Kristín Einarsdóttir:
    Aðeins örstutt, virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Mig langaði aðeins í tilefni af þessum síðustu ræðum tveim og aðallega hv. 2. þm. Vestf. að segja þetta: Það vill nú þannig til að konur sækjast ekki mikið í störf hjá stóriðjuverum, hvorki hér á landi né annars staðar. Því held ég að áhyggjur hans séu ástæðulausar.
    Það má kannski geta þess um þessa einu konu sem hann minntist á sem vinnur í kerskálanum í álverinu í Straumsvík að þegar hún hóf störf þar þá lögðu karlmenn niður vinnu vegna þess að þeir töldu að þetta mundi leiða til þess að launin lækkuðu í álverinu. Þess vegna var því mótmælt mjög sterklega að hún færi að starfa þar. Og ég held að út af fyrir sig þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því.
    Ég tel að þessi grein sé einmitt mjög mikilvæg, að það sé tekið fram að karlmanni eða konu, ég held að þetta gildi nú yfirleitt um konu, sé veitt starf ef hún uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru vegna starfsins. Þannig er það núna, eða mjög oft og allt of oft, þegar konur sækja um störf þar sem margir karlar eru fyrir, að það eru yfirleitt karlar sem meta hver sé hæfastur. Og þá vill það alloft þannig til að þeir finna út að karlmennirnir séu hæfastir hvernig sem að málinu er staðið. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þessi grein standi. Þetta er kannski ekki síður sagt í tilefni af orðum hv. 17. þm. Reykv. En ég ætla að geyma mér til 2. umr. að ræða þetta mál frekar. Ég vona að frv. komi fljótt hér til 2. umr. þannig að við getum afgreitt þetta mál á þessu þingi.