Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það eru merkileg viðbrögð sem m.a. koma fram hjá hv. 1. þm. Suðurl., að um leið og fram kemur opinberlega að Bandaríkin kunni að stunda hér á Íslandi starfsemi sem hefur ekkert með hernað eða varnir að gera þá skuli hann telja það óviðeigandi að gera við það athugasemdir og fara í hinar hefðbundnu kaldastríðsstellingar í þeirri umræðu.
    Auðvitað á það að vera flestum ljóst hér að sú stofnun sem fjallað var um í umræddri frétt stundar að verulegu leyti borgaralegar njósnir. Hún hefur haft það sem verkefni að hlera símtöl víða um heim, símtöl óbreyttra borgara til þess að geta fylgst með stjórnmálaskoðunum þeirra og félagslegri starfsemi. Starfsemi þessarar stofnunar hefur ekkert með hinar svokölluðu varnir að gera. Hún hefur ekkert með það að gera að veita upplýsingar um það með hvaða hætti umferð kafbáta eða flugvéla í kringum Ísland kann að stofna öryggi landsins í hættu samkvæmt dómi þeirra sem telja að slíkt stofni öryggi landsins í hættu. Til þess eru aðrir þættir í starfsemi bandaríska hersins á Íslandi. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að fá það skýrt fram hvort bandarísk stjórnvöld hafa farið fram á það að fá að starfrækja slíkt útibú frá þessari sérstöku bandarísku njósnastofnun hér á Íslandi. Og hvenær íslensk stjórnvöld leyfðu slíkt ef þau hafa þá formlega leyft það.
    Það er svo sjálfsagður hlutur í sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti íslensku þjóðarinnar að það sé upplýst hér á Alþingi hvort íslensk stjórnvöld hafa veitt leyfi til slíkrar starfsemi og þá hvenær. Því ef þau hafa ekki gert það þá hafa bandarísk yfirvöld brotið sjálfstæðan sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar með þeirri starfsemi sem fram fer á Keflavíkurflugvelli samkvæmt þessari frétt.