Eiður Guðnason:
    Virðulegur forseti. Það hefur ekkert komið fram í þessari umræðu sem bendir til annars en að hér fari fram sú starfsemi sem varnarliðið á að annast, þ.e. að fylgjast með skipaumferð á höfunum í kringum Ísland, að fylgjast með flugumferð í loftinu yfir Íslandi. Það hefur ekkert annað komið fram. Fréttir fjölmiðla eru ekki allar réttar. Ég ætla enn einu sinni að minna á að fyrir 9 eða 10 árum varð feiknarlegt upphlaup hér á Alþingi þegar Ríkisútvarpið flutti frétt um það, eftir heimildum í Washington, að á Íslandi væru geymd kjarnorkuvopn. Ég veit að hæstv. núv. fjmrh. man þetta vel því hann var þá þingmaður og beitti sér mjög í þessu máli. Hvað gerðist svo? Ári seinna kom heimildarmaðurinn hingað til lands og það var haldinn fundur í þingflokksherbergi Framsfl. --- ég hef minnt á þetta hér áður, en það þarf að minna á það nokkuð oft --- og sagði: Mér þykir það ákaflega leitt, herrar mínir og frúr, ég hafði rangt fyrir mér. Þannig að ég bið nú menn um að hlaupa ekki upp til handa og fóta þó fram komi í fjölmiðlum einhverjar fullyrðingar sem við vitum og teljum okkur hafa fullvissu um að hafa ekki við nokkur minnstu rök að styðjast, eru eins og hver önnur upphlaupsfrétt.