Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Austurl. beinir til mín hér þremur spurningum og hefur gert grein fyrir tilefninu.
    Í fyrsta lagi hvaða upplýsingar íslenska utanrrn. hafi um umrædda stofnun og til hvaða ráðstafana verði gripið í tilefni af þessum fréttaflutningi. Nú verð ég fyrst að segja að mér er kannski nokkur vandi á höndum að gefa hér og nú mjög ítarleg svör þar sem ég heyrði ekki sjálfur fréttaflutninginn, kom til landsins seint í nótt, hef verið upptekinn í morgun og ekki getað lagt mikið kapp á að afla sérstakra upplýsinga um þetta en vil þó taka fram eftirfarandi.
    Það er vitað í fyrsta lagi að svo kölluð Naval Security Group er starfandi innan varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og, eftir því sem ég hef best getað kannað, hefur hún verið starfandi þar síðan 1970. Ég hef hins vegar ekki staðfestar upplýsingar um það hver hennar starfsemi hafi verið áður en þó er ástæða til að ætla að hún hafi áður haft bækistöð á Höfn í Hornafirði, hversu lengi veit ég ekki á þessari stundu. En með öðrum orðum, íslenska utanrrn. er kunnugt um starfsemi þessa hóps og skilgreining á hlutverki hans er þessi: Hlutverk þessarar stöðvar er að starfrækja hátíðni miðunarstöð og tilgangurinn er tvíþættur. Það er annars vegar til stuðnings við siglingafræðilega hjálpartækja- og björgunarstöð, Air sea rescue, fyrir utan það að hún aflar upplýsinga með því að taka boð sem berast milli sovéskra herflugvéla í grennd við Ísland eða á umræddu svæði.
    Samkvæmt upplýsingum beint frá yfirmanni varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli kannast ég ekki við að umrætt hlerunarloftnet sem vísað var til í fréttinni AFRD-10 sé þar að finna. Stöðin hefur verið skoðuð af varnarmálaskrifstofu íslenska utanrrn., sem hefur verið starfandi frá árinu 1985, og hún var skoðuð fyrir tveimur árum þannig að varðandi fyrstu spurningu, um vitneskju íslenskra stjórnvalda um tilvist þessarar stöðvar, þá er okkur um það kunnugt. Hún er hér
starfandi með leyfi íslenskra stjórnvalda. Okkur er hins vegar ekki kunnugt um það að á vegum þessarar stöðvar fari fram njósnastarfsemi.
    Varðandi þriðju spurningu sem er um það til hvaða ráðstafana skuli gripið, þá er það náttúrlega fyrst og fremst að kanna rækilega nú á næstunni starfsemi þessarar stöðvar. Íslenskum stjórnvöldum var kunnugt um það hlutverk varnarliðsins og þar með þessa hóps að afla upplýsinga eftir fjarskiptasamböndum um ferðir sovéskra kafbáta og flugvéla og samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum er það hlutverk þessarar stöðvar.
    Hitt er svo annað mál að upplýsingar um National Security Agency svokallað er auðvitað víða að finna. Eins og fram kom í máli frsm. er þetta stofnun sem var stofnuð með lögum árið 1952. Starfsemi hennar er mjög heimuleg. Það er ekki fyrr en 1975 sem athygli bandaríska þingsins er vakin á starfsemi hennar með þeim hætti að efnt er til sérstakrar rannsóknar á

starfsemi hennar á vegum þingsins. Þær upplýsingar leiða í ljós að á vegum þessarar stofnunar er ekki aðeins starfsemi sem flokkast undir ,,surveillance`` eða eftirlit, heldur einnig njósnastarfsemi og það svo nákvæmlega að því er haldið fram að þessari stofnun sé það kleift með þeim tæknibúnaði og mannafla sem hún hefur að hlera símtöl, t.d. ráðherra í ríkisstjórn Sovétríkjanna. Þess er sérstaklega getið að það hafi verið á valdi þessarar stöðvar að hlera samtöl Noriega Panamaforseta við hjákonur sínar sem og að hafa eftirlit með upplýsingum um starfsemi sendiráða. Okkur er ekki kunnugt um það í íslenska utanrrn. að starfsemi af þessu tagi fari fram á Miðnesheiði.
    Hitt þarf engum að koma á óvart að fyrir utan þá skipulögðu upplýsingastarfsemi sem aflað er á vegum varnarbandalaganna beggja fer fram önnur starfsemi sem heitir ,,espionage`` eða njósnastarfsemi og er stunduð af miklu kappi. Um það eru til auðvitað mjög viðamiklar upplýsingar að því er varðar bæði stórveldin. Ég hef nú ekki tíma til þess að segja mikið um þá starfsemi hér en vil aðeins ljúka mínu máli á þessari stundu með því að draga saman eftirfarandi:
    Við munum á næstunni kanna rækilega tengsl svokallaðs Naval Security Group í Keflavík við þessa stofnun og kanna og heimta upplýsingar um starfsemi hennar og jafnframt þá vera við því búnir í umræðum um skýrslu utanrrh. hér síðar í vikunni að koma þeim upplýsingum á framfæri og ræða þær betur.