett um hin ýmsu mál hér er ég hrædd um að það þurfi alla vega að koma einhver leiðbeining um útfærslu vegna þess að annars er talsverð hætta á að það sé hægt að vera með misbeitingu og ráða hver kemur frá hverjum eftir einhvers konar geðþótta.
    Í 13. gr. er fjallað um jafnréttisnefndir og ætla ég ekki að hafa mörg orð um þær en benda á að þar sem ég þekki til í jafnréttisnefndum hafa þær mjög kvartað undan því að þeim sé ætlað algjört frumkvæði í störfum sínum og að það sé þungt undir fæti að starfa í jafnréttisnefndum. En í 8. lið 16. gr. er einmitt kveðið á um að Jafnréttisráð skuli hafa samband við jafnréttisnefndir sveitarfélaga og ég er þeirrar skoðunar að þar þurfi að koma nokkuð miklar ábendingar eða verkefni frá Jafnréttisráði til nefndanna til þess að þær geti unnið vel.
    Ég hef eiginlega ekki mikla skoðun á því sem hér hefur líka verið nokkuð
deilt um en það er skipan Jafnréttisráðs. Það eina sem ég mundi telja að væri hætta á er að þetta væri það fjölmenn nefnd að það yrði erfitt að starfa í henni vegna þess.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég er mjög ánægð með að það skuli vera komið fram. Það hefur komið fram hér í máli ráðherra að umsagnir liggja fyrir. Ég tel að nefndin hljóti að fá þær allar til sín og vonandi þýðir það að frv. eigi greiða leið til skjótrar afgreiðslu í þinginu.